Frétt

Aukin hætta á sálrænu tjóni sýrlenskra flóttabarna

09. mars 2017 - 11:55:21

Ný umfangsmikil skýrsla Barnaheilla – Save the Children sýnir fram á gífurleg álagseinkenni og andlega vanlíðan barna innan landamæra Sýrlands. Sérfræðingar vara við að sálrænt tjón barnanna geti verið óafturkræft. Nú eru sex ár frá upphafi átakanna í Sýrlandi.

  • Niðurstöður skýrslunnar sýna að 84% fullorðinna og næstum öll börn telja að áframhaldandi sprengju- og loftárásir séu aðalorsakavaldur andlegs álags í daglegu lífi barna
  • 50% barna segja að þeim finnist þau aldrei eða sjaldan örugg í skólanum og 40% að þeim finnist þau ekki örugg við leik úti, jafnvel ekki við eigin heimili
  • 89% fullorðinna segja að börn hafi orðið hræddari og kvíðnari eftir því sem stríðið hafi dregist meira á langinn
  • 71% segja að börn hafi oftar ósjálfráð þvaglát á almannafæri og pissi oftar undir á nóttunni
  • Mörg börn eiga í talerfiðleikum og missa alfarið hæfileikann til að tala
  • Árásargirni og fíkniefnaneysla hefur aukist og sérfræðingar greina frá aukinni tíðni sjálfskaða hjá börnum allt niður í 12 ára
  • Sérfræðingar segja ástandið komið að þolmörkum; ef stríðinu ljúki ekki fljótlega og börnin fái nauðsynlegan sálfræðistuðning, verði mjög erfitt fyrir þau að vinna úr vandanum á fullorðinsárum

Starfsmenn Barnaheilla – Save the Children og sýrlenskir samstarfsaðilar tóku viðtöl við meira en 450 börn, unglinga og fullorðna innan landamæra Sýrlands við vinnslu skýrslunnar. „Invisible Wounds“ er stærsta rannsókn sinnar tegundar sem gerð hefur verið frá upphafi átakanna. Hún lýsir stöðugri skelfingu barnanna og ótta við sprengju- og loftárásir og áframhaldandi ofbeldi. Afleiðingarnar eru hrikalegar fyrir andlega liðan þeirra.

Sérfræðingar sem talað var við segja að börnin þjáist af einkennum ,eitraðs álags’ (toxic stress), eða afleiðinga af miklu, reglulegu eða langvarandi mótlæti á borð við það hryllilega ofbeldi sem átt hefur sér stað í Sýrlandi. Þetta eru verstu afleiðingar álags sem börn geta upplifað. Slíkar langvarandi aðstæður eru líklegar að hafa áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra út lífið, hefta þroska heilans og annarra líffæra og auka hættu á hjartasjúkdómum, fíkniefnaneyslu, þunglyndi og öðrum geðrænum kvillum.

Verstu afleiðingar fyrir börnin

Í skýrslunni kemur fram að stríðið hafi eyðilagt bernsku barnanna. Í viðtölum og rýnihópum kom fram að 78% upplifa sorg og gífurlegan dapurleika stundum eða alltaf - og næstum allir fullorðnir sögðu að börnin hefðu orðið hræddari og óttaslegnari eftir því sem stríðið hefur dregist á langinn. 

Börnin óttast að missa tækifæri í framtíðinni og eiga verra líf þar sem þau hafi missti úr skóla og sum þeirra varla fengið nokkra menntun alla sína ævi.

Ef átökunum linnir fljótt og börn fá stuðning við hæfi geta þau náð sér að mati sérfræðinga. Andlegt ástand í landinu er hins vegar á bjargbrún þar sem fjölskylduhjálp og opinber þjónusta er varla til staðar lengur.

Hinir fullorðnu þjást líka af álagi og eiga erfitt með að takast á við ástandið. Eitt af hverjum fjórum börnum segja að þau hafi sjaldan eða aldrei stað til að fara á eða einhvern að tala við þegar þau eru hrædd, leið eða í uppnámi. 

Fjöldi lækna og sérfræðinga hafa flúið landið og vægðarlausar sprengjuárásir og skertur aðgangur hjálparstarfsmanna að svæðum sem verst hafa orðið úti bitna á almennum borgurum. 

„Við erum að bregðast börnum innan landamæra Sýrlands. Sum þeirra hafa þurft að takast á við hryllilegar afleiðingar stríðsins, að sjá foreldra sína drepna eða að búa við umsátursástand án þess að fá nokkurn stuðning. Við eigum á hættu að dæma heila kynslóð barna til lífstíðarangistar og andlegra og líkamlegra heilsufarsvandamála – og við verðum að tryggja að börn sem hafa þegar misst sex ár af lífi sínu í stríðinu, tapi ekki framtíð sinni líka,“ segir Dr. Marcia Brophy, yfirmaður Save the Children í heilbrigðis- og sálfræðistuðningi í Miðausturlöndum.

Stríðslok eina lausnin

Samkvæmt skýrslunni er eina leiðin til að snúa þróuninni við að enda ofbeldið í Sýrlandi - að sprengjuregnið hætti - enda er það aðal ástæða andlegra vandamála barnanna.

„Við erum að verða vitni að alvarlegri andlegri kreppu í barnasamfélaginu í Sýrlandi, afleiðingu af sex ára stríðsrekstri. Börn lamast af hræðslu þegar þau heyra hátt hljóð, þau eru of skelfingu lostin til að leika úti og of hrædd til að fara í skólann. Ofan á allt það hafa þau áhyggjur af framtíð sinni án menntunar. Þetta er harmleikur sem getur ekki fengið að viðgangast lengur,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Barnaheill – Save the Children kalla eftir tafarlausu vopnahléi og samningaviðræðum um stríðslok. Auk þess skora samtökin á stríðandi fylkingar að hlífa íbúabyggðum og innviðum á borð við skóla og spítala. Umsátri verði tafarlaust hætt og hjálpar- og mannúðarsamtökum veittur skilyrðislaus aðgangur að öllum svæðum til að ná til þeirra sem mest þurfa á að halda. Þá hvetja samtökin stuðningsaðila á alþjóðavísu að skuldbinda sig til að styðja andlega heilsu og velferð barna þar sem neyð ríkir – og að nægilegt fé sé sett í geðheilbrigðis- og sálfræðistuðning innan Sýrlands. 

 

Rannsóknin var unnin frá desember 2016 - febrúar 2017. Alls tóku 458 börn, unglingar og fullorðnir þátt í henni í 7 af 14 héruðum Sýrland auk viðtala við sálfræðinga, hjálparstarfsmenn, foreldra og kennara. Þetta er stærsta og veigamesta skýrsla sem gerð hefur verið um börn og velferð þeirra innan Sýrlands frá upphafi stríðsins.