Frétt

Barnaheill styðja sýrlensk börn

02. júlí 2017 - 15:34:00

IMG_9677 - Ahmad BaroudiStríðsástandið í Sýrlandi hefur nú varað í rúm sex ár. Ástandið hefur síst batnað á undanförnum mánuðum og átökin halda áfram. Hörmungarnar eru ólýsanlegar og réttindi barna eru brotin á degi hverjum.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa undanfarin ár stutt við sýrlensk börn í gegnum svokallaðan Svæðasjóð Save the Children vegna Sýrlands. Sjóðurinn veitir fjármagni til neyðarhjálpar og mannúðaraðstoðar vegna neyðarástandsins sem ríkir í Sýrlandi. Sjóðurinn var settur á stofn árið 2014 svo framlög frá meðlimum Save the Children víðsvegar að úr heiminum gætu nýst sem best og væri stýrt skipulega inn í þau verkefni sem samtökin standa fyrir á svæðinu.

Verkefni sem studd eru af sjóðnum er margs konar en áherslur hafa verið á eftirfarandi þætti:

• að útvega flóttamönnum lífsnauðsynjar á borð við mat, vatn, lyf og önnur neyðargögn

• að útvega börnum í flóttamannabúðum nauðsynleg námsgögn

• að koma á fót öruggum leiksvæðum fyrir börn

• að útbúa örugg námssvæði fyrir börn 36 | Blað Barnaheilla

• að koma á sálfræðilegum stuðningi við börn og fjölskyldur þeirra í flóttamannbúðum

Á síðasta ári veittu Barnaheill 20,6 milljón króna styrk með stuðningi frá Utanríkisráðuneytinu í Svæðasjóðinn. Styrkurinn var meðal annars nýttur í eftirfarandi verkefni:

SÝRLAND – DREYFING NAUÐSYNJAVARA

Save the Children hafa veitt mannúðaraðstoð í Al-Hassakeh í norðaustur Sýrlandi síðan 2014 og voru meðal fyrstu hjálparsamtaka sem settu þar upp varanlega starfstöð. Verkefni hennar eru meðal annars tengd menntun, barnavernd, fæðuöryggi og að útvega nauðsynjavörur (non-food items). Í starfsstöðinni starfa 65 manns, þar af 59 Sýrlendingar.Al-Hassakeh er eitt af fátækustu héruðum Sýrlands og hefur verið síðan löngu áður en átökin í landinu hófust. Svæðið hefur verið undirlagt átökum stríðandi fylkinga auk mikils straums flóttamanna frá Mosul og Ninewa í Írak vegna átaka þar. Ástandið er því skelfilegt fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Þau verkefni sem Svæðasjóðurinn hefur styrkt í Al-Hassakeh snúa að útvegun á nauðsynjavörum fyrir bæði sýrlensk börn og fjölskyldur þeirra sem og flóttamannafjölskyldur frá Írak. Búið var að útvega 500 pakkningar með nauðsynjavörum til fjölskyldna í Al Hole flóttamannabúðunum í lok tímabilsins. Forgangsröðun á dreifingu þeirra var gerð í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

ÍRAK – BARNAVERND

Í Írak eru nú um 240 þúsund sýrlenskir flóttamenn skráðir, þar af eru 46% þeirra börn. Svæðasjóðurinn styrkti mannúðaraðstoð í Dohuk, Erbil og Sulaymaniyah í Írak og í flóttamannabúðum bæði í Dohuk og Erbil þar sem samals um 77 þúsund flóttamenn hafast að. Save the Children stýrðu verkefni í samvinnu við UNICEF þar sem forstöðumaður barnaverndar var ráðinn. Hann sér um þjálfun barnaverndarteymis í búðunum og eftirfylgni á að viðmiðum og reglum um barnavernd og öryggi barna væri framfylgt. Verkefni barnaverndarteymisins er meðal annars að fara á milli búðanna og taka út heilsufar barna, skipuleggja sálfræðiþjónustu, taka á móti vegalausum börnum og sinna eftirlitsmálum. Forstöðumaðurinn stýrði gerð verklagsreglna og samræmingaraðgerðum gagnvart írönskum barnaverndarlögum. Um 114 þúsund börn nutu góðs af barnaverndarþjónustunni. Af þeim fengu um 2700 flóttabörn sérstæk verndarúrræði og lögfræðiþjónustu.

Rúmlega 280 vegalausum börnum var komið fyrir í fóstri en 29 vegalaus börn voru sameinuð fjölskyldum sínum.

EGYPTALAND OG LÍBANON – STUÐNINGUR VIÐ UNGLINGA SEM ERU Á FLÓTTA

Flóttamannahjálp SÞ áætlaði að haustið 2016 hafi um 15 þúsund sýrlensk börn á aldrinum 12-17 ára verið skráð sem flóttamenn í Egyptalandi. Unglingar og ungmenni eru oft á tíðum einn viðkvæmasti og jafnframt gleymdasti hópurinn sem verður fyrir barðinu á aðstæðum á borð við þær sem nú ríkja í Sýrlandi. Mörg börn á þessum aldri verða viðskila við foreldra sína, öryggi þeirra er því ógnað á margvíslegan hátt og rof verður á skólagöngu þeirra. Með stuðningi Svæðasjóðsins hafa landsskrifstofur Save the Children í Líbanon og Egyptalandi hrundið af stað sameiginlegu tilraunaverkefni sem miðar að valdeflingu unglinga á flótta. Haldnar hafa verið vinnustofur, teymisfundir og þjálfanir þar sem rædd eru málefni á borð við menntun, öryggi, hreinlæti og þátttöku. Í borginni Nasr var sérstaklega unnið með ungum stúlkum en í Bekaa og Tripoli voru hóparnir blandaðir.

LÍBANON – MENNTUN OG ÞROSKI

Í september 2016 bjuggu að minnsta kosti 1,1 milljón sýrlenskir flóttamenn í Líbanon. Eins og gefur að skilja er samfélagskerfið að sligast undan álagi sem hefur allskyns neikvæð áhif, ekki síst á börn sem eru oft á tímum tekin úr skóla, látin vinna og fæðuörggi þeirra er ógnað. Samkvæmt áætlun frá Alþjóðabankanum búa um 200 þúsund Líbanir við skort til viðbótar við bágt ástand flóttamanna. Save the Children vinna í samstarfi við innlend hjálparsamtök við að uppfylla réttindi barna í landinu óháð uppruna með áherslu á menntun, vernd, skjól og hreinlæti. Með stuðningi Svæðasjóðsins þjálfa samtökin fólk til að vinna með börnum á þessum sviðum.

Önnur verkefni sem Svæðasjóðurinn styrkti á tímabilinu varða til dæmis stuðning vegna fátæktar í Jórdaníu, forvarnarverkefni vegna eldhættu í Líbanon, Every Last Child herferð Save the Children í Jórdaníu og stuðning við málsvarahlutverk og kynningarstarf samtakanna af ástandinu á svæðinu.

Ljóst er að þau verkefni sem Svæðasjóðurinn styrkir eru gríðarlega mikilvæg til að lina þjáningar þeirra barna sem hafa orðið fyrir barðinu á því skelfilega ástandi sem ríkt hefur í Sýrlandi undanfarin 6 ár. Verkefnin eru breytileg frá ári til árs og á milli svæða. Sums staðar er verið að veita mannúðaraðstoð í formi lífsnauðsynja en annarsstaðar er reynt að uppfylla önnur réttindi barna, svo sem til menntunar, þátttöku og verndar.Af nógu er að taka og það sem fram hefur komið hér er aðeins brot af því starfi sem Save the Children vinna á svæðinu.

Erna Reynisdóttir

 

Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2017.