Frétt

Langt í land með að uppræta barnafátækt

15. desember 2016 - 14:53:00

ForsíðaEnn er langt í land með að uppræta barnafátækt á íslandi og í öðrum Evrópulöndum og ekkert Evrópuland er laust við barnafátækt. Lítið hefur þokast í þá átt að uppræta fátækt í álfunni, þrátt fyrir markmið Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins um áratugaskeið.

Fleiri börn en fullorðnir búa við fátækt. Norðurlönd skera sig þó úr hvað þetta varðar og er staða barna ekki verri en fullorðinna nema á Íslandi þar sem 11 % fullorðinna eiga á hættu að búa við fátækt eða félagslega einangrun en 14% barna. Það eru um 11.000 börn sem samsvarar öllum börnum í Garðabæ og Hafnarfirði. Frá árinu 2008 er lítill árangur í að uppræta fátækt meðal barna á íslandi.

Þetta er meðal niðurstaðna í nýútkominni skýrslu um fátækt barna og tengsl bágs efnahags við skort á tækifærum og menntun sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi kynntu í dag. Skýrslan nefnist á ensku ENDING EDUCATIONAL POVERTY AND CHILD POVERTY IN EUROPE - Leaving no child behind, eða Tengsl barnafátæktar og skorts á  tækifærum og menntun. 

Rúmlega 25 milljónir barna í Evrópu eiga á hættu að lenda í fátækt og félagslegri einangrun samkvæmt áætluðum tölum fyrir árið 2015. Þetta eru 28% barna undir 18 ára sem samsvarar því að meira en fjórða hvert barn álfunnar búi við fátækt. Væru þessi börn ein þjóð, þá væru þau 7. fjölmennasta þjóð Evrópusambandsins.

Börn sem búa við fátækt eru líklegri til að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar og hefur það mjög afdrifarík áhrif á líf þeirra og framtíðarhorfur.

Orsakir fátæktar

Ein meginorsök fátæktar er ójöfnuður sem er að aukast í Evrópu oghefur slæmar afleiðingar á börn. Þau verst stöddu verða enn frekar útundan hvað varðar menntun og tækifæri, heilsu og lífsfyllingu. Velmegun er í boði fyrir sífellt minnkandi hóp og færri og færri fjölskyldur hafa möguleika á að fjárfesta í börnum sínum og veita þeim tækifæri. Það lýsir sér meðal annars í því að 10 % heimila í Evrópu þéna 31% tekna og eiga 50% eigna.

Auk ójöfnuðar er atvinnuleysi og niðurskurður í velferðarþjónustu meginorsök þess að fátækt er viðvarandi.

Stöðugur niðurskurður hefur verið í öllum Evrópulöndum á framlög til menntunar frá árinu 2008, að meðaltali 3% frá 2010-2013. Þetta hefur gífurleg áhrif á stöðu barna og möguleika þeirra. Fimmti hver unglingur í Evrópu hefur ekki náð lágmarksárangri í lestri og stærðfræði. Hann býr því við fátækt á sviði menntunar sem takmarkar möguleika hans á að kljást við verkefni dagslegs lífs í framtíðinni.  

Fátækt 2016 MJRSterk tengsl eru á milli efnislegs skorts og menntunar og tækifæra barna. Félagslegur og efnahagslegur bakgrunnur foreldra, sem og uppruni, hefur mikil áhrif á árangur barna í skóla. Fátækt á sviði menntunar er ein grundvallarástæða atvinnuleysis ungs fólks. Börn sem hætta snemma í námi með litla færni og hæfni eiga frekar á hættu að vera atvinnulaus eða vera í láglaunastörfum sem fullorðnir einstaklingar.

Að búa við efnislegan skort eykur líkurnar á minni menntun og tækifærum og öfugt. Þar að auki hafa mörg börn sem búa við kröpp kjör takmarkaðan aðgang að menningu, afþreyingu, íþróttum og félagslífi, sem myndi auka lífsgæði og velferð þeirra og veita þeim lífsfyllingu.

Í Evrópu teljast 20% barna fátæk á sviði menntunar. Gæðamenntun er lykillinn að þroska barna.
 
Barnaheill skilgreina fátækt á sviði menntunarsem skerðingu á réttindum barna til menntunar, tækifæra til náms og til að þroska færni til að takast á við breytilegan heim á árangursríkan hátt. Þau fá ekki að taka þátt í samfélaginu á sama hátt og önnur börn og öðlast því ekki þá reynslu og þann félags- og tilfinningaþroska sem er nauðsynlegur til að vera virkur samfélagsþegn. Menntunarleg fátækt færist einnig gjarnan á milli kynslóða. 

Aðstæður barna sem búa við fátækt:

·         Uppruni og bakgrunnur foreldra hefurvíðast hvar mikið vægi. Í allflestum Evrópuríkjum eru meiri líkur á fátækt ef foreldrar eru af erlendum uppruna, að meðaltali 15% meiri líkur. Þessu er þó öfugt farið á Íslandi, Lettlandi og Ungverjalandi.  Á Íslandi eru í raun 5% minni líkur á fátækt ef foreldrar eru fæddir í öðru landi en Íslandi. (Var 3% samkvæmt fyrri skýrslu.)
 
·         Menntun foreldra: Í öllum Evrópulöndum, nema á Íslandi eru 30%-80% eða meiri líkur á fátækt barna ef foreldrar hafa litla menntun. Á íslandi er munurinn 18% og er það minnsti munur í Evrópu. Samkvæmt fyrri skýrslu sem kom út árið 2014 var munurinn 30% á Íslandi og hefur því minnkað frá þeim tíma.
 
Atvinnuþátttaka foreldra. Börn foreldra sem eru atvinnulausir eða með lága atvinnuþátttöku í Evrópu eiga 54% meiri hættu á að búa við fátækt en börn foreldra með háa atvinnuþátttöku og fer yfir 60% í sumum Evrópulöndum. Á Íslandi eru líkurnar 35%.
 
Áhrif efnahagskreppunnar eru þau að þrátt fyrir að foreldrar hafi atvinnu er það ekki trygging fyrir því að fjölskyldan búi ekki við fátækt. Í sumum Evrópulöndum, svo sem Búlgaríu, Spáni, Svíþjóð og Lúxemborg, eiga 20% barna foreldra á vinnumarkaði á hættu að búa við fátækt. Á Íslandi eiga 15% þeirra sem eru á vinnumarkaði á hættu á að búa við fátækt, sem er hærra en meðaltal Evrópu. Um er að ræða fjölskyldur með tekjur undir 60% af meðaltekjum.

Árangur í námi - PISA

Í skýrslunni voru skoðaðar niðurstöður PISA, ekki síst tengsl námsárangurs og laks efnahagslegs- og félagslegs bakgrunns nemenda. Sterk tengsl eru þar á milli. Börn með hve lakastan efnahags- og félagslegan bakgrunn eru 33% líklegri til slaks árangurs í stærðfræði og 26% í lestri. Á Íslandi er munurinn um 20% í lestri og 22 % í stærðfræði.Þessi verst stöddu börn búa gjarnan við aðstæður þar sem þau hafa ekki aðstöðu til náms og taka ekki þátt í íþróttum, menningu eða öðrum tómstundum. 

Áhrifaríkasta leiðin til að minnka ójöfnuð og fátækt á sviði menntunar er að auka færni þeirra barna sem eru hve verst stödd.

Brottfall

Fátækt 2016 JTSkortur á menntun er einn helsti áhættuþáttur fátæktar og brottfall er einn mælikvarðanna. Eitt af meginmarkmiðum Evrópa2020 áætlunarinnar var að minnka brottfall úr framhaldsskólum niður fyrir 10% fyrir árið 2020. Samkvæmt skýrslunni er meðaltal brottfalls í Evrópu 11% og eru mörg Evrópulönd að ná 10% markinu, en 11 lönd eru langt frá því, þar á meðal Ísland. Brottfall á Íslandi er 18,8%. Brottfall á Norðurlöndum er; Danmörk: 8%, Svíþjóð: 7%, Finnland: 9%, Noregur: 11%
 
Miðað við þróunina hér á landi undanfarin ár mun ekki takast að koma brottfalli niður fyrir 10% fyrr en árið 2030.  Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað gert athugasemdir við hátt brottfall nemenda úr framhaldsskólum á Íslandi. Aðgerða er þörf.

Áskorun

Fátækt 2016 ImbaRúmlega 40% barna á Íslandi á aldrinum 0-3 ára eru skráð í leikskóla eða aðra umönnun utan heimilis en um 98% barna frá þriggja ára aldri. Samkvæmt áætlunum í Evrópu er lögð áhersla á að öll börn hafi algang að þroskandi námsumhverfi frá unga aldri, þar sem árin frá fæðingu að grunnskóla skipta sköpum fyrir þroska barnsins. Barnaheill skora því á stjórnvöld að lengja fæðingarorlof og tryggja að öll börn eigi öruggt skjól í þroskandi námsumhverfi á vegum sveitarfélaga eftir að fæðingarorlofi lýkur.
 
Barnahell skora jafnframt á stjórnvöld að:
 
•              Tryggja gjaldfrjálsa gæðamenntun fyrir öll börn.
•              Minnka brottfall úr skólum með raunhæfum aðgerðum sem virka.
•              Styrkja mennta- og velferðarkerfið ásamt beinum inngripum fyrir þau börn sem eiga við einhvers konar erfiðleika að etja. Mennta- og velferðarkerfið eru helstu tæki jöfnunar og félagslegs réttlætis fyrir börn.
•              Tryggja aðgang allra barna að tómstundum, listum og skemmtunum.
•              Tryggja að öll börn sem fæðast á Íslandi geti vænst þess að hafa tækifæri til menntunar, heilsu og lífsfyllingar og ekkert barn muni búa við fátækt.
•              Hafa fjárfestingu í börnum sem leiðarljós í fjárlagagerð á öllum stjórnsýslustigum, þar sem fjárfestingin mun skila sér til alls samfélagsins í nútíð og framtíð.
•              Að líta ekki á fjármagn í þjónustu við börn sem útgjöld.
 
Eitt barn sem býr við fátækt og félagslega einangrun er einu barni of mikið. Eitt barn sem ekki fær tækifæri til að þroska hæfileika sína og eiga líf sem það telur gott er einu barni of mikið.

Íslenskt samfélag getur ekki skorast undan því að horfast í augu við barnafátækt. Þjóðarsátt þarf um að útrýma fátækt og tryggja að öll börn á Íslandi geti lifað með reisn, fái að þroskast og nýta hæfileika sína. 
 

Skýrsluna má nálgast í heild sinni hér.