Frétt

Vinátta er komin í grunnskóla

27. september 2017 - 14:58:35

Margrét Júlía með grunnskólaefniðNú hafa Barnaheill einnig gefið út Vináttuverkefni fyrir grunnskóla, en frá árinu  2014 hefur leikskólum staðið efnið til boða og nú eru 40% leikskóla á Íslandi með Vináttu. Vinátta er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir börn frá 1–8 ára og byggir á nýjustu rannsóknum á einelti. Efnið hefur gefið afar góða raun og mikil ánægja er með það. Vináttuverkefnið er danskt að uppruna og nefnist á frummálinu Fri for mobberi. Það er þýtt, staðfært og gefið út með góðfúslegu leyfi og í samstarfi við Red barnet og Mary Fonden í Danmörku.

Veturinn 2017–2018 taka 14 grunnskólar í sex sveitarfélögum þátt í tilraunavinnu með efnið. Eftir það verður efnið yfirfarið, gefið út að nýju og boðið öllum grunnskólum landsins.

Átta grunnskólar í Kópavogi tóku þátt í námskeiði 19. og 20. september og fengu afhent námsefnið til að hefja tilraunakennslu. Á næstunni verður svo haldið námskeið fyrir skóla hinna sveitarfélaganna.

Ánægja með Vináttu

Mikil ánægja og árangur hefur verið með Vináttu hjá þeim leikskólum sem unnið hafa með efnið; hjá kennurum, foreldrum og ekki síst börnunum. Um 100 leikskólar í fjölmörgum sveitarfélögum vinna nú með Vináttu. Þar af eru nær allir leikskólar Kópavogs.

„Það er það einstaklega ánægjulegt að efnið sé nú tilbúið fyrir grunnskóla og að börn úr Vináttuleikskólunum í heilu sveitarfélagi fái að halda áfram með Vináttu  þegar þau koma í grunnskóla, eins og raunin er í Kópavogi. Það hjálpar til við að brúa bilið á milli skólastiga og stuðlar að samfellu. Þau halda því áfram með það sem búið er að byggja upp. Það eykur öryggi þeirra og auðveldar grunnskólanum að takast á við samskipti barnanna. Það er svo mikilvægt að samfélagið sem heild standi gegn einelti og útilokun og vinni saman að því,“ segir Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri Vináttu hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.

Þau sveitarfélög og grunnskólar sem taka þátt í tilraunavinnu fyrir grunnskólaefnið veturinn 2017–2018 eru Álfhólsskóli, Hörðuvallaskóli, Lindaskóli Kársnesskóli, Kópavogsskóli, Smáraskóli, Snælandsskóli og Vatnsendaskóli í Kópavogi, Grunnskóli Seltjarnarness, Grunnskólinn í Borgarnesi, Grunnskóli Borgarfjarðar á Hvanneyri, Grunnskóli Hveragerðis, Klébergsskóli í Reykjavík, Grundaskóli á Akranesi og Njarðvíkurskóli í Reykjanesbæ.


IMG_5309IMG_5319IMG_5265IMG_5288IMG_5352b