Frétt

Vinátta í verki

06. júlí 2015 - 10:21:23

Vinatta1Sex leikskólar í jafnmörgum sveitarfélögum hafa tekið þátt í tilrauna- og aðlögunarvinnu með Vináttu- verkefni Barnaheilla veturinn 2014-2015. Vinátta er forvarnarverkefni gegn einelti í leikskólum. Reynslusögur starfsfólks skólanna gefa hugmynd um hvernig verkefnið hefur tekist og hver upplifunin er hjá börnum, foreldrum og starfsfólki. Leikskólarnir eru Kirkjuból í Garðabæ, Álfaheiði í Kópavogi, Vesturkot í Hafnarfirði, Leikskóli Seltjarnarness, Hlíð í Mosfellsbæ og Ugluklettur í Borgarbyggð.

Alls staðar telur starfsfólk leikskólanna að Vinátta hafi haft góð áhrif á börnin, sérstaklega þau börn sem sýni hegðun sem megi bæta. Verkefnið þykir henta börnum best eftir að þau eru orðin 3-4 ára. Starfsmenn eru sammála um að Vinátta samlagist og samnýtist auðveldlega öðru skólastarfi. 

Vinátta þykir einnig frábært verkfæri til að vinna að því að ná markmiðum sem sett hafa verið í skólastarfinu. Aðferðirnar þykja góðar til að efla samskipti, tjá tilfinningar, sýna samkennd, læra að hlusta og taka tillit til annarra. Þá þykir leiðbeiningaheftið gefa margar góðar hugmyndir að skemmtilegum verkefnum. 

Hjá flestum skólanna var sérstakur foreldrafundur haldinn til að kynna verkefnið. Þar var innihald töskunnar og kynnt. Þar með gafst foreldrum tækifæri til að kynnast verkefninu í raun. Þetta gaf verkefninu byr undir báða vængi. Foreldrar barnanna eru mjög ánægðir með verkefnið og hafa sumir haft orð á því að þetta væri einmitt það sem hefði vantað fyrir þeirra barn og leikskólann.

BLÆR OG HJÁLPARBANGSARNIR


BlærStóri Blær er yfirleitt með í verkefnum og hjálpar til á mismunandi hátt. Þegar Blær kom í leikskólann í fyrsta sinn og börnin fengu litlu bangsana í hendur, var það gert með sérstakri athöfn í leikskólunum. Í einum leikskólanna fóru börnin á pósthús og sóttu bangsana, í öðrum komu þeir með rútu, þrír í hverju sæti, vel spenntir í öryggisbelti, í þeim þriðja komu þeir í fylgd flugstjóra sem hafði flutt þá frá Ástralíu og svo framvegis. Leikskólarnir hafa hins vegar notað litlu bangsana á mismunandi hátt. Yfirleitt eru þeir bara með í Vináttu-tímunum, en stundum eru bangsarnir með allan daginn og einstaka sinnum fá þeir að fara með krökkunum heim. Flestir hafa útbúið sérstakar hirslur eða heimili fyrir litlu hjálparbangsana þar sem þeir geta hvílt sig og gist, eins og myndirnar sýna.

Blær getur komið að góðum notum í kennslunni, en hann huggar líka og styður krakkana ef á þarf að halda. Almenn ánægja er með hve auðvelt er að samþætta Vináttu vinnu með Barnasáttmálann. Í einum skólanum gáfu börnin böngsunum til dæmis nöfn, því samkvæmt sáttmálanum eiga allir rétt á að eiga sitt eigið nafn.

Vinatta2SAMRÆÐUSPJÖLD

Mest er unnið með spjöldin, enda er þar verið að vinna með tilfinningar og ræða aðstæður og samskipti sem koma upp hjá börnunum, en einnig meðal starfsfólks og foreldra. Á spjöldunum er bæði að finna dæmi um samskipti sem þarf að bæta, en ennig er þar að finna dæmi um jákvæð samskipti, hjálpsemi og vináttu. 

Þegar óæskileg hegðun eða aðstæður koma upp í samskiptum barnanna geta starfsmenn gripið spjald sem samsvarar þeim aðstæðum og rætt við börnin á hlutlausan hátt. Börnin finna lausnir sem svo er hægt að heimfæra upp á raunverulegar aðstæður, án þess að þau börn sem í hlut eiga séu dregin í dilka. 

Tilvísun starfsfólks og foreldra í Vináttu getur því verið mikill stuðningur þegar takast þarf á við ákveðnar aðstæður hjá börnunum.

NUDD

Vinatta3Allir krakkarnir elska nuddið – það skapar nánd og kennir börnunum að skiptast á, bíða og taka tillit hvert til annars. Það tengist einnig vel inn í hópastarfið. Foreldrar njóta þess að heyra hvað börnin hafa að segja um nuddið þegar þau eru spurð hvernig þeim líði, bæði þegar þau gefi og fái nudd. Lögð er áhersla á að börnin spyrji hvort þau megi nudda og þakki líka fyrir.

KLÍPUSÖGUR

Klípusögurnar þykja mjög gagnlegar til að ræða ýmis atvik sem upp geta komið og hvernig hægt sé að taka á þeim. Klípusögur eru til að nota á foreldrafundum og fundum með starfsfólki. Foreldrar hafa lýst ánægju sinni með klípusögurnar.


Reglur af kirkjuboli

HUGREKKI

Börnin hafa tekið sérstöku ástfóstri við orðið „hugrekki“ sem er eitt gilda Vináttu. Þau telja það mannkost að þora að stíga fram og eru stolt af því að vera hugrökk og brjóta upp neikvæða hegðun. 

Foreldrar eru mjög jákvæðir með að Vináttu-verkefnið skuli vera tekið til notkunar í leikskólanum og þeir eru almennt forvitnir um það. Þeim þykir það falla vel að því sem er í gangi í leikskólunum. Margir þeirra vilja vita hvenær efnið verður innleitt í grunnskólum.

DÆMI AF LEIKSKÓLUNUM

Dæmi 1

Dæmi 2

Dæmi 3


Sigríður Guðlaugsdóttir

Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2015