Vinatta Logo  Tilkynna Logo

Menntun

SkólastofaMenntun hefur áhrif á heilsu, innkomu og lífshorfur og er er einn mikilvægasti hluti þeirrar aðstoðar sem Barnaheill – Save the Children veita. Þetta á ekki síst við þegar kemur að neyðaraðstoð eða hjálparstarfi í stríðshrjáðum löndum. Samtökin vinna að því að tryggja að hvert barn í heiminum fái gæðamenntun og öðlist hæfileika og þekkingu til að þrífast og dafna í lífinu. Menntun flokkast til grundvallarréttinda barna og er bundin í lög. Hún er grunnurinn að mannlegri, félagslegri og efnahagslegri þróun.  

Mikilvægi menntunar

Í alþjóðlegri skýrslu samtakanna um stöðuna árið 2014 kemur fram að 58 milljónir barna í heiminum voru svipt rétti sínum til menntunar, eða eitt af hverjum 10. 

Stelpa lærir

Auk þess búa um 250 milljón börn við aðstæður í menntamálum sem aftra þeim frá því að ná tökum á námsefninu. Þannig eru ekki allir kennarar þjálfaðir, skólabækurnar eru á tungumáli sem börnin skilja ekki eða þau eru einfaldlega of svöng til að einbeita sér að náminu. Í dag eru fleiri börn í skóla sem ná ekki tökum á námsefninu, en börn sem ekki eru í skóla. Til að breyta þessu eru Barnaheill - Save the Children í fararbroddi við að koma á framfæri og bjóða nýjar aðferðir sem byggja á heildrænni nálgun út frá börnum.

Menntun er ekki einungis mikilvæg ein og sér, hún hefur áhrif á að bjarga mannslífum og eykur líkurnar á friði og stöðugleika. Í skýrslunni kemur einnig fram að:

  • strákur í skólaSé móðir læs er barn 50% líklegra til að lifa fram yfir fimm ára aldur
  • Eitt ár í skóla umfram grunnmenntun eykur tekjumöguleika um 10%
  • Ef allar stúlkur hefðu grunnmenntun, væru stúlknabrúðkaup 14% færri
  • Kjósendur með grunnmentun eru 1,5 sinnum líklegri til að styðja lýðræði

Barnaheill - Save the Children komu menntaverkefnum á fót í 84 löndum á árinu 2014 og náðu þannig til 11,8 milljóna barna. Í samvinnu við alþjóðleg fyrirtæki á borð við IKEA, Wrigley Oral Health og Bulgari og samvinnu við alþjóðasamtök á borð við UNICEF hefur tekist að ná til enn fleiri barna en annars hefði verið mögulegt.

 

Rewrite the Future

Alþjóðlegt átak samtakanna í menntunarmálum, Bætum framtíð barna (e. Rewrite the Future), stóð yfir frá árinu 2006 til ársins 2010. Frá því að farið var af stað með átakið, jókst menntunaraðstoð á stríðshrjáðum svæðum um 50 prósent og mannúðaraðstoð tvöfaldast.
 

Markmið átaksins var þríþætt: 

  1. Að veita þremur milljónum barna, sem ekki höfðu verið í skóla vegna stríðsátaka, menntun, og að bæta menntun að minnsta kosti fimm milljóna barna til viðbótar í 20 stríðshrjáðum löndum til ársins 2010.
  2. Að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á aðstæðum barna í stríðshrjáðum löndum og nauðsyn þess að leggja meira fjármagn í menntun þeirra. Öðruvísi yrði þúsaldarmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um grunnmenntun fyrir öll börn ekki náð fyrir árið 2015.
  3. Að grunnmenntun barna yrði hluti af neyðaraðstoð. Ekki síst vegna þess að í fjölmörgum löndum, þar sem eru stríðsátök, er miklu fé varið til neyðaraðstoðar svo árum skiptir og því er mikilvægt að neyðaraðstoðin feli í sér skólagöngu fyrir börn.

Árangur

Afri´ka krakkar læra

Alls náðu samtökin að bæta gæði menntunar hjá meira en 10 milljónum barna í 24 stríðshrjáðum löndum og veita 1,7 milljónum barna aðgang að skóla. Þetta gerðu samtökin með því að byggja skóla og kennarabústaði með nauðsynlegri aðstöðu, þjálfa kennara, dreifa námsgögnum og virkja stjórnvöld, börn, foreldra og nærsamfélög þeirra. 

Alþjóðasamtökin vinna áfram að því að gera börnum í stríðshrjáðum löndum kleift að komast í skóla og bæta gæði menntunar þeirra því þrátt fyrir að grunnmenntun sé réttur barna um allan heim, hefði fjöldi barna frá stríðshrjáðum löndum aldrei stigið fæti inn í skólastofu án aðkomu samtakanna og samstarfsaðila þeirra.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi studdu verkefni í Afganistan, Kambódíu og Norður-Úganda í gegnum Bætum framtíð barna með samtals 69 milljónum króna og  menntunarstarf í Norður-Úganda til ársins 2015.

 

Afrika menntun

Barnaheill – Save the Children náðu miklum árangri í að vekja alþjóðasamfélagið; ríkisstjórnir fjölmargra landa og alþjóðlegar stofnanir til vitundar um aðstæður barna í stríðhrjáðum löndum og mikilvægi þess að leggja meira fjármagn í menntun þeirra. Þegar átakið  hófst árið 2006 voru 42 milljónir barna í stríðshrjáðum löndum utan skóla en í lok ársins 2010 hafði þeim fækkað um 7,5 milljónir og voru 34,5 milljónir. Alþjóðasamtökin náðu einnig árangri í því að grunnmenntun barna yrði hluti af neyðaraðstoð, og eru þau nú í teymi (e. cluster) með UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, um grunnmenntun barna á svæðum, þar sem neyðaraðstoð er veitt. Þetta er í fyrsta skipti sem alþjóðleg frjáls félagasamtök eru í svo formlegu samstarfi við stofnun á vegum SÞ.

Þess má geta að Barnaheill – Save the Children fengu verðlaun í lok ársins 2010 frá World Innovation Summit for Education (WISE-verðlaunin) fyrir Bætum framtíð barna. Alls voru 400 tilnefningar til verðlaunanna frá 89 löndum og er það mikill heiður fyrir alþjóðasamtökin að hljóta verðlaunin fyrir mikilvægt starf í þágu barna í stríðshrjáðum löndum, barna sem er svo erfitt að ná til og svo auðvelt að gleyma.

Tengdar fréttir:

BARNAHEILL – SAVE THE CHILDREN FÁ VERÐLAUN FYRIR NÝSKÖPUN Í MENNTUNARMÁLUM

HORFIN BARNÆSKA - BARNAHEILL EFNA TIL SÖFNUNAR Á HEILLAVINUM

BEN STILLER OG BULGARI TAKA ÞÁTT Í AÐ BÆTA FRAMTÍÐ BARNA

ÍSLENSKIR RITHÖFUNDAR SENDA BAN-KI MOON BRÉF

BÆTUM FRAMTÍÐ BARNA

BARNAHEILL FÁ 10 MILLJÓN KRÓNA STYRK FRÁ UTANRÍKISRÁÐUNEYTINU

BÆTUM FRAMTÍÐ BARNA Í KAMBÓDÍU

MENNTUN Í ÞÁGU FRIÐAR - NÝ SKÝRSLA ALÞJÓÐASAMTAKA BARNAHEILLA

BÆTUM FRAMTÍÐ BARNA Í STRÍÐSHRJÁÐUM LÖNDUM –MENNTUN OG FRIÐUR

STUÐNINGUR BARNAHEILLA VIÐ MENNTUN BARNA Í KAMBÓDÍU