Vinatta Logo  Tilkynna Logo

Norður-Úganda

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa á árunum 2007-2010 lagt 53,2 milljónir króna í menntaverkefni samtakanna í Pader-héraði í Norður-Úganda, með ríkulegum stuðningi utanríkisráðuneytisins. Fyrir fjármagnið hafa verið byggðir skólar og kennarabústaðir með allri nauðsynlegri aðstöðu. Haldin hafa verið þjálfunarnámskeið fyrir kennara og skólayfirvöld og haldnir fræðslufundir með skólafólki, foreldrum og fleirum um réttindi barna. Sömuleiðis hafa verið námskeið fyrir börn til að fræða þau um réttindi sín og virkja þau til að taka þátt í skólastarfi og uppbyggingu samfélagsins. Kennarar, foreldrar og börn hafa fengið fræðslu um heilsuvernd og varnir gegn sjúkdómum, þ.á m. alnæmi. Námsgögnum hefur verið dreift til fjölda barna og þátttaka foreldra í skólastarfi verið efld.

Verkefnið, sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi styðja í Pader- og Agoge-héruðum fram til ársins 2013, miðar að því að auka skólaaðgang,  bæta gæði menntunar, auka heilbrigði og auka vernd  ríflega 30 þúsunda barna í héruðunum. Sérstök áhersla er lögð á að ná til barna sem ekki eru í skóla, og þá sérstaklega til stúlkna, að bæta kennsluaðferðir og kennsluumhverfi, að styðja menntayfirvöld í því að efla menntun og vernda börn gegn ofbeldi og misnotkun.

Formaður og framkvæmdastjóri Barnaheilla –Save the Children á Íslandi, þau Helgi Ágústsson og Petrína Ásgeirsdóttir, heimsóttu Norður–Úganda í nóvember 2010. Með í för voru Gerður Kristný rithöfundur, sem bloggaði um heimsóknina á fréttavefsvæðinu eyjan.is, og Jakob Halldórsson kvikmyndatökumaður. Markmið heimsóknarinnar var að fræðast um uppbyggingarstarfið sem Barnaheill –Save the Children á Íslandi hafa stutt undanfarin ár og funda með samstarfsaðilum og þeim sem njóta góðs af starfinu.

Alls voru sex skólar heimsóttir auk þess sem fundað var með börnum, foreldrum, kennurum, skólastjórnendum, fulltrúum fræðsluyfirvalda og sveitastjórnarmanna í héruðunum. Heimsóknin var afar gagnleg og gaf glögga mynd af því mikla starfi sem samtökin hafa tekið þátt í undanfarin ár, en einnig fengust greinargóðar upplýsingar um það sem þarf að gera.  Þannig er það áhyggjuefni að mörg barnanna hafa ekki aðgang að mat á skólatíma. Á næstu misserum verður lögð áhersla á að bæta úr því ástandi og í desember 2011 fengu samtökin styrk að til þess verkefnis frá utanríkisráðuneytinu.

Stríðsátökin í Norður-Úganda, sem stóðu í 20 ár og lauk árið 2008, leiddu til algjörs hruns og eyðileggingar á innviðum samfélagsins. Fjöldi skóla, heilsugæslustöðva og vega voru eyðilögð. Tugir þúsunda manna flúðu heimili sín vegna átaka og eyðileggingar og margir dvöldu langdvölum í flóttamannabúðum. Eftir að öryggi á svæðinu jókst, hafa flóttamenn snúið til baka til heimkynna sinna og eru Barnaheill - Save the Children í Úganda á meðal þeirra samtaka sem hafa unnið með stjórnvöldum og Sameinuðu þjóðunum að því að aðstoða fólk við að snúa til baka. Stuðningurinn felst m.a. í uppbyggingu menntunar og heilsugæslu, í öryggi og vernd barna, í tryggu lifibrauði fjölskyldna og efnahagslegri uppbyggingu.

Þar sem félagslegt net og viðmið eru hrunin, eiga stúlkur það mjög á hættu á að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi og misnotkun. Heimilisofbeldi er einnig útbreitt. A.m.k. 32% kvenna í Norður-Úganda hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, þar á meðal í skólanum. Meirihluti þeirra varð fyrir ofbeldinu strax á barnsaldri. Barnaheill – Save the Children í Úganda leggja áherslu á aðgerðir til að bæta öryggi og vernd barna í skólum og til að auka gæði menntunar.Skortur á heilbrigðisþjónustu í skólum og skortur á salernum og hreinlætisaðstöðu er mjög erfiður fyrir börnin, ekki síst stúlkur. Komið hefur í ljós að margar stúlkur hætta í skóla vegna skorts á hreinlætisaðstöðu, slæmrar heilsu, ótímabærrar þungunar, hættulegra fóstureyðinga og annarra félagslegra vandamála. Skólabörn þjást mörg af sjúkdómum sem eru tilkomnir vegna skorts á hreinlæti, s.s.húðsjúkdómum, niðurgangi og malaríu.

Aðgangur að heilsugæslu er víða mjög takmarkaður og um 60% íbúanna þurfa að fara lengra en fimm kílómetra leið á næstu heilsugæslu. Þetta hefur áhrif á heilsu barna og ungs fólks.Þó endurkoma flóttafólks til heimkynna þeirra sé mikilvægt skref fyrir fólk sem búið hefur lengi við átök, allsleysi og óöryggi, þá eru öryggi og vernd ennþá stórmál fyrir marga einstaklinga og fjölskyldur. Mikið verk er óunnið á því sviði. Munaðarlaus börn og heimili, þar sem börn eru í forsvari, eru sérlega berskjölduð.  Eins og sjá má eru verkefnin óþrjótandi, þó margt hafi áunnist.  Barnaheill –Save the Children á Íslandi ætla sér að halda áfram að leggja sitt af mörkum, með stuðningi velunnara samtakanna. 

Tengdar fréttir:

AFRÍKUDAGAR Í JANÚAR

BARNAHEILL – SAVE THE CHILDREN FÁ VERÐLAUN FYRIR NÝSKÖPUN Í MENNTUNARMÁLUM

BARNAHEILL FÁ 10 MILLJÓN KRÓNA STYRK FRÁ UTANRÍKISRÁÐUNEYTINU

UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ STYRKIR VERKEFNI BARNAHEILLA Í NORÐUR ÚGANDA

BÆTUM MENNTUN BARNA Í NORÐUR - ÚGANDA!