Vinatta Logo  Tilkynna Logo

Austur-Afríka

Þurrkarnir í Austur-Afríku hafa haft áhrif á líf um 10 milljóna manna og eru einir þeir verstu í áratugi. Í Sómalíu einni þarf einn af hverjum 3 Sómölum á aðstoð að halda og straumur flóttamanna frá Sómalíu yfir landamærin til Eþíópíu og Kenía er gríðarlegur. Í júnímánuði komu ríflega 23 þúsund nýir flóttamanna frá Sómalíu til Dolo Ado í Eþíópíu. Ekki er gert ráð fyrir að það rigni á svæðinu fyrr en í september eða október og því viðbúið að þetta hrikalega ástand verði viðvarandi næstu mánuði. Neyðaraðstoð Barnaheilla – Save the Children felst m.a. í því að veita vannærðum börnum meðferð, útvega matvæli og vatn til berskjaldaðra samfélaga og reyna að hjálpa fólki að takast á við æ meiri þurrka af völdum loftslagsbreytinga.

Fyrir þremur mánuðum, var hin þriggja mánaða Umi færð til heilsugæslustöðvar á vegum Barnaheilla – Save the Children í Wajir í Kenýja. Umi var vannærð og skorti vökva auk þess sem hún þjáðist af bólgu í lungnapípunum. Móðir Umi var einnig vannærð. Við komuna vóg Umi aðeins 1,7 kílógrömm. Hún var á spítala í níu nætur og á þeim tíma þyngdist Umi um 200 grömm. Henni batnaði fljótt og er, að sögn heilbrigðisstarfsmanna, á meðal fárra vannærða barna með aðra læknisfræðilega kvilla, sem hægt hefur verið að útskrifa svo fljótt. Hægt er að skoða sögu Umi í myndum hér að neðan.

Þeir sem vilja styðja hjálparstarf Barnaheilla – Save the Children í Sómalíu og víðar í Austur –Afríku er bent á söfnunarsíma samtakanna 904 1900 (1.900 kr.) og 904 2900 (2.900 kr.). Einnig er hægt að leggja frjáls framlög á reikning samtakanna 0327-26-1989 kt. 521089-1059.