Vinatta Logo  Tilkynna Logo

Norður Úganda

Uppbygginga- og menntunarstarf í Pader og Agago héruðum í Norður-Úganda

Skólastelpur í ÚgandaFrá árinu 2007 til ársins 2015 stóðu Barnaheill - Save the Children á Íslandi, með stuðningi Utanríkisráðuneytisins fyrir uppbyggingar- og menntunarverkefnum í Pader og Agago héruðum í Norður-Úganda. Framkvæmdaaðili verkefnisins var Save the Children Úganda.

Verkefnin voru að stærstum hluta unnin í gegnum 1.-7. bekk grunnskóla í Pader og Agago héruðum, en þau urðu hvað verst úti í því stríðsástandi sem ríkti í norðurhluta landsins um árabil. Gífurleg fátækt er á þessum svæðum og lífsgæði af skornum skammti. Flestar fjölskyldur búa við mjög bágborin kjör, í strákofum án vatns og rafmagns. Ekki er óalgengt að konur eignist að meðaltali um níu börn.

Markmið

Helstu markmið verkefnisins voru að aðstoða börn og fjölskyldur sem höfðu snúið til heimkynna sinna eftir langvarandi stríðsátök á svæðinu. Í upphafi var markmið verkefnisins tvíþætt, annars vegar að bæta aðgengi og gæði kennslu 3200 skólabarna í fjórum skólum í Pader héraði og hins vegar bæta heilsu og heilbrigði 30 þúsund barna í báðum héruðum. Auk þess fléttaðist inn í verkefnið önnur fræðsla og framkvæmdir, svo sem við hreinlætisaðstöðu og kennarabústaði. Sérstök áhersla var lögð á heilbrigt, barnvænt og verndandi umhverfi og að auka möguleika ungra stúlkna á að haldast í skóla.

Erna-ChristineÞegar fulltrúar Barnaheilla - Save the Children á Íslandi heimsóttu svæðið í nóvember 2010 kom í ljós að næringu barnanna var mjög ábótavant og stór hluti þeirra fengu ekkert að borða í skólanum yfir daginn. Því var hafist handa við að koma á fót skólamáltíðum í þessum fjórum skólum. Sérstök áhersla var á heilbrigt, barnvænt og verndandi umhverfi auk fræðslu um réttindi barna.

Í mars 2014 heimsótti Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, þrjá skóla sem Barnaheill - Save the Children á Íslandi studdu í Pader og Agago héruðum og kynnti sér það sem hafði áunnist í þessum þróunarsamvinnuverkefnum. Með í för var svæðisstjóri Save the Children í Norður Úganda, Christine Lamunu.


Árangur verkefnisins

Stuðningur við skólana hefur haft margvísleg jákvæð áhrif. Aukin þátttaka og áhugi er sýnilegur og bætt kennsla á móðurmáli nemenda hefur haft í för með sér jákvæð samskipti milli nemenda og kennara. Einnig mátti sjá aukningu á lestrargetu og áhuga á lestri.

Bætt námsumhverfi varð til þess að fleiri börn sóttu skóla og héldust í námi. Innleiðing breyttra aðferða til að takast á við agabrot (í stað líkamlegra) er nú orðin útbreidd og hafa 80% skólanna á svæðinu tekið upp nýjar vinnureglur varðandi viðbrögð við hegðunarvandamálum.

Nemendur sem þurfa námsaðstoð hafa nú betra aðgengi að kennurum og fá meiri tíma með þeim í formi ráðgjafar og stuðnings við nám. Aðstoð og leiðsögn til kennara hefur haft jákvæð áhrif á kennsluna og námið.

Þjálfun nemenda og kennara í réttindum barna og vernd gegn ofbeldi gerði það að verkum að börnin eru öruggari og meðvitaðri um réttindi sín og hlutverk sitt í að bæta samfélagið. Aukin þátttaka foreldra og stofnun foreldra/kennarafélaga (Parent/teacher associations) hefur einnig aukið meðvitund samfélagsins á því að börnin fái góða menntun í öruggu og heilbrigðu umhverfi.  Það sem helst hefur vakið athygli er minnkun brottfalls og þá einkum og sér í lagi ungra stúlkna. Stóraukning varð í skráningu nemenda í Paderhéraði í kjölfar útvarpsþáttar sem börn og kennarar tóku þátt í, ekki síst stúlkna í 5., 6. og 7. bekk. Þessir árgangar hafa hingað til verið einna verst settir varðandi brottfall stúlkna. Einnig er bætt hreinlætisaðstaða stór áhrifavaldur fyrir skólagöngu stúlkna. Minnkun brottfalls má einnig rekja til þess að skólamáltíðum var komið á í skólunum og þess að foreldrar voru  fræddir um mikilvægi menntunar barna þeirra.

U´ganda bindiGjörbylting fyrir unglingsstúlkur

Í heimsókn Ernu kom fram gríðarlegt þakklæti og ánægja með stuðning Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.  Í Lamiyo skólanum tilkynnti skólastjórinn stoltur að í fyrsta sinn í sögu skólans stunduðu nú fleiri stúlkur en drengir nám við elsta bekk skólans (7.bekk).  Þeim árangri er fyrst og fremst þökkuð bætt hreinlætisaðstaða og þjálfun í gerð margnota dömubinda.  Einn helsti áhrifavaldur á skólagöngu ungra stúlkna er sú staðreynd að þegar þær komast á kynþroskaaldur fara þær að missa mikið úr skóla.  Með stuðningi samtakanna voru stúlknakennarar í skólunum þjálfaðir í að útbúa margnota bindi sem þeir hafa svo kennt stúlkunum að framleiða.  Í Lamiyo er starfandi stúlknaklúbbur sem saumar nú bindin og reyndar hafa drengir í skólanum einnig lært að sauma þau.  Notkun þessara margnota binda hefur gjörbreytt aðstöðu þessara ungu stúlkna þar sem þær geta nú stundað skólagöngu á meðan á blæðingum stendur.  Það, ásamt uppbyggingu á hreinlætisaðstöðu fyrir stúlkurnar hefur verið gríðarlega mikilvægur þáttur í að brottfall stúlkna hefur minnkað til muna. 

Skólamáltíðir og bætt næring og heilsa barna

Uganda-heilsuklubburÍ heimsókn fulltrúa Barnaheilla - Save the Children til Norður Úganda 2010 kom fram að næringu barna í skólunum var mjög ábótavant. Í framhaldi af því sóttu samtökin um styrk frá Utanríkisráðuneytinu til að koma á fót skólamáltíðum í skólunum fjórum.Um leið og ákveðið var að ráðast í að bæta næringu barnanna, var rætt við foreldra og landeigendur um að gefa land til ræktunar. Í samfélaginu fór fram fræðsla um mikilvægi máltíða um miðjan dag. Í kjölfarið varð mikil vitundarvakning á svæðinu sem gerði það að verkum að foreldrar barna í þremur af fjórum skólum gáfu ræktunarland. Foreldrarnir vinna einnig að undirbúningi jarðvegs, plægja og sjá um uxana sem notaðir eru til verksins. Þeir voru einnig hvattir til að gefa baunir og maís þar til ræktunin skilaði uppskeru.

Í Odom skólanum er nú starfræktur heilsuklúbbur. Hlutverk meðlima klúbbsins er að fræðast um næringu og heilbrigði en einnig að sjá um að haldaskólalóðinni og húsnæði skólans hreinu. Þar er einnig starfrækt skólamáltíðanefnd en í henni sitja fulltrúar foreldra, nemenda og kennara. Fram kom hversu mikilvægar skólamáltíðirnar eru í skólanum en erfitt hefur reynst að viðhalda þeim meðal annars vegna þess hve jarðvegurinn á þessu svæði er gljúpur.

Uganda-skiltiRéttindafræðsla

Mikilvægur liður í stuðningi Barnaheilla í skólunum er mannréttindafræðsla.  Bæði er lögð áhersla á að þjálfa kennara í að þekkja réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum, auk þess að fræða börnin sjálf um réttindi sín.  Í Ludel skólanum er starfræktur mannréttindaklúbbur.  Eftirtektarvert var hversu vel að sér börnin voru um réttindi sín.  Hlutverk klúbbmeðlima er m.a. að sinna einskonar jafningjafræðslu um réttindi barna og vernd gegn ofbeldi. 

Skilvirkni verkefnisins

uganda - katir krakkarÞað er ljóst að þróunarsamvinnuverkefni Barnaheilla - Save the Children á Íslandi í Norður Úganda hefur haft gríðarleg áhrif á skólagöngu barna. Sem dæmi má nefna að nemendum í Odom grunnskólanum fjölgaði um meira en 100% frá árinu 2010 til ársins 2014. Sé nemendafjöldi allra skólanna tekinn saman hefur fjölgun nemenda orðið 70%.

Verkefninu sem hófst árið 2010 er nú formlega lokið. Barnaheill fengu styrk frá Utanríkisráðuneytinu í lok árs 2013 til að framkvæma óháða úttekt á verkefninu og hrinda af stað svokallaðri útgönguáætlun til eins árs.

Úttekt og útgönguáætlun

Stella Samúelsdóttir, ráðgjafi og sérfræðingur í úttektum á þróunarsamvinnuverkefnum, var fengin til að gera óháða úttekt á verkefnunum í mars 2014. Niðurstöðurnar voru kynntar bæði í Utanríkisráðuneytinu og fyrir stjórn Barnaheilla vorið 2014. Úttektin náði fyrst og fremst til verkefnis sem hófst árið 2010 og lauk síðla árs 2013 en meginmarkmið þess verkefnis var að bæta aðgengi að menntun og bæta gæði menntunar í heilbrigðu, öruggu og jákvæðu umhverfi í fjórum skólum í Pader og Agago héruðum í Norður-Úganda. Aðgengi að skólamáltíðum var bætt inn í verkefnið árið 2013 en tilgangur þess var að bæta mætingu og árangur í námi með því að bjóða upp á næringarríkar máltíðir. Einnig var unnið að því að auka þekkingu á næringu og hreinlæti innan skólanna. Úttektin var framkvæmd þannig að Stella heimsótti alla fjóra skólana sem um ræddi og talaði við skólayfirvöld, kennara, nemendur og foreldra, ásamt því að ræða við samstarfsaðila Barnaheilla á svæðinu. 

Niðurstaða úttektarinnar var á þá leið að langflestum markmiðum verkefnisins var náð, bæði hvað varðar samsvörun og skilvirkni. Það varð reyndar til þess að ný vandamál sköpuðust með auknum nemendafjölda þar sem álagið varð meira á skólana. Sem dæmi má nefna að uppbygging hreinlætisaðstöðu dugði oft á tíðum ekki á þeim stöðum þar sem nemendafjöldi hafði aukist mest. Einnig var ljóst að ekki náðist að koma á skólamáltíðum í öllum skólunum meðal annars vegna þess að ekki var nægt fjármagn til uppbyggingar framtíðarskólaeldhúsa. 

Því var ráðist í að gera svokallaða útgönguáætlun (exit plan) sem ætlað væri að aðlaga skólana þannig að þeir væru sem mest sjálfbærir eftir að verkefninu lyki alveg. Markmið útgönguáætlunarinnar voru gerð í samræmi við niðurstöður útttektarinnar og voru eftirfarandi: 

  • Gera við borholu fyrir vatn við Lamiyo skólann 
  • Bæta við handþvottaaðstöðu við alla skólana fjóra 
  • Byggja upp nýjar salernisaðstöður í öllum skólunum fjórum þar sem gert er ráð fyrir sérstakri aðstöðu fyrir stúlkur og fatlaða. 
  • Byggja skólaeldhús með geymsluaðstöðu við alla fjóra skólana 
  • Útvega bauna og maísfræ til gróðursetningar 
  • Þjálfa kennara í bættum kennsluaðferðum og jafningjamati 
  • Styðja skólanefndir og foreldrafélög í að setja sér vinnureglur 
  • Halda verkefnaloksfundi með aðstandendum allra fjögurra skólanna með það að markmiði að skoða hvað ávannst og hvernig megi viðhalda ávinningi og byggja áfram á honum. 

Öll þessi atriði hafa verið framkvæmd og árið 2015 er unnið að lokaskýrslu verkefnisins. Það er ljóst að verkefnið í heild sinni hefur skilað þeim árangri sem lagt var upp með í upphafi. 

Framtíðarstuðningur Barnaheilla við þróunarsamvinnuverkefni, eins og það sem hér um ræðir, er óljós. Stuðningur samtakanna er háður opinberum styrkjum frá Utanríkisráðuneytinu og er þess nú beðið að nýjar verklagsreglur verði kynntar. Í framhaldi af því munu samtökin vinna að allsherjar stefnumótun um erlenda þróunarsamvinnu og neyðaraðstoð til næstu þriggja ára. Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru smá á alþjóðavísu og minnsta aðildarfélagið innan alþjóðasamtaka Save the Children. Samt sem áður skiptir stuðningur samtakanna miklu máli fyrir þá sem hann fá eins og verkefni samtakanna í Úganda hafa sannað.