Vinatta Logo  Tilkynna Logo

Ábendingalína

Ábendingalína um ólöglegt/óviðeigandi efni á netinu

Ábendingahnappur

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa frá árinu 2001 tekið þátt í alþjóðlegu verkefni um Vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi á Netinu. Markmið verkefnisins er að vekja athygli almennings, lögreglu, löggjafans, netþjónustuaðila, barnaverndaryfirvalda og fleiri aðila á þætti netsins í kyn­ferðislegu ofbeldi gegn börnum og þrýsta á íslensk stjórnvöld að axla ábyrgð í þessum málaflokki hérlendis og á alþjóðavettvangi.

Kjarni verkefnisins er ábendingalína sem starfrækt er í samstarfi við Ríkislögreglustjóra. Í gegnum sérstakan hnapp er hægt að senda inn nafnlausar ábendingar um ólöglegt og/eða óviðeigandi efni á netinu. Þar er einnig hægt að tilkynna um mansal á börnum, klámefni sem er aðgengilegt börnum, um rafrænt einelti, um fullorðna sem misnota börn á ferðum sínum erlendis og fleira. Ábendingarnar fara til skoðunar og rannsóknar hjá lögreglu sem rekur slóðir efnisins, finnur hvar það er vistað og sér til þess að það sé fjarlægt. Efnið getur verið vistað á fleiri en einum stað en mikilvægt er að það sé upprætt sem fyrst eftir að það er tilkynnt, án þess þó að það skaði rannsóknarhagsmuni. Í auknum mæli er efnið á svokölluðu Tor­neti (laukneti) sem erfitt er að rekja og uppræta.

Áætlun Evrópusambandsins um Better Internet for Kids styður rekstur ábendingalínunnar fjárhagslega. Ábendingalínan hefur áður verið styrkt af Safer Internet samstarfsáætlun Evrópusambandsins ásamt því að hafa notið stuðnings frá Pokasjóði og Landsbankanum.

Ábendingalínan hefur frá árinu 2010 verið aðili að SAFT verkefninu, en SAFT stendur fyrir Samfélag, fjölskyldu og tækni og er vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Ýmsir aðilar hafa óskað eftir því að hafa ábendingahnappinn á vefsíðum sínum. Jafnframt er hnappurinn auglýsgur reglulega í fjölmiðlum. Hægt er að afrita hnappinn af vefsíðu Barnaheilla.

Fram til ársins 2009, sáu starfsmenn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um greiningu þeirra ábendinga sem bárust, röktu slóðir þeirra og áframsendu til lögregluyfirvalda.  Að ósk samtakanna, tók embætti ríkislögreglustjóra yfir þann hluta starfsins, enda eru margar ábendingarnar vísbendingar um glæpi gagnvart börnum. Barnaheill - Save the Children á Íslandi funda reglulega með fulltrúum embættisins vegna verkefnisins. 

Fjöldi ábendinga

Frá árinu 2001 hafa Barnaheillum ­ Save the Children á Íslandi borist ríflega 4000 ábendingar í gegnum ábendingahnapp samtakanna. Þar af eru að meðaltali 45% ábendinganna um efni þar sem börn eru beitt kynferðisofbeldi og sýnd á kynferðislegan hátt. Á árinu 2014 bárust ábendingar um 930 vefslóðir eða annars konar miðla og 98 þeirra reyndust innihalda efni þar sem börn eru beitt kynferðisofbeldi og sýnd á kynferðislegan hátt, eða í 10,5% tilfella. Skráning ábendinga á árinu 2014 miðaðist við fjölda vefslóða en ekki fjölda tilkynninga, því algengt er að hver ábending varði fleiri vefslóðir.

Framan af var lítið um ábendingar um vefsíður sem voru vistaðar á Íslandi, en á undanförnum árum hefur þeim fjölgað. Um er að ræða íslenskar vefsíður með kynferðislegu myndefni eða texta um íslensk börn og unglinga. Einnig hefur ábendingum um efni á samfélagsmiðlum fjölgað.

inhope_mynd

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru í alþjóðasamtökunum INHOPE, regnhlífasamtökum ábendingalína. Í samtökunum eru meira en 50 ábendingalínur í 45 löndum og fer þeim fjölgandi ár frá ári. Þær eru frá öllum heimsálfum en flestar frá Evrópu. Starf INHOPE felst í að efla þekkingu og deila reynslu um málefnið og veita aðildarfélögum stuðning í baráttunni. Sérhver ábendingalína er í samstarfi við lögreglu og netþjónustuaðila í hverju landi og eru allar tölulegar upplýsingar skráðar í gagnagrunn INHOPE. Þannig er hægt að fylgjast með fjölda ábendinga og eðli þeirra.

Ábendingum fjölgar

Fjöldi ábendinga til INHOPE samtakanna eykst ár frá ári. Á árinu 2014 voru rúmlega 1.500.000 tilkynningar um ólöglegt efni skráðar í gagnagrunn INHOPE en voru 1.210.893 árið áður. Af þeim tilkynningum sem bárust árið 2014 voru 57% skilgreindar sem efni sem sýndi kynferðisofbeldi gegn börnum. Upplýsingar um dreifingu tilkynninga eftir heimshlutum liggja ekki fyrir, en árið 2013 komu 41% ábendinganna frá Evrópulöndum, svipað og árið 2012, 44% frá Norður­-Ameríku (var um 40% 2012) og 15% frá öðrum heimshlutum (var 20% 2012). Af þessum ábendingum reyndust tæplega 55.000 um efni sem sýnir kynferðisofbeldi gegn börnum, en voru rúmlega 37.000 árið 2012. Í 37% tilfella var um að ræða efni á vefsíðum, 29% efnisins var vistað í skýjum (file host), eins og Dropbox, MediaFlare, GoogleDrive, iCloud og álíka, 22% í svokölluðum myndaskýjum (image host) en 7% tilfella um efni á samfélagsmiðlum. 52% af efninu var vistað í löndum Evrópu, 44% í Norður­-Ameríku og 3% annars staðar. Mikilvægt er að eftir að ábending berst fari rannsóknarvinna strax í gang og að efnið sé fjarlægt án þess að það skaði rannsóknarhagsmuni.

Þrátt fyrir öfluga starfsemi til að vernda börn gegn ofbeldi á netinu og við að uppræta efni sem þangað ratar, er við ramman reip að draga. Tækninni fleygir stöðugt fram og þeir sem hafa í hyggju að beita börn ofbeldi og nota netið sem verkfæri til þess, reyna alltaf að finna leiðir til ódæðisverkanna og til að fela slóð sína. Mjög erfitt er að uppræta það efni sem einu sinni er komið á netið. Eina örugga leiðin enn sem komið er, er að koma í veg fyrir að ofbeldið eigi sér stað. Það er gert með öflugri fræðslu og forvörnum og með því að styrkja þær stoðir samfélagsins sem vinna með börnum og foreldrum þeirra. Kynferðislegt tal við börn, að sýna þeim kynferðislegt efni, myndataka og myndbirting sem sýnir barn á kynferðislegan hátt er ofbeldi gegn barninu. Það barn sem beitt er ofbeldi ber aldrei ábyrgðina, ÁBYRGÐIN ER ALLTAF OFBELDISMANNSINS.

 

SAFT - Samfélag, fjölskylda, tækni

saft.logoÁ árinu 2010 gekk í gildi nýr samningur við Evrópusambandið, sem jafnframt tekur til samstarfs Barnaheilla - Save the Children á Íslandi, Heimilis og skóla og Lýðheilsustöðvar (nú Embætti landlæknis) undir merkjum Safer Internet Center.  Árið 2012 gekk Rauði kross Íslands inn í samstarfið í stað Embættis Landlæknis. Með samningnum urðu Barnaheill - Save the Children á Íslandi aðili að SAFT-verkefninu, en SAFT stendur fyrir Samfélag, fjölskylda og tækni og er vakningarátak um örugga net- og tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Samstarfið felst í því að Heimili og skóli sér um um vakningarátak SAFT, Barnaheill- Save the Children á Íslandi um ábendingalínuna og Rauði krossinn um hjálparlínu. Hjálparlínan mun verða hluti af 1717.is. Í samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun, hefur SAFT rekið vefinn netsvar.is. Þar gefst almenningi kostur á að senda inn fyrirspurnir um hvaðeina sem tengist öruggri netnotkun og fá svör frá sérfræðingum. Á vefnum eru ýmsar upplýsingar um netið og örugga netnotkun og markmiðið er einnig að stuðla að jákvæðri og ánægjulegri netnotkun. Samkvæmt foreldrakönnun SAFT telja 66% foreldra að þeir þurfi frekari upplýsingar um öryggi á netinu og 74% telja mikilvægt að geta á einum stað leitað ráðgjafar um tæknileg, uppeldisleg og lögfræðilega málefni tengd netnotkun. Hér má nálgast heimasíðu SAFT.

 

Ábendingalínan er styrkt af samgönguáætlun Evrópusambandsins.