Vinatta Logo  Tilkynna Logo

Fræðsluefni

Fræðsluefni

8. febrúar 2017 - 13:48

 Vinátta - Fri for mobberi

Blær og taskaVináttu – verkefni Barnaheilla er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla. Efnið heitir á frummálinu Fri for mobberi og er þýtt, staðfært, framleitt og gefið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku. 

Vinátta byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem skulu samofin öllu skólastarfinu auk raunhæfra verkefna fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. 

Vinna með Vináttu á íslenskum leikskólum hófst haustið 2014 og stefnt er að því að geta boðið öllum leikskólum landsins efnið til notkunar. Leikskólar sem vilja nota efnið þurfa að fara á námskeið til að fá leyfi til að nota það.

Nánari upplýsingar um Vináttu er að finna hér.

 

prinsessa copy

Óskir íslenskra barna

Sýningin Óskir íslenskra barna er ljósmyndasýning sem var gjöf Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og Ástu Kristjánsdóttur ljósmyndara til barna á Íslandi í tilefni af 25 ára afmæli samtakanna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sýningin er farandsýning sem hefur ferðast um landið frá árinu 2014.

Ljósmyndirnar byggja á sönnum reynslusögum íslenskra barna sem hafa upplifað ofbeldi, vanrækslu, einelti eða hafa búið við fátækt. Þær sýna ímyndaðar óskir þessara sömu barna. Þannig er áhersla lögð á að börn sem upplifa áföll og erfiðleika fái að eiga sér ósk og von um að líða einhvern tímann betur.

Viðeigandi texti úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er við hverja mynd til að minna á réttindi barna. Steinunn Hauksdóttir sá um uppsetningu, búninga og gerð óskatrés þar sem hægt er að koma fyrir óskum barna eða hengja þær á greinar óskatrésins.  

Foreldrar, forsjárfólk eða kennarar eru hvattir til að aðstoða börnin við að skoða sýninguna út frá réttindum þeirra og að skrifa óskir sínar í framhaldi af því á miða.

Ljósmyndari myndanna á sýningunni er Ásta Kristjánsdóttir. Hún á langan feril að baki og starfar í dag sem ljósmyndari í Reykjavík. Í myndum sínum leitast Ásta gjarnan við að senda skilaboð til áhorfandans sem endurspegla sýn hennar á samfélagið. 

Hér er að finna kennsluleiðbeiningar sem gott er að styðjast við í tengslum við sýninguna.

Á grunni óskanna sem safnast hafa á ferð sýningarinnar um landið var á árinu 2016, skrifuð meistararitgerð í félagsráðgjöf, af Mörthu Maríu Einarsdóttur. Rannsóknin bar heitið „Ég óska þess að óskin mín rætist. Upplifun barna af sýningunni Óskir íslenskra barna.“

 

Þetta er líkami minn 

Þetta er líkaminn minn

Einn liður í fræðslu- og forvarnarverkefni samtakanna um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum er útgáfa bókarinnar ,,Þetta er líkaminn minn”. Bókin er skrifuð til að aðstoða fullorðna og börn á leikskólaaldri við að ræða saman á opinn og óþvingaðan hátt um leiðir til að vernda börn gegn ofbeldi. Meginmarkmið bókarinnar er að gera börn meðvituð um yfirráð þeirra yfir líkama sínum og tilfinningum og að styrkja þau í að setja persónuleg mörk. Fjallað er um snertingu og hvernig hún getur bæði verið jákvæð og neikvæð.

Það er á ábyrgð hinna fullorðnu að vernda börn gegn ofbeldi. Foreldrum, forsjáraðilum og öllum þeim sem vinna með börnum ber skylda til að vernda börn gegn ofbeldi í hvaða mynd sem er.

Stöðugt er aukning á dreifingu og notkun bókarinnar og má ætla að tugir þúsunda barna hafi notið góðs af henni frá því hún var fyrst gefin út árið 1998.

Samtökin eru í samstarfi við heilsugæslustöðvar um dreifingu á bókinni til foreldra. Hægt er að panta bókina á skrifstofu samtakanna í síma 553 5900 eða með því að senda póst á  barnaheill@barnaheill.is.

 

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna


Bæklingur - forsíðaBarnaheill - Save the Children á Íslandi, umboðsmaður barna og Barnahjálp S.þ. (UNICEF) á Íslandi, í samstarfi við Námsgagnastofnun, hafa unnið námsvef og gefið út veggspjöld og bæklinga með efni barnasáttmálans. 

Um er að ræða gagnvirkan námsvef sem ætlaður er börnum frá 5-14 ára. Vefurinn er hugsaður til notkunar í skólum, en einnig geta börn nýtt hann utan skóla. Á vefnum læra börn um þau réttindi sem kveðið er á um í barnasáttmálanum.

Á veggspjaldi og í bæklingi, sem ætluð eru 6-12 ára börnum, er efni barnasáttmálans sett fram á einföldu máli. Einnig hefur verið gefið út veggspjald sem hentar eldri börnum. Efnið er ætlað til notkunar í grunnskólum en einnig á öðrum vettvangi. Þórarinn Leifsson myndskreytti veggspjöldin og Námsgagnastofnun sá um ritstjórn og hönnun.

Hægt er að nálgast veggspjöld og bæklinga með efni barnasáttmálans á pdf-formi á vefnum barnasattmali.is. Einnig er hægt að panta veggspjöld og bæklinga á skrifstofu Barnaheilla - Save the Children á Íslandi í síma 553 5900 eða með því að senda tölvupóst á netfangið barnaheill@barnaheill.is.

 

Verndum börn - ofbeldi

Forsíða strákurGefinn hefur verið út bæklingur með upplýsingum um ofbeldi og hvert hægt er að leita verði barn fyrir ofbeldi, eða ef grunur vaknar um að barn sé beitt ofbeldi.

Meðal efnis í bæklingnum:

  • Skilgreining á ofbeldi; vanræksla, ofbeldi, einelti, netið
  • Vísbendingar um vanlíðan hjá barni
  • Grun eða vitneskju um að barn sé vanrækt eða búi við ofbeldi

Ofbeldi brýtur börn niður og rænir þau eðlilegri barnæsku. Fjöldi barna á Íslandi elst upp við líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi, þau eru lögð í einelti eða eru vanrækt.

Á síðunni verndumborn.is er að finna greinagóðar upplýsingar um ýmsar tegundir ofbeldis á börnum, einkenni og hvert hægt er að leita vakni grunur um ofbeldi á barni. Vefsíðan er ætluð almenningi, ekki síst þeim sem starfa með börnum. 

 

Kynferðisofbeldi gegn gjaldi / Sex tourism
Sex Tourism

Barnaheill - Save the Children á Íslandi hafa í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins látið útbúa póstkort sem dreift er til ferðamanna sem leita til heilsugæslunnar vegna fyrirhugaðra ferðalaga á erlendri grundu. Þar eru ferðamenn hvattir til að vera ábyrgir ferðamenn og tilkynna til ferðaskrifstofunnar, fararstjóra eða lögreglu ef þeir hafa grun um að barn sé beitt kynferðisofbeldi. Þannig leggi þeir sitt af mörkum til að vernda barnið gegn ofbeldinu og koma því til hjálpar.

Börnum sem orðið hafa fórnarlömb mansals til að nota í kynferðislegum tilgangi hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Vegna fátæktar og erfiðra aðstæðna leiðast um 1-2 milljónir barna út í vændi á ári, eða eru beitt kynferðisofbeldi gegn gjaldi. Þegar fullorðinn einstaklingur á kynferðislegt samband við barn telst það alltaf kynferðisofbeldi gegn barninu. Hinn fullorðni getur ekki réttlætt ofbeldið með menningarmun, samþykki barnsins eða að barnið hafi frumkvæði af samskiptunum.

Nánari upplýsingar er að finna hér.