Ljósmyndasýning

Óskir íslenskra barna 

ljósmyndasýning

Sýningin Óskir íslenskra barna er ljósmyndasýning sem var gjöf Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og Ástu Kristjánsdóttur ljósmyndara til barna á Íslandi í tilefni af 25 ára afmæli samtakanna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sýningin er farandsýning sem hefur ferðast um landið frá árinu 2014.

Ljósmyndirnar byggjast á sönnum reynslusögum íslenskra barna sem hafa upplifað ofbeldi, vanrækslu, einelti eða hafa búið við fátækt. Þær sýna ímyndaðar óskir þessara sömu barna. Þannig er áhersla lögð á að börn sem upplifa áföll og erfiðleika fái að eiga sér ósk og von um að líða einhvern tímann betur.

Viðeigandi texti úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er við hverja mynd til að minna á réttindi barna. Steinunn Hauksdóttir sá um uppsetningu, búninga og gerð óskatrés þar sem hægt er að koma fyrir óskum barna eða hengja þær á greinar óskatrésins.  

Foreldrar, forsjárfólk eða kennarar eru hvattir til að aðstoða börnin við að skoða sýninguna út frá réttindum þeirra og að skrifa óskir sínar í framhaldi af því á miða.

Ljósmyndari myndanna á sýningunni er Ásta Kristjánsdóttir. Hún á langan feril að baki og starfar í dag sem ljósmyndari í Reykjavík. Í myndum sínum leitast Ásta gjarnan við að senda skilaboð til áhorfandans sem endurspegla sýn hennar á samfélagið. 

Kennsluleiðbeiningar hafa verið gerðar í tengslum við ljósmyndasýninguna Óskir íslenskra barna sem gott að styðjast við. 

Á grunni óskanna sem safnast hafa á ferð sýningarinnar um landið skrifaði Marta María Einarsdóttir meistararitgerð í félagsráðgjöf árið 2016. Rannsóknin bar heitið „Ég óska þess að óskin mín rætist. Upplifun barna af sýningunni Óskir íslenskra barna.“