Þarf að kenna börnum með fötlun um kynheilbrigði?

Þarf að kenna börnum með fötlun um kynheilbrigði?

Vertu vakandi og fækkaðu tækifærum.

Nauðsynlegt er að þekkja eðli ofbeldis til að átta sig á aðferðum þeirra sem beita börn ofbeldi. Ennfremur að þekkja til vísbendinga um að barn hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi til að geta brugðist við og átt möguleika á að vernda öll börn.

Ábendingar: Hvernig áttu að tala við barnið þitt til að vernda það gegn kynferðislegu ofbeldi?

 

Fyrir foreldra barna með fötlun

Athugið: Þessar ráðleggingar veita foreldrum og umönnunaraðilum fatlaðra barna upplýsingar sem hjálplegar eru til að að meta umhverfi þeirra og aðstæður. Ekki er hægt að fyrirbyggja allt ofbeldi, en með því að spyrja spurninga og vera athugull er hægt að styrkja stöðu þeirra. Gott er að leita til sérfræðinga eða aðilum sem vinna með og fyrir börn um hvað sé best að gera vakni grunsemdir.

Sérhvert barn, sérhver fötlun, samskiptamáti og fjölskylduaðstæður eru einstakar. Notaðu þessar upplýsingar með hliðsjón af aðstæðum þínum. Þetta er mikið af upplýsingum að taka inn og við vitum að sá ótti og kvíði sem við finnum fyrir þegar við veltum því fyrir okkur að barnið okkar gæti orðið fyrir kynferðisofbeldi, getur svo auðveldlega komið í veg fyrir að við bregðumst rétt við. Við hvetjum þig til að skoða hvaða stuðningsnet þú ert með í kringum þig, fólkið sem stendur með þér og barninu þínu, þar með talið læknar, kennarar, félagsráðgjafar, þroskaþjálfar, fjölskyldan og aðrir stuðningsaðilar. Nýttu þér þau ráð sem við gefum þér til að hefja samtalið við þessa aðila. Deildu öllum þeim áhyggjum sem á þér hvíla varðandi barnið þitt, t.d. varðandi hegðunarbreytingar. Rétt eins og við viljum að börnin okkar hafi fullorðna sem við treystum, til að leita til, þá þarft þú líka traust og öruggt fólk í kringum þið, þér til stuðnings.

Árangurríkasta forvörnin á sér stað áður en barn verður fyrir ofbeldi. Börn eru strax öruggari þegar foreldrar og aðrir umönnunaraðilar taka sér tíma til að læra um kynferðisofbeldi. Þessi ráð eru upplýsingar fyrir foreldra og umönnunaraðila barna með fötlun til að vernda þau gegn kynferðislegu ofbeldi.

Hvernig áttu að tala við barnið þitt til að draga úr líkum á því að barnið verði fyrir kynferðislegu ofbeldi?

Það getur verið erfitt að hugsa um börn sín sem kynverur, manneskjur sem hafa kynferðislegar langanir, þarfir og áhuga á kynlífi, rétt eins og aðrir. En rétt eins og þau hafa áhuga á flugum, flugvélum, dýrum og ýmsu öðru, þá verða þau líka forvitin um líkama sinn og annarra. Sem foreldri, er mjög mikilvægt að upplýsa börnin okkar um allt það sem lífið hefur upp á að bjóða og er kynlíf og kynhneigð ekki undanskilin því. Með því að ræða þessa hluti, þá búum við þau betur undir alla þætti lífsins, ekki bara suma. Við hjálpum ekki börnunum okkar ef við horfum framhjá þeirri staðreynd að þau fara í gegnum sinn kynferðislega þroska rétt eins og aðrir. Stundum er menning okkar mismunandi og það getur verið erfitt að tala um kynferðismál. Einnig finnst mörgum foreldrum þetta umræðuefni óþægilegt og jafnvel óþarfi. Það breytir því hins vegar ekki að það þarf að tala um kynlíf, kynhegðun, persónulegt rými, mörk í samskiptum, snertingar og að það megi segja nei við snertingum eða öðru sem maður vill ekki, til þess að vernda þau gegn öllu ofbeldi.

Í staðinn fyrir að undirbúa SAMRÆÐUNA eða RÆÐUNA um kynlíf, kynhneigð, sambönd eða samskipti, skaltu venja þig á að ræða þetta oft, minna í einu og hafa það sem hluta af eðlilegu daglegu samtali. Líttu á þetta sem samtal sem á sér stað yfir lengri tíma, því fyrr sem þú byrjar spjallið, því meiri áhrif hefur það og þú þarft að aðlaga það miðað við þroska og aldur barnsins. Upplýsingarnar og umræðan breytist með auknum þroska barnsins. Notaðu hvert tækifæri sem gefst til að ræða þessi mál. Þegar þetta á sér stað yfir langan tíma, þá sérðu betur hvort þetta hjálpar barninu og það nær að tileinka sér það sem þú hefur verið að segja því eða ekki. Þá getur þú brugðist við því. Minnt barnið á, komið með dæmi og hvatt það áfram.

Hér eru nokkur ráð um hvernig og hvað þú getur lagt áherslu á um hinar ýmsu aðstæður:

Kynferðislegur þroski

 • Fötluð börn eins og önnur börn, einnig þau sem eru með alvarleg frávik í þroska þurfa fræðslu og endurtekna þjálfun á því formi sem þau skilja til að læra um grunnhugtök eins og muninn á strákum og stelpum. Þau þurfa að kunna nöfn á öllum líkamshlutum og hvaðan börnin koma. Þegar foreldrar ræða þetta hispurslaust, læra börnin að það er í lagi að tala við foreldra sína og koma með spurningar sem brenna á þeim. Þú þarft að aðlaga allar þær upplýsingar sem þú þarft að koma á framfæri að þínu barni. Notaðu öll þau ráð sem þú telur henta, t.d. með hlutverkaleik, bókum, myndum o.þ.h.
 • Öll börn þurfa að vera viðbúin þeim breytingum sem verða á líkama þeirra þegar þau verða kynþroska. Börn með umfangsmikil þroskafrávik upplifa einnig þessar líkamlegu breytingar.
 • Ræddu við kennara, þroskaþjálfa eða lækni barnsins sem þú ert í samskiptum við og treystir, til að ákveða með þér hvernig þú ættir að undirbúa þig fyrir þessar líkamlegu breytingar og hvaða áhrif kynþroski hefur á fötlun barnsins þíns, eða hvaða áhrif fötlunin hefur á kynþroskann.
 • Kynntu þér kyn- og kynferðislega hegðun barna á ýmsum aldri. Sú þekking hjálpar þér að búa þig undir það sem barnið þitt þarf að vita, sem og að þekkja muninn á þekktri hegðun og hegðun sem getur valdið áhyggjum.

Einkalíf, persónulegt rými og persónuleg mörk

 • Kenndu barninu þínu hvað líkamshlutarnir heita. Oft er gagnlegt að útskýra vel hvað og hvar einkastaðirnir eru. Oft er talað um að einkastaðirnir eru þeir staðir sem sundfötin hylja, tippi, píka, rass, brjóst og að auki munnurinn. Nýttu þér bækur t.d. Einkastaðir líkamans, myndir eða dúkkur til að sýna hvað þú átt við.
 • Kenndu barninu þínu um einkalíf og hvernig sumir hlutir eru gerðir í einrúmi. Hjálpaðu barninu að skilgreina einkarými þess á þeim stöðum/rýmum sem hann/hún eyðir tíma sínum. Sem dæmi má nefna að hægt er að loka dyrunum á svefnherberginu og það er þar með orðið einkarými. Einnig lokum við baðherbergisdyrunum þegar við þurfum að pissa eða kúka, eða þegar farið er í bað eða sturtu, sjá til dæmis félagsfærnisöguna um einkarými og almannafæri frá Leikni.
 • Virtu einkalíf og einkarými barnsins þíns, með því t.d. að banka á hurðina og biðja leyfis á að koma inn eða bíða eftir að vera boðið inn. Biddu einnig um leyfir áður en þú ætlar að snerta barnið, þótt snertingin sé nauðsynleg, leyfðu barninu að upplifa að það hafi eitthvað um það að segja, að það hafi vald og leyfi til að segja já eða nei. Stundum föllum við í þá gryfju að gera börnin hjálparvana eða óvirk með því að gera allt og taka ákvarðanir fyrir þau. Við hjálpum börnum best að læra á heilbrigð mörk með því að hafa þau með í ráðum og taka þátt í ákvörðunum sem hafa áhrif á þeirra líf.

Snertingar

 • Það getur verið krefjandi að kenna börnum muninn á góðum og slæmum snertingum eða nauðsynlegum og ónauðsynlegum snertingum. Þetta á sérstaklega við þegar umönnunar-eða meðferðaraðilar eru að meðhöndla börnin á þann hátt sem ekki er hægt að sleppa, en þeim finnst vont eða óþægilegt. Stundum er snerting sem er vond, t.d. að fá sprautu, nauðsynleg og er því í raun og veru góð fyrir barnið. Þetta getur verið mjög ruglingslegt.
 • Fagaðilar mæla með að nota auðskilin merki, eins og að rauður fáni eða grænn fáni til að hjálpa börnum að skilja hvort og þá hvaða snerting er í lagi. Grænn fáni þýðir í lagi en rauður fáni ekki í lagi. Byrjaðu á því að taka sérstaklega fyrir snertingar á kynfærum. Þegar snerting á kynfærum er í lagi, t.d. þegar þú færð hjálp við persónulega umönnun, eins og t.d. á salerninu eða þegar læknir þarf að skoða þig. En það er ekki í lagi þegar einhver annar biður þig um að sýna sér tippið þitt eða píkuna þína, eða biður þig að skoða eða snerta sína píku eða tippi.
 • Notaðu þau tækifæri sem gefast, þegar barnið þitt þarf á aðstoð að halda og snerting á kynfærasvæði er óhjákvæmileg, til að benda á og segja að þetta sé í lagi og líkja því við græna fánann. Segðu t.d. „Þetta er grænn fáni. Þetta má“. Einnig ef tækifæri gefst til, að segja strax frá ef einhver snerting er ekki í lagi, að þá er sú snerting „rauður fáni“. Dæmi um „græna“ snertingu væri þegar umönnunaraðili barnsins hjálpar því að þurrka rassinn eftir að hafa notað klósettið en „rauð“ snerting væri ef umönnunaraðili væri að nudda eða þurrka rassinn án þess að barnið hafi verið að nota salernið.
 • Þegar þú hefur hjálpað barninu að skilja á milli rauðra og grænna snertinga, leitaðu að tækifærum sem gefast til að æfa þig og barnið í að ákvarða hvort þessi snerting eða hin er græn eða rauð og hvernig á að bregðast við grænni eða rauðri snertingu.
 • Það er mjög mikilvægt fyrir börn að skilja að reglurnar um snertingar eru fyrir alla. Rétt eins og það er ekki í lagi að einhver gefi þeim „rauða“ snertingu, að þá eiga þau ekki heldur að snerta aðra með „rauðum“ snertingum.

Kynhegðun

 • Það er eðlilegt og þekkt að börn á ýmsum aldri sýna kynferðislega hegðun, bæði ein og sér og með leikfélaga. Nýttu þér þekkingu þína á þínu barni og hvernig eðlileg og óeðlileg kynferðisleg hegðun barna á svipuðu þroskastigi er.
 • Þegar þú verður vitni að því að barnið þitt sýni kynferðislega hegðun, sem er samt aldurssamsvarandi eða samræmist þroskastigi barnsins, t.d. að skoða eigin líkama eða í læknisleik með öðru barni, vertu þá róleg(ur) og bentu barninu þínu á að þú vitir hvaða leikur er í gangi og gefðu skýr skilaboð um hvað er í lagi og ef eitthvað er ekki í lagi, hvað það er. Þú getur t.d. sagt “Ég sé að þið Sigga/Siggi eruð að skoða líkamann ykkar og bera hann saman. Farið nú í fötin ykkar og mundu að við erum í fötunum okkar þegar við erum að leika okkur”.
 • Þegar þú verður vitni að ákveðinni hegðun, sem þú ert ekki örugg eða sátt með, gætir þú þurft að vera skýrari og ákveðnari til að farið sé eftir því sem þú segir. Miðaðu skýringar þínar og leiðbeiningar að barni þínu, því þú veist best hvernig barnið þitt bregst við reglum og útskýringum í öðru samhengi.
 • Ef þú sérð ákveðið endurtekið mynstur í kynferðislegri hegðun barnsins þíns og barnið þitt sýnist ekki líklegt til að taka leiðbeiningum þínum, ræddu þá við teymið í kringum barnið þitt eða þá umönnunaraðila sem þekkir barnið þitt og þú treystir. Íhugaðu líka að leita til fagaðila sem hafa reynslu af því að vinna með börnum sem eiga í erfiðleikum með kynhegðun sína.

Vald og öryggi

 • Að geta og kunna að segja „nei“ gefur barninu vald og öryggi. Þú þarft að kenna barninu þínu að segja nei á mismunandi vegu. Hjálpaðu því að koma nei-inu sínu á framfæri með því að segja það, hrópa, hrista höfuðið, stappa niður fótum, gretta sig o.s.frv. Skemmtið ykkur við að æfa að segja nei á alls konar máta. Deildu þessu með þeim sem vinna með barninu þínu svo þau þekki hin mörgu ólíku nei og biddu þau um að virða „nei“ barnsins
 • Hjálpaðu og æfðu barnið þitt í því að biðja fólk, sem þú treystir, um hjálp. Þekktu eða kynntu þér þá aðila sem starfa í kringum barnið þitt á þeim stöðum sem það dvelur og barnið þitt gæti snúið sér til og beðið um aðstoð. Hafðu í huga persónuleika barnsins þíns og samskiptaleiðir sem það notar og getu barnsins til að þekkja á aðstæður í umhverfi hans. Notaðu hlutverkaleiki til að æfa þessi samskipti og hjálpaðu þannig barninu þínu að búa sig undir að þurfa aðstoð í ýmiss konar aðstæðum sem það gæti lent í.
 • Talaðu við þá aðila sem þú og barnið þitt eru sammála um að hægt sé að treysta. Útskýrðu fyrir þeim að þú og barnið þitt eru með áætlun um hvernig barnið þitt mun leita til þeirra ef það þarfnast hjálpar. Spurðu hvort þau eru til í að aðstoða og styðja barnið þitt ef þess gerist þörf.
 • Útskýrðu muninn á góðum og slæmum leyndarmálum. Góð leyndarmál eru yfirleitt alltaf eitthvað skemmtilegt og spennandi og það á að segja frá því á einhverjum tímapunkti, t.d. afmælisgjöf, skemmtiferð eða óvænt uppákoma. Slæm leyndarmál útiloka yfirleitt aðra, oft vegna þess að ef upp kemst, vekur það uppnám eða reiði einhvers. Ef aldrei má segja frá einhverju leyndarmáli er það slæmt og er ekki í boði. Ef barn er vant því að eiga leyndarmál með einum aðila, eykur það líkurnar á misnotkun. Útskýrðu fyrir barninu að fullorðnir eiga aldrei að biðja börn um að halda einhverju leyndu fyrir öðrum en ef það gerist verður hann/hún að segja einhverjum sem hann treystir frá því. Horfðu á teiknimyndina Leyndarmálið með barninu þínu. Það skýrir þetta vel út. Komdu með dæmi úr daglega lífinu ykkar, þar sem góð leyndarmál koma við sögu

Að tala um kynferðisofbeldi

 • Börn þurfa að skilja hegðun sem er skilgreind sem kynferðislegt áreiti eða ofbeldi. Vertu skýr með hvað er ekki í lagi fyrir einhvern að gera eða biðja barnið þitt um að gera. Til dæmis:
  • Það er ekki í lagi að fólk sýni þér einkastaðina sína eða biður þig um að sýna þeim einkastaðina þína.
  • Það er ekki í lagi að fólk snerti einkastaðina þína eða biðji þig eða láti þig snerta þeirra einkastaði.
  • Það er ekki í lagi að segja eða skrifi kynferðislega hluti um þig eða líkama þinn
  • Það er ekki í lagi að þú skrifir eða segir kynferðislega hluti um annað fólk eða líkama þeirra.
 • Þegar þú talar um kynferðislegt áreiti eða kynferðisofbeldi, notaðu þá dæmi sem fela í sér fólk sem barnið þitt þekkir, þar á meðal umönnunaraðila, ættingja, jafnaldra, systkini, fólk í áhrifastöðum o.s.frv. Þetta er mikilvægt þar sem yfir 90% barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi þekkja þann sem brýtur á því. Það er mikilvægt fyrir börn að skilja að jafnvel fólk sem þau þekkja og líka vel við geta brotið reglurnar um snertingar.

Deildu þekkingu þinni um forvarnir í þínu nánasta umhverfi

Við hvetjum þig til að beina athygli fólks á því sem þú hefur lært. Deildu þekkingu þinni með ættingjum, vinum og öllu samfélaginu.

Treystu innsæi þínu. Þú gætir verið eini aðilinn sem getur gert eitthvað í málinu.

 

Fleiri upplýsingar og úrræði

Veldu úr listanum hér fyrir neðan það sem er hjálplegt fyrir þig, í þeim aðstæðum sem þú ert að glíma við hverju sinni. Ef þú ert ekki viss hafðu samband við radgjof@barnaheill.is

5 skref til verndar börnum 

Leyndarmálið

Námskeiðið Verndarar barna

Leikni – fræðsluefni um Samskipti og kynheilbrigði

Barnahús

Sigurhæðir

Stop It Now!®