Leiðtogaþjálfun BellaNet

 

BellaNet er leiðbeinendanámskeið sem er ætlað þeim sem halda utan um hópastarf með ungmennum eða kenna lífsleikni í skólum. Námskeiðið felur í sér að þjálfa einstaklinga í að halda utan um hópastarf með megináherslu á forvarnir. Í námskeiðinu er farið yfir það hvernig á að mynda hópa og hvernig á að byggja námskeiðið upp.

Markmiðið með BellaNet hópastarfinu er að styrkja sjálfsmynd og sjálfsvirðingu ungmenna en einnig að vera forvörn gegn slæmri andlegri heilsu sem og áfengis- og vímuefnaneyslu. Ungmennin læra að setja sjálfum sér og öðrum heilbrigð mörk, öðlast þekkingu á áhrifum og afleiðingum áfengis og vímuefna og öðlast færni í lífsleikni. Á námskeiðinu fá þau vettvang til að þjálfa sig í að spegla sig, hlusta á skoðanir annarra, tjá eigin skoðanir sem og réttlæta og standa með sjálfum sér. Nemendurnir þjálfast einnig í að hlusta á aðra og að hlustað sé á þá. Með þátttöku í BellaNet er markmiðið að ungmennin öðlist meira umburðarlyndi, skilning og samúð en fyrst og fremst að upplifa aukið sjálfsöryggi.

 

Í námskeiði BellaNets fara þátttakendur í gegnum efni námskeiðsins, vinnubókina „Bella: Rubble and Roses2 for girl groups“. Efnið er gagnreynt og unnið frá rannsóknum á stelpuhópum í Svíþjóð í gegnum samtökin KSAN eða Wocad (Woman‘s Organisation committee on alcohol and drug issues) sem eru sænsk regnhlífasamtök 30 samtaka sem öll vinna að forvörnum gegn áfengis- og vímuefnanotkun stúlkna og kvenna frá vöggu til grafar. Þátttakendur fá sjálfir að fara í gegnum hluta af þeim verkefnum sem hópnum er ætlað til að prufa það á eigin skinni og geta eftir það talað af eigin reynslu.

ATH: þó að verkefnið hafi verið hannað fyrir stelpuhópa í upphafi - þá er vel hægt að yfirfæra efnið á öll kyn og fleiri aldurshópa.