Verndarar barna

Verndarar barna er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn kynferðisofbeldi á börnum. Námskeiðið er ætlað öllum 18 ára og eldri og beinum við aðallega sjónum okkar að öllum þeim sem eiga börn og vinna með eða fyrir börn. Allir áhugasamir eru hvattir til að sækja sér þjálfun um hvernig hægt er að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi, hvernig á að bregðast við og hvað ber að gera ef grunur vaknar um að barn er að verða fyrir ofbeldi.

Einnig aðstoðum við félagasamtök og stofnanir við gerð forvarnaráætlana og verkferla.

Boðið er upp á fjölda  námskeiða og fyrirlestra í forvörnum gegn kynferðisofbeldi.

Barnaheill  leitast við að veita börnum, unglingum og fullorðnum einstaklingum aðstoð og  ráðgjöf varðandi kynferðisofbeldi. Ef þú ert barn, unglingur eða fullorðinn, þá höfum við tekið saman upplýsingar um  hvert þú getur leitað þegar grunur er um ofbeldi eða ef ofbeldi er að eiga sér stað.

Fyrsta útgáfan af Verndarar barna námskeiðinu, var bandarísk, frá samtökunum Darkness to light, en var þýtt yfir á íslensku 2006. Önnur útgáfan var alfarið byggð á íslenskum rannsóknum og nýjasta útgáfan, Verndarar barna 3, var útgefin haustið 2022 og er aðallega byggð á íslenskum rannsóknum auk nýlegra erlendra rannsókna.