Fyrir börn

TeikningLíkaminn er okkar eign og við eigum hann ein. Það hefur enginn rétt á að snerta okkur á þann hátt sem okkur finnst óþægilegt. Ekki heldur fullorðið fólk.

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum er eitt alvarlegasta ofbeldi sem til er. Þegar talað er um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum og unglingum getur það verið allt frá því að börn eru látin horfa á myndir með klámi, það sé talað við þau á klámfenginn hátt, þau snert á kynfærum, eða látin snerta kynfæri annarra og allt til nauðgana.

Hverjir beita kynferðislegu ofbeldi?

Oftast er sá sem beitir ofbeldinu, einhver sem barnið treystir, einhver í fjölskyldunni eða sem tengist fjölskyldunni. Það getur verið faðir, móðir, stjúpfaðir, stjúpmóðir, frændi, bróðir, hálfbróðir, stjúpbróðir, afi svo eitthvað sé nefnt.

Stundum verða börn fyrir kynferðislegu ofbeldi í gegn um netið. Einhver fullorðinn kemur sér í samband við barn á spjallsíðum og fer smátt og smátt að fá barnið til að taka þátt í kynferðislegu tali og athöfnum. Myndbirtingar sem sýna börn eða unglinga á kynferðislegan eða klámfenginn hátt eru líka kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Hér getur þú tilkynnt óviðeigandi eða ólöglegt efni á netinu.

Hinn fullorðni getur ekki skýlt sér á bak við að barnið hafi samþykkt það sem gerðist. Barnið ber ALDREI ábyrgð á ofbeldinu.

Sá sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi finnur til mikillar vanlíðunar. Hann getur fundið fyrir hræðslu, vanmætti, á erfitt með svefn, dregur sig í hlé frá vinum og fjölskyldu og getur átt erfitt í skóla. Hann getur líka fundið fyrir sektarkennd og fundist hann bera ábyrgð á því sem gerst hefur.

Mundu samt alltaf að kynferðislegt ofbeldi er ALDREI börnum að kenna.

Börn sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi geta sýnt ýmis einkenni. Þar má nefna árásargirni, aukinn orðaforða um kynlíf, kynferðislega hegðun og áverka á kynfærum.

Ef þú eða einhver sem þú þekkir hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi skiptir miklu máli að leita sér aðstoðar og fá hjálp.

Þú getur alltaf skrifað okkur á barnaheill@barnaheill.is.

Ef þú þarft að fá hjálp núna geturðu hringt í hjálparsíma Rauða krossins 1717. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert fyrir þig að hringja í hann. Hjálparsíminn 1717 er líka í netspjalli.

Ef um neyðartilvik er að ræða hringdu þá í 112.
 
Skoðaðu greinar úr barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar geturðu lesið um réttindi þín.

Hér má finna tengla með upplýsingum um hvert þú getur leitað:

Barnaverndarnefndir
Blátt áfram
Kvennaathvarf
Leiðin áfram – Upplýsingar fyrir börn sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi
persona.is
Stígamót
Lögreglan
Umboðsmaður barna

Einelti

Einelti er ofbeldi og á aldrei að líðast. Þegar einstaklingur eða hópur ræðst að annarri manneskju oft og yfir ákveðið tímabil, er um einelti að ræða.

Einelti getur verið andlegt eða líkamlegt. Andlegt einelti á sér stað þegar talað er niður til einstaklings, hann kallaður ljótum nöfnum og endurtekið gert lítið úr honum. Það er líka andlegt einelti þegar einstaklingur er skilinn útundan og fær ekki að vera með hópnum.

Líkamlegt einelti felst í síendurteknum barsmíðum.

Hvernig getur einelti lýst sér?

 • Uppnefningar og baktal
 • Sögur gerðar til að koma öðrum í vandræði
 • Telja fólk frá því að spjalla eða vingast við ákveðna einstaklinga
 • Þegar gert er grín að öðrum, s.s. vegna útlits
 • Hæðst af menningu, trú eða húðlit einstaklings
 • Hæðst að fötlun eða heilsuleysi
 • Þegar ákveðnir einstaklingar fá ekki að vera með í leikjum
 • Gert grín ítrekað að einstaklingi sem tekur því nærri sér
 • Illkvittin sms eða skilaboð á samfélagsmiðlum
 • Þegar neitað er að vinna með ákveðnum einstaklingum í skólanum
 • Eigur annarra eyðilagðar
 • Líkamsmeiðingar, sparkað, slegið, einstaklingur felldur eða hrækt á hann.

Sá sem verður fyrir einelti ber ALDREI ábyrgð á eineltinu. Sá sem hefur orðið fyrir einelti finnur fyrir mikilli vanlíðan. Einelti getur brotið einstaklinginn niður, honum finnst hann vera lítils virði og einangrar sig. Einelti á aldrei að líðast.

Ef þú hefur orðið fyrir einelti þá skaltu biðja um hjálp. Þú getur leitað til námsráðgjafans í skólanum þínum, skólafélagsráðgjafa eða hjúkrunarfræðings. Sumum finnst oft gott að byrja að leita til kennarans. Mundu að einelti er aldrei þér að kenna. Ef þú sérð einhvern vera að leggja annan í einelti þá skaltu láta vita. Einelti á aldrei að líðast.

Þú getur alltaf skrifað okkur á barnaheill@barnaheill.is og við munum svara þér.

Ef þú þarft hjálp núna geturðu hringt í hjálparsíma Rauða krossins 1717. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert fyrir þig að hringja í hann.

Ef um neyðartilvik er að ræða hringdu þá í 112.

Hér að neðan eru tenglar með nánari upplýsingum um einelti.

Vinátta
Olweus
SAFT
Persóna
Tótalráðgjöf
Heimili og Skóli
Umboðsmaður barna

Heilsa og líðan

Heilsan skiptir okkur miklu máli. Að hafa góða heilsu og líða vel hjálpar okkur að takast á við lífið. Að fá næga hreyfingu, borða hollan mat og hvíla sig hjálpar okkur við að takast á við daginn og vera heilbrigð. Öll getum við lent í því að verða veik endrum og sinnum. Þá getum við í flestum tilvikum leitað til foreldra okkar með það sem hrjáir okkur og þau hjúkra okkur og styðja í veikindunum. Stundum líður okkur illa án þess að vita af hverju. Og stundum finnst okkur bara lífið vera erfitt. Það getur verið erfitt að vakna á morgnana, fara í skólann og taka þátt í hinu og þessu sem í boði er. Þá er mikilvægt að geta talað við einhvern og fengið hjálp.

Ef þér líður illa og finnst lífið erfitt þá skaltu ekki hika við að tala við einhvern. Oft er gott að byrja á því að tala við foreldrana en stundum finnst okkur óþægilegt að tala við þau um það sem hrjáir okkur og viljum frekar tala við einhvern utanaðkomandi.

Það er hægt að leita á marga staði. Til dæmis að tala við skólahjúkrunarfræðing, námsráðgjafa eða kennara, leita á heilsugæslustöðvar og fleira.

Þú getur alltaf skrifað okkur á barnaheill@barnaheill.is og við munum svara þér.

Ef þú þarft að fá hjálp núna geturðu hringt í hjálparsíma Rauða krossins 1717. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert fyrir þig að hringja í hann. 1717 er líka í netspjalli.

Ef um neyðartilvik er að ræða hringdu þá í 112.

Hér eru tenglar með nánari upplýsingum um þetta málefni:

Landlæknir
doktor.is
Tótalráðgjöf
Umboðsmaður barna
Alls kyns um kynferðismál - Fræðslumynd

Ofbeldi á heimilum

Börn eiga rétt á því að líða vel heima hjá sér. Stundum er það bara ekki  þannig. Ástæðurnar geta verið margar.

Heimilisofbeldi er eitt af því sem veldur börnum mikilli vanlíðan, hvort sem börnin sjálf verða fyrir ofbeldinu eða horfa upp á að einhver í fjölskyldunni beitir annan í fjölskyldunni ofbeldi.

Að berja einhvern er ofbeldi, en hótanir, ógnandi framkoma og öskur eru líka ofbeldi. Foreldrar mega ekki beita börn sín ofbeldi. Þeir mega ekki flengja, slá, meiða, öskra eða tala niður til barna.

Öll börn eiga rétt á vernd og öryggi, jafnt á heimilinu og utan þess.

Börn bera aldrei ábyrgð á því ofbeldi sem þau verða fyrir eða horfa upp á og eiga það aldrei skilið. Heimilisofbeldi ætti aldrei að eiga sér stað og börn eiga aldrei að þurfa að upplifa slíkt.

Ef þú ert beitt/ur ofbeldi þá skaltu leita eftir aðstoð. Hægt er að leita til námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðings og kennara og þau hjálpa þér með næstu skref. Það er líka hægt að hringja í 112 og fá upplýsingar um barnaverndarnefnd í þínu sveitarfélagi. Barnaverndarefnd athugar þá hvernig aðstæður eru og koma þér til hjálpar. Þú getur líka látið barnavernd vita ef þú veist um einhvern annan sem beittur er ofbeldi. Ef maður veit um slíkt ber manni skylda til að láta vita.

Þú getur alltaf skrifað okkur á barnaheill@barnaheill.is.

Ef þú þarf að fá hjálp núna geturðu hringt í hjálparsíma Rauða krossins 1717. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert fyrir þig að hringja í hann.

Ef um neyðartilvik er að ræða hringdu þá í 112.

Hér eru tenglar með nánari upplýsingum um þetta málefni:

Kvennaathvarf
Barnaverndanefndir
Tótalrágjöf
Umboðsmaður barna

Skólinn

Öll börn eiga rétt á því að ganga í skóla og rétt á að líða vel í skólanum. Í skólanum eyðum við miklum tíma og því skiptir miklu máli að við finnum fyrir öryggi, okkur líði vel og séum sátt. Stundum er það bara ekki þannig. Stundum líður okkur illa í skólanum. Það getur verið vegna þess að við erum óörugg, eigum í erfiðleikum með heimanám, erum leið eða kvíðum fyrir því að taka próf. Stundum getur það verið vegna feimni, eða að við finnum fyrir einmannaleika, okkur er strítt og eigum ekki vini. Það geta líka verið einhverjar aðstæður heima fyrir sem okkur líður illa yfir. Þá er gott að geta leitað til einhvers sem hægt er að treysta.

Ef þér líður illa í skólanum skaltu leita þér hjálpar. Oft er gott að byrja á því að leita til kennarans og segja honum frá líðan þinni. Hann getur þá vísað þér áfram, t.d. til námsráðgjafa eða hjúkrunarfræðings. Það er líka alltaf hægt að leita beint til námsráðgjafa eða hjúkrunarfræðings. Námsráðgjafi í skólanum er þinn trúnaðarmaður. Hann styður þig og reynir að hjálpa þér við að leysa ýmis mál sem upp koma. Námsráðgjafi starfar fyrir nemendur og á að aðstoða þá í málum sem snúa að námi, námstækni og prófkvíða, framhaldsnámi og starfsvali. Námsráðgjafi á líka að aðstoða með persónuleg mál.

Það er líka gott að leita til skólahjúkrunarfræðings og hann er í raun líka þinn trúnaðarvinur. Hjúkrunarfræðingar starfa í flestum grunnskólum. Þeir eru yfirleitt með fastan viðverutíma í skólanum en oft starfa þeir líka á heilsugæslustöðvum nálægt skólanum. Það er hægt að leita til skólahjúkrunarfræðingsins með ýmis mál varðandi heilsu og líðan. Hann getur t.d. aðstoðað þig með mál sem varða vanlíðan, verki, næringu, útlit, húðvandamál, kynlíf og getnaðarvarnir. Ef þú hefur áhyggjur af líðan þinni er gott að byrja á því að ræða það við skólahjúkrunarfræðinginn.

Þú getur alltaf skrifað okkur á barnaheill@barnaheill.is.

Ef þú þarft að fá hjálp núna geturðu hringt í hjálparsíma Rauða krossins 1717 eðahaft samband við 1717 netspjallið. Hjálparsíminn og spjallið er opið allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hafa samband.

Ef um neyðartilvik er að ræða hringdu þá í 112.

Hér eru tenglar með nánari upplýsingum um hvert er hægt að leita:

Heimili og skóli
Tótalráðgjöf
Olweus
Umboðsmaður barna

Hjálp núna

Lífið getur stundum reynst okkur erfitt. Stundum líður okkur illa og vitum ekki alltaf út af hverju. Það er alltaf gott að geta leitað til einhvers til að tala um hlutina, þá líður manni oftast betur. Það getur verið einhver fullorðinn eða vinur sem maður þekki vel og treystir.

Það er kannski bara ekki alltaf það sem við viljum. Stundum finnst okkur gott að tala við einhvern sem við þekkjum ekki en vitum að við getum treyst fyrir líðan okkar og kannski vandamálum.

Þú getur skrifað okkur á barnaheill@barnaheill.is.

Ef þér líður illa og finnst lífið tilgangslaust skaltu hringja í hjálparsíma Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og kostar ekki neitt. Síminn þar er 1717. Ekki hika við að hringja. Þú getur líka haft samband í gegnum 1717 netspjallið.

Ef um neyðartilvik er að ræða hringdu þá í 112.