Vanræksla

Um vanrækslu er að ræða þegar þörfum barns er ekki sinnt þannig að barninu er búin hætta af eða það getur skaðað þroska þess. Taka skal fram að ekki er verið að tala um eitt og eitt skipti þegar foreldrum/forráðamönnum verður á í uppeldi og umönnun barns heldur síendurtekin atvik. Stuðst er við upplýsingarnar úr skilgreiningar- og flokkunarkerfi í barnavernd (SOF) þegar fjallað er um líkamlega vanrækslu, vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit, tilfinningalega/sálræna vanrækslu og vanrækslu varðandi nám. Flokkunarkerfið er hannað af Freydísi Jónu Freysteinsdóttur.

Öllum er skylt að tilkynna grun um vanrækslu á barni til barnaverndarnefndar í því sveitarfélagi sem barnið býr í eða í 112 utan dagvinnutíma. Börn geta sjálf tilkynnt um vanrækslu gagnvart sér til barnaverndar og eiga þau þá að fá stuðning og hjálp.

 Vanræksla getur haft eftirtalin áhrif á börn:

 • Getur komið í veg fyrir að börn þroskist eðlilega bæði líkamlega og andlega.
 • Vanrækt börn geta dregist aftur úr jafnöldum sínum á nánast alla mögulega vegu eins og í félagslegum tengslum, sköpunargáfu og tungumálakunnáttu, eins og til dæmis í móðurmáli.
 • Vanrækt börn geta átt erfiðara með að leysa úr vandamálum, verða reið og pirruð.
 • Árangur þeirra í skóla getur orðið slakari og þau eru líklegri til að vera fjarverandi úr skóla og detta úr námi seinna meir.
 • Vanræksla gagnvart barni snemma á lífsleiðinni getur valdið óbætanlegum skaða bæði andlega og líkamlega.
 • Getur leitt til áfengis- og vímuefnaneyslu.
 • Getur leitt til dauða.

Líkamleg vanræksla

 • Frávik í líkamsþroska vegna ónægrar tengslamyndunar foreldra við barn: Þegar börn, oftast innan við árs gömul, þyngjast og lengjast ekki eins og þau eiga að gera og hreyfiþroski er langt undir eðlilegum meðaltals hreyfiþroska. Staðfesting á þessu verður að koma frá lækni og í einstaka tilfellum getur verið um líffræðilegar ástæður eða veikindi að ræða.
 • Fæði er ábótavant: Barn fær ekki nægilegt fæði eða fæði sem fullnægir ekki þörfum þess. Vegna þess getur barn orðið of- eða vannært, biður aðra oft um mat eða þegar unglingur nærist ekki nóg miðað við þörf. Staðfesting á þessu verður að koma frá lækni.
 • Klæðnaði er ábótavant: Barn er ekki klætt á fullnægjandi og viðeigandi hátt miðað við þörf. Til dæmis þegar fatnaður er ekki í réttum stærðum og í samræmi við veðurfar og aðstæður. Einnig þegar unglingur klæðir sig ekki í samræmi við veðurfar eða aðstæður.
 • Hreinlæti er ábótavant: Heilsa og velferð barns er í hættu vegna skorts á hreinlæti. Til dæmis ef barn er baðað svo sjaldan að það lykti, fatnaður barnsins er mjög óhreinn, tannburstun er ábótavant og tennurnar því mjög óhreinar. Þegar unglingur þrífur sig ekki.
 • Húsnæði er ábótavant: Barn býr ekki við fullnægjandi húsnæði og því er heilsu og velferð þess stefnt í voða. Til dæmis þegar húsnæði eða athvarf er ekki til staðar, ekki er hægt að ganga um húsnæði fyrir rusli og drasli og uppsafnaðar matarleifar. Frágangi á rafmagni er ábótavant og vöntun er á hita, rafmagni, öryggisbúnaði til dæmis við stiga og öðrum hlutum fyrir venjulegt heimilishald.
 • Heilbrigðisþjónustu er ábótavant: Foreldri sinnir ekki þörf barnsins fyrir heilbrigðisþjónustu. Til dæmis ef fagfólk í heilbrigðiskerfinu hefur mælt fyrir um að barnið þarfnist ákveðinnar þjónustu og foreldri sinnir því ekki.

Vanræksla varðandi umsjón og eftirlit

 • Skortur á eftirliti: Barn er í hættu vegna skorts á eftirliti eins og þegar barn er skilið eftir á skiptiborði, í sundlaug eða heitum potti, barn er ekki fest í öryggisbelti eða bílstól eftir því sem við á miðað við aldur þess.
 • Barn látið vera eitt án þess að hafa þroska eða aldur: Dæmi um þetta þegar barn er skilið eftir í bifreið eða á heimili.
 • Barn er óeðlilega lengi í umsjá annarra: Þegar barn er ítrekað ekki sótt á umsömdum tíma í pössun eða barnið er oft í pössun.
 • Barn er skilið eftir hjá óhæfum aðila: Þegar umönnunaraðilinn hefur ekki nægan þroska eða aldur til að líta eftir barni. Viðkomandi er undir áhrifum vímuefna eða haldinn geðsjúkdómi sem gerir viðkomandi óhæfan til að annast barn.
 • Foreldri lýsir því yfir að það sé tilbúið til að yfirgefa barn eða yfirgefur það: Þegar foreldri lýsir því yfir að það vilji ekki eiga barnið eða rekur það að heiman. Barn er til dæmis skilið eftir á víðavangi og almenningsstöðum og einnig ef foreldri reynir að svipta sig lífi og er eitt með forsjá yfir barninu.
 • Barn verður forsjárlaust vegna fráfalls eða hvarfs foreldris: Þegar foreldri fellur frá og barn verður forsjárlaust, ef foreldri er handtekið eða hverfur af öðrum ástæðum sem verður til þess að það getur ekki sinnt barninu.
 • Barn er í hættu eða ekki verndað gegn annarlegu ástandi foreldris: Barn verður vitni að annarlegu ástandi foreldris vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu og til dæmis þegar barni er hætta búin í bifreið vegna neyslu foreldris.
 • Barni er leyft eða hvatt til að taka þátt í ólöglegu eða ósiðlegu athæfi:  Barn tekur þátt í afbrotum og áfengis- og vímuefnaneyslu án þess að foreldri grípi inn í eða er hvatt til þess af foreldrum.

Tilfinningaleg og sálræn vanræksla

 • Tilfinningalegar þarfir barns eru vanræktar: Foreldri bregst illa eða seint við tilfinningalegum þörfum barns eins og þegar ungabarn grætur eða barn vantar stuðning foreldris. Einnig þegar skortur er á eðlilegri tengslamyndun milli barns og foreldris.
 • Örvun á hugrænum þroska barns af hálfu foreldra er ekki nægjanleg: Þegar foreldri lætur sem það sjái hvorki né heyri í barninu og þegar barnið er ofverndað og fær því ekki tækifæri til að þroskast andlega og takast á við verkefni sem hæfa aldri þess og þroskast. .
 • Félagsþroski barns er vanræktur: Foreldri stuðlar að einangrun fjölskyldunnar þannig að félagsþroski barns fær ekki örvun. Þetta á einnig við þegar foreldri truflar ítrekað tilraunir barns til að vingast við jafnaldra.

 Vanræksla varðandi nám

 • Mætingu í skóla ábótavant: Foreldri sinnir því ekki þegar barn þess mætir illa eða oft of seint í skóla.
 • Barn ekki skráð í skóla eða missir mikið úr vegna ólögmætra ástæðna: Til dæmis þegar foreldri vaknar ekki til að koma barninu í skólann eða barn ber ábyrgð á yngri systkinum.
 • Skortur á eftirfylgni foreldra vegna ábendinga fagfólks: Barninu er vísað í greiningu eða aðra sértæka þjónustu vegna gruns um námsörðugleika en foreldri sinnir því ekki.
 • Mæting með viðeigandi útbúnað er ábótavant: Barnið skortir ítrekað viðeigandi áhöld til skólastarfsins eins og bækur, íþróttaföt og fleira.