Upphaf Barnasáttmálans

Eglantyne Jebb sem stofnaði Save the Children samtökin er upphafsmaður að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hún ritaði fyrstu drög að réttindum barna árið 1923 í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar sem hafði hræðilegar afleiðingar fyrir börn sérstaklega. Þessi drög voru samþykkt af Þjóðarbandalaginu (League of Nations) sem var forveri Sameinuðu þjóðanna í Genf árið 1924.

Samningurinn er oft nefndur Genfaryfirlýsingin og var með honum í fyrsta sinn til skriflegt skjal um viðurkenningu á alþjóðlegum skuldbindingum til verndar öllum börnum burtséð frá þjóðerni, kynþætti eða trúarskoðunum. Um fimm meginreglur var að ræða um verndun og velferð barna og var Genfaryfirlýsingin svohljóðandi:

  1. Gefa þarf barni þau úrræði sem nauðsynleg eru til eðlilegs þroska þess, bæði efnisleg og andleg.
  2. Barn sem er hungrað þarf að fæða, barn sem er veikt þarf að hlúa að, barn sem er seinþroska þarf að hjálpa, barn sem er vanrækt þarf að aðstoða og barn sem er munaðarlaust þarf að veita skjól og stuðning.
  3. Barn á að fá aðstoð á undan öðrum á neyðartímum.
  4. Barni þarf að tryggja lífsafkomu og vernda það gegn hvers konar ofbeldi og vanrækslu.
  5. Barn þarf að ala upp meðvitað um eigin styrkleika og ber að nota þá í því samfélagi sem það býr í.

Þann 20. nóvember árið 1959 var sérstök yfirlýsing um réttindi barnsins samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Dagurinn hefur síðan verið tileinkaður málefnum barna ár hvert og er alþjóðlegur dagur barna. Yfirlýsingin byggðist að mestu efnislega á Genfaryfirlýsingunni, bætti ekki miklu efnislega við en fól hins vegar í sér frekari útfærslu á henni. Hvorug yfirlýsingin fól þó í sér að réttindi barnsins væru formlega bindandi að þjóðarrétti.

Flest ríki voru sammála um nauðsyn þess að þróa réttindi barna á alþjóðlegum vettvangi enn frekar og veita börnum víðtækari vernd. Alþjóðaár barnsins var árið 1979 og í tengslum við það var hafist handa við að undirbúa sérstakan þjóðréttarsamning um réttindi barna.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, eða Barnasáttmálinn eins og hann er oftast nefndur í daglegu tali, var lagður fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, fullbúinn til undirritunar og fullgildingar, þann 20. nóvember árið 1989. Hann var undirritaður á Alþingi árið 1990 og staðfestur fyrir Íslands hönd 28. október 1992. Sáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013. Í lögfestingu felst að hægt er að beita ákvæðum sáttmálans fyrir dómstólum sem settum lögum og er því um að ræða mikla réttarbót fyrir íslensk börn.

Allar aðildarþjóðir SÞ hafa staðfest sáttmálann nema Bandaríkin og Suður-Súdan. Staðfestingin felur í sér að lög og reglur eigi að vera í samræmi við sáttmálann og aðildarríkin geri það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja lögunum.