Karma - Lína okkar tíma

 

Karma

 

Karma er 10 ára og býr með fjölskyldunni sinni í litlu þorpi í Norður-Svíþjóð. Hún er frá Egyptalandi og er fjölskylda hennar að bíða eftir því hvort að beiðni þeirra um hæli í Svíþjóð verði veitt eða hafnað. 

,,Ég vissi að hér væri talað annað tungumál. Ég hélt að það myndi verða auðvelt en það er svolítið erfitt.”

Karma man ekki mikið eftir deginum þegar hún og fjölskyldan hennar kom til Norður-Svíþjóðar fyrir einu ári síðan, aðeins það að hún borðaði mikið af kartöfluflögum þennan dag og það var kalt og rigning. Í rólega þorpinu sem þau búa núna í eru færri en 1.000 íbúar. Það er ólíkt því sem Karma þekkir frá heimalandinu en hún kemur frá Kairó sem er gríðarlega fjölmenn.

 

,,Það voru bílar alls staðar,” segir Karma. ,,En hér snjóar á veturna. Ég og systkini mín vorum virkilega spennt því við höfðum aldrei leikið okkur í snjó. Þegar það byrjaði að snjóa vorum við ekki með nein vetrarföt en við klæddum okkur bara í allt sem við áttum og fórum út að leika”.

Þegar Karma og fjölskyldan hennar komu á rútustöðina, í Norður-Svíþjóð fyrir einu ári, vissu þau ekki hvert þau áttu að fara eða hvað þau áttu að gera. Fyrir tilviljun hittu þau starfsfólk frá Save the Children í Svíþjóð sem hjálpaði þeim og sagði þeim að fólk úr móttökuþjónustu flóttamanna myndi koma og aðstoða þau.

Flest börn sem eru á flótta eru með fjölskyldum sínum, en þau eru viðkvæm fyrir nýju umhverfi. Fjölskyldur á flótta þurfa á stuðningi að halda til að takast á við breytingar og streitu sem því fylgir að koma sér fyrir á nýjum stað og mikilvægt er að börn finni fyrir öryggi.

Þrátt fyrir að Karma sakni bestu vina sinna í Egyptalandi, þá er hún búin að eignast nýja vini í skólanum í Svíþjóð.

,,Ég var með plan: Að ég myndi spyrja þau hvað þau hétu!", segir Karma. ,,Og þá spurðu þau mig hvað ég hét og í framhaldinu spurðu þau fleiri spurninga um mig. Ég kynntist þeim þannig."

Kennararnir í skólanum tala að mestu leyti ensku og margir þeirra eru frá öðrum löndum en Svíþjóð. Henni líkar vel í skólanum, vegna þess að hún lærir nýja hluti og skólinn hennar er ekki að einbeita sér eingöngu að einkunnum barnanna eins og skólinn hennar í Kairó.

Karma elskar að teikna og móðir hennar segir að hún sé með listamannasál.

,,Ég vil kannski vera málari," segir Karma. ,,En ég hef verið að hugsa um þetta og kannski mun ég skipta um skoðun...eða ekki."