Lýðstjórnarlýðveldið Kongó

Lýðstjórnarlýðveldið Kongó er með verstu löndum heims til þess að alast upp í.  Landið býr yfir einu versta heilbrigðiskerfi í heiminum, en 20% barna undir 5 ára deyja úr sjúkdómum sem hægt er að koma í veg fyrir með réttri meðferð. 

Lýðstjórnarlýðveldið Kongó er staðsett í Mið-Afríku og er annað stærsta land álfunar og það ellefta í heiminum. Landið er eitt það fátækasta í heimi, þrátt fyrir að búa yfir gífurlegum náttúruauðlindum á borð við demanta, gull og kóbalt. Íbúar Kongó eru um 90 milljónir en yfir 70% íbúa búa við fátækt. Íbúar landsins eru ungir en um helmingur er undir 15 ára.

Mikil átök hafa geisað í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í meira en tvo áratugi og eru átökin mannskæðasta neyðarástand í heiminum í dag. Mannréttindabrot eru framin úti um allt land og kynferðisofbeldi er beitt sem stríðsvopni. Börn eru gríðarlega berskjölduð fyrir átökunum en ítrekað hefur verið ráðist inn í skóla og sjúkrahús og hefur fjöldi barna verið drepinn eða þau beitt ofbeldi. Einnig veldur vannæring, vosbúð af ýmsu tagi og sjúkdómar á borð við Ebólu og Kóleru miklu manntjóni í landinu. Talið er að 26,3 milljónir landsmanna þurfi á mannúðaraðstoð að halda, en 49,9% þeirra eru börn.

Átökin hafa hrakið milljónir manna á flótta innan eigins lands. Talið er að 5,2 milljónir manna hafi neyðst til að flýja heimili sín, en 60% þeirra eru börn. Börn á flótta verða oft viðskila við fjölskyldur sínar og eru í mikilli hættu á að verða fórnarlömb ofbeldis. 19,6 milljónir landsmanna búa við fæðuóöryggi og 4,6 milljónir eru alvarlega vannærð.

Suður-Kivu, hérað í austanverðu landinu, er eitt hættulegast svæði landsins því þar eru átökin á milli vopnaðra hópa og hersveita eldfim. Börn eru numin á brott af heimilum,  beitt kynferðisofbeldi og neydd til að ganga til liðs við stríðsaðila. Talið er að um 475,000 börn þurfi á áfallahjálp að halda vegna átakanna í Suður-Kivu. Þörfin fyrir neyðaraðstoð hefur einnig aukist vegna flóða, kóleru- og Covid-19 faraldra. Brýnt er að bæta aðstæður og öryggi barna í Kongó með því að auka mannúðaraðstoð handa börnunum og fjölskyldum þeirra.