Úkraína

Átök hafa ríkt í Úkraínu frá árinu 2014 þegar Rússar réðust inn í austurhluta landsins. Átökin stigmögnuðust í febrúar á þessu ári og eru nú 7,5 milljónir barna í Úkraínu í brýnni hættu vegna stríðsins sem geisar. Úkraínsk börn þurfa að þola skotárásir og ofbeldi. Fjöldi barna og fjölskyldur þeirra hafa neyðst til að dvelja í svokölluðum sprengjuskýlum til þess að komast undan sprengingum og önnur hafa þurft að flýja heimili sín. Á fyrstu vikum átakanna hafði meira en helmingur barna flúið heimili sín. Fjöldi barna hafa særst og látist í átökunum, þá helst þegar árásir hafa verið gerðar á skóla eða sjúkrahús.

Margar fjölskyldur sem flýja þurfa aðstoð við skjól, mat og hreint vatn. Börn munu hljóta langvarandi skaða vegna átakanna en þá má m.a. nefna truflun á menntun þeirra, tekjumissi fjölskyldunnar og áhrif fjölskylduaðskilnaðar. Ekki má heldur vanmeta andleg áhrif sem átökin hafa á börn en hætta er á langvarandi geðheilsuvandamálum barna í kjölfar átakanna.