Fátækt

Fátækt

Öll börn eiga rétt á að njóta þeirra réttinda sem kveðið er á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki má mismuna börnum hvað þau réttindi varðar eftir stöðu þeirra eða foreldra þeirra. Þau eiga rétt á að lifa og þroskast, menntast, heilsuvernd, hvíld og tómstundum. Samt sem áður geta ekki öll börn notið ýmissa gæða til að eiga innihaldsríkt líf og ekki tekið þátt í samfélaginu á við önnur börn vegna efnahagslegrar stöðu foreldra þeirra. Slíkt er brot á mannréttindum barna.

Frá árinu 2013 hafa Barnaheill – Save the Children á Íslandi unnið að vitundarvakningu um barnafátækt og afleiðingum fátæktar á börn.

Hluti þeirrar vinnu er samstarf við Evrópuhóp Save the Children um fátækt meðal barna í Evrópu. Gerðar hafa verið úttektir á málefnum barna í löndum Evrópu og gefnar út skýrslur:

Fátækt meðal barna yngri en 18 ára í Evrópu (ESB- lönd, Ísland, Noregur og Sviss) hefur lítið minnkað á undanförnum árum, þrátt fyrir áætlanir þar að lútandi. Árið 2012 áttu 28% barna á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun. Árið 2020 er talan 24%. Þeim börnum sem áttu á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun fækkaði um tvær milljónir frá árinu 2012 til 2015 ( frá 27 í 25 milljónir). Árið 2022 átti enn eitt af hverjum fjórum börnum í Evrópu á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun eða 24,4% og eru því vísbendingar um aukna fátækt í Evrópu. Ekkert Evrópuland er laust við barnafátækt og illa gengur að uppræta fátækt í álfunni. Í mörgum Evrópuríkjum hefur bilið milli ríkra og fátækra breikkað og ójöfnuður aukist. 10% heimila í Evrópu þéna 31% tekna og eiga 50% eigna. Sífellt færri fjölskyldur hafa möguleika á að veita börnum sínum menntun og tækifæri. Þau börn sem eru einna verst stödd verða enn frekar út undan hvað varðar menntun, heilsu, lífsfyllingu og allskyns tækifæri. Vísbendingar eru um aukna fátækt og ójöfnuð í kjölfar Covid heimsfaraldurs, aukins framfærslukostnaðar m.a vegna stríðs í Úkraínu og áhrifa loftslagsbreytinga.

Þó mátti á tímabili sjá einhvern árangur af baráttunni gegn fátækt. Þar má nefna Rúmeníu. Hlutfall barna sem áttu á hættu að búa við fátækt í Rúmeníu árið 2016 var rúmlega 50% en var komið í 33,4% árið 2020, en er 41,5% árið 2021. Hlutfall barna sem eiga á hættu að búa við fátækt er hæst í Albaníu eða rúmlega 50%.

Árið 2014 átti 16% barna á Íslandi á hættu að búa við fátækt, en 14% barna tveimur árum síðar. Árið 2021 var hlutfallið 12,7% og var annað lægsta í Evrópu. Árið 2022 var hlutfallið komið í 13,1% eða um 10.000 börn sem eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun á Íslandi.

Í meirihluta Evrópulanda er líklegra að börn búi við fátækt en fullorðnir og er það einnig þannig á Íslandi. Í nokkrum löndum er þessu öfugt farið og á það við um öll lönd Norðurlanda utan Íslands. Ísland er því eina norræna landið þar sem börn eiga frekar á hættu að búa við fátækt en fullorðnir.

Ísland er eina þátttökulandið sem hefur enga skilgreiningu á fátækt meðal barna. Jafnframt er engin opinber stefna eða áætlun á Íslandi um að uppræta fátækt meðal barna.

Áhrifaþættir fátæktar og afleiðingar

Tekjur heimila, bæði hvað varðar laun og félagslegar greiðslur, atvinnuþátttaka foreldra, menntun og bakgrunnur þeirra eru helstu áhrifaþættir fátæktar í Evrópu. Meiri líkur eru á því að börn búi við fátækt í Evrópu ef foreldrar eru í lítilli vinnu eða án atvinnu, með litla menntun eða af erlendum uppruna.

Þeir hópar barnafjölskyldna á Íslandi sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir fátækt og félagslegri einangrun eru einstæðir foreldrar, fjölskyldur með lágar tekjur, fjölskyldur með fötluð börn, fjölskyldur þar sem foreldri er á örorkubótum, flóttabörn og börn í fjölskyldum sem búa við erfiðar félaglegar aðstæður.

Börn sem búa við fátækt eru líklegri til að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar og fá ekki sömu tækifæri og önnur börn. Fátækt flyst á milli kynslóða. Ójöfnuður er ekki einungis einn orsakavaldur fátæktar, heldur einnig afleiðing.

Að alast upp í fátækt er brot á réttindum barna og hefur afdrifaríkar afleiðingar á líf þeirra. Að uppræta barnafátækt er því mikilvægt og þurfa stjórnvöld að gera áætlanir þar að lútandi.

Stuðningur við börn og barnafjölskyldur er þar lykilatriði. Jafn aðgangur að gjaldfrjálsri þjónustu er mikilvægur til að tryggja jöfn tækifæri allra barna.

Íslensk stjórnvöld hafa lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samþykkt heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þar með samþykkt að uppræta fátækt og að mismuna ekki börnum vegna stöðu þeirra eða foreldra þeirra.

Aðgerðir

Til þess að draga úr barnafátækt skorar Evrópuhópur Save the Children á stjórnvöld Evrópuríkja til að grípa til aðgerða. Þar á meðal þarf að tryggja viðunandi framfærslu fyrir allar fjölskyldur, tryggja gjaldfrjálsa gæðamenntun fyrir öll börn og tryggja öllum börnum leikskólavist eða önnur þroskavænleg og örugg úrræði eftir að fæðingarorlofi lýkur. Einnig þarf að minnka brottfall úr skólum með raunhæfum aðgerðum sem virka og að tryggja aðgang allra barna að tómstundum, listum og skemmtunum og marka stefnu um tómstundir.

Lögð er áhersla á að styrkja velferðarkerfið sem er helsta tæki jöfnunar og félagslegs réttlætis fyrir börn. Allar áætlanir sem varða börn og miða að því að útrýma fátækt og félagslegri einangrun þurfa að byggjast á þeim réttindum sem öll börn eiga að njóta og skilningi á stöðu þeirra og þörfum.

Að fjárfesta í börnum ætti að vera meginregla í fjárlagagerð á öllum stjórnsýslustigum, því sú fjárfesting gagnast börnunum sjálfum og samfélaginu öllu til framtíðar. Því á ekki að líta á á fjármagn í þjónustu við börn sem útgjöld.

 Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa skorað á íslensk stjórnvöld að:

 • Framfærsla: Auka barnabætur og byggja þær á framfærsluviðmiðum.
 • Húsnæði: Tryggja öllum börnum og fjölskyldum þeirra öruggt og heilsusamlegt húsnæði. Öruggt húsnæði er grundvöllur heilsu, vaxtar og þroska.
 • Menntun: Tryggja gjaldfrjálsa gæðamenntun til 18 ára aldurs fyrir öll börn, þar með talin námsgögn. Minnka þarf brottfall úr skólum með raunhæfum aðgerðum sem virka.
 • Næring: Tryggja öllum börnum næringarríka máltíð í skólum og gjaldfrjálsa með öllu fyrir þau börn sem búa við fátækt og/eða skort.
 • Heilbrigði: Efla geðheilsu barna með gjaldfrjálsri heilbriðgðisþjónustu á sviði félagslegra og geðrænna veikinda, þjónustu án biðar.
 • Tómstundir: Tryggja aðgang allra barna að tómstundum, listum og skemmtunum og draga verulega úr kostnaði.
 • Styrkja mennta- og velferðarkerfið ásamt beinum inngripum fyrir þau börn sem eiga við einhvers konar erfiðleika að etja. Mennta- og velferðarkerfið eru helstu tæki jöfnunar og félagslegs réttlætis fyrir börn.
 • Tryggja að öll börn sem fæðast á Íslandi geti vænst þess að hafa tækifæri til menntunar, heilsu og lífsfyllingar og að ekkert barn muni búa við fátækt.
 • Gera áætlanir um forvarnir og viðbrögð við samfélagslegum áskorunum svo sem vegna heimsfaraldurs eða loftslagsbreytinga og áhrifa á börn.
 • Hafa fjárfestingu í börnum sem leiðarljós í fjárlagagerð á öllum stjórnsýslustigum þar sem fjárfestingin mun skila sér til alls samfélagsins í nútíð og framtíð.
 •  Líta ekki á fjármagn sem varið er til þjónustu við börn sem útgjöld. 

Barnaheill hvetja stjórnvöld til að marka stefnu og gera áætlun um að uppræta fátækt meðal bara fyrir árið 2030. Slíkt mun stuðla að betra samfélagi fyrir alla.

Barnaheill hafa sérstaklega beitt sér fyrir gjaldfrjálsri grunnmenntun, gjaldfrjálsum tannlækningum, lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og þroskavænlegu úrræði fyrir öll börn að því loknu, að gert verði átak til að minnka brottfall úr framhaldsskólum, sem ermun hærra en í nágrannalöndunum. Lykilatriði er að börnum sé aldrei mismunað vegna efnahagslegrar stöðu foreldra þeirra, en sú er raunin svo sem hvað varðar tómstundir.

Nánar um skýrslurnar:

Child Poverty and Social Exclusion in Europe – A matter of children´s rights. 2014

Í skýrslunni kom meðal annars fram að tæplega 27 milljónir barna í Evrópu áttu á hættu að lenda í fátækt eða félagslegri einangrun, þar af um 16% barna á Íslandi sem er um 12.000 börn. Tekjur heimila, bæði hvað varðar laun og félagslegar bætur, atvinnuþátttaka, menntun og bakgrunnur foreldra eru helstu áhrifaþættir fátæktar. Börn foreldra með litla menntun, með litla atvinnuþátttöku og af erlendum uppruna eru líklegri til að búa við fátækt eða félagslega einangrun.

20,8% barna í Evrópu koma úr fjölskyldum þar sem tekjur eru undir 60% af meðaltekjum. Börn foreldra sem eru með litla atvinnuþátttöku eða eru atvinnulausir eru 56,7% líklegri til að búa við fátækt eða félagslega einangrun. Í sumum löndum, eins og Íslandi, Danmörku, Noregi, og Rúmeníu er munurinn þó mun minni (11–34 % meiri líkur). Meiri líkur eru á fátækt ef foreldrar eru af erlendum uppruna, 32, 2 % á móti 18, 3% ef foreldrar eru ekki af erlendum uppruna. Á Íslandi er munurinn einungis 3%.

Uppruni, atvinnuþátttaka og menntun foreldra skiptir minna máli hvað varðar hættuna á fátækt barna á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum.

Ófullnægjandi húsnæði og hátt húsnæðisverð er annar mikilvægur þáttur í fátækt og einangrun. Í löndum Evrópu búa um 11% barna við aðstæður þar sem meira en 40% ráðstöfunartekna fara í húsnæðiskostnað. Allt að 30% barna á Íslandi býr í húsnæði sem er óviðunandi og jafnvel við mikið þröngbýli. Um 40% barnanna býr við þær aðstæður að húsnæðiskostnaður er fjölskyldunni þungur baggi – og henni jafnvel ofviða. Of stór hluti heimilistekna fer í húsnæðiskostnað. Börnin búa í mörgum tilfellum við tíða flutninga, sem gerir það að verkum að þau ná ekki mynda tengsl og eiga á hættu að verða félagslega einangruð.

 

Ending Educational and Child poverty in Europe, Leaving no child behind. 2016

Í þessari skýrslu eru tengsl barnafátæktar og menntunar skoðuð. Haldnar voru vinnustofur með ungmennum víða um Evrópu og sýn þeirra á fátækt og mismunun birtist í skýrlsunni. Í skýrslunni kemur fram að sterk tengsl eru á milli árangurs barna og efnahagslegrar- og félagslegrar stöðu foreldra þeirra. Því sé ein árangursríkasta leiðin til að uppræta fátækt og ójöfnuð að styðja og auka færni þeirra barna sem eru hve verst stödd.

Save the Children skilgreinir fátækt á sviði menntunar sem skerðingu á réttindum barna til menntunar og tækifæra til náms og til að þroska færni til að takast á við breytilegan heim á árangursríkan hátt. Þau fá ekki að taka þátt í samfélaginu á sama hátt og önnur börn og öðlast því ekki þá reynslu og þann félags- og tilfinningaþroska sem er nauðsynlegur til að vera virkur samfélagsþegn. Menntunarleg fátækt hefur tilhneigingu til að færast á milli kynslóða. 20% barna í Evrópu teljast fátæk á sviði menntunar.

Skortur á menntun er einn helsti áhættuþáttur fátæktar. Lítil menntun er ein grundvallarástæða atvinnuleysis meðal ungs fólks, þar sem börn sem hætta snemma í námi, með litla færni og hæfni, eiga frekar á hættu að vera atvinnulaus, eða vera í illa launuðum störfum sem fullorðnir einstaklingar. Brottfall er einn mælikvarða um fátækt á sviði menntunar.

Samkvæmt skýrslunni er meðaltal brottfalls í Evrópu  11%. Brottfall á Íslandi er tæplega 19%, en í Danmörku er brottfall 8%,  Svíþjóð 7%, Finnlandi 9% og Noregi 11%. Ísland er langt fyrir ofan meðaltal og mikilvægt er að gripið sé til aðgerða.

Í Evrópu eru að meðaltali 54% líkur á að börn eigi á hættu að búa við fátækt ef foreldrar eru atvinnulausir eða með lága atvinnuþátttöku. Líkurnar fara yfir 60% í sumum Evrópulöndum.

Á Íslandi eru 35% líkur á fátækt ef foreldrar eru atvinnulausir eða með lága atvinnuþátttöku og hafa líkurnar aukist um 9% á tveimur árum. Þetta eru þó minnstu líkur í Evrópu.

Á Íslandi eiga 15% þeirra sem eru á vinnumarkaði hættu á að búa við fátækt, sem er hærra en meðaltal Evrópu. Um er að ræða fjölskyldur með tekjur undir 60% af meðaltekjum.

Í öllum Evrópulöndum, nema á Íslandi eru 30%– 80% eða meiri líkur á fátækt barna ef foreldrar eru með litla menntun. Á Íslandi eru 18% meiri líkur á fátækt ef foreldrar eru með litla menntun (var 30% samkvæmt skýrslu 2014).

 

Guarnteeing Children's Future: Ending Child Poverty and Social Exclusion in Europe. 2021

Fjórtán ríki í Evrópu tóku þátt í vinnu við skýrsluna, bæði lönd innan Evrópusambandsins og utan þess, þar á meðal Barnaheill - Save the Children á Íslandi.

Ísland er eina þátttökulandið sem hefur enga skilgreiningu á fátækt meðal barna. Jafnframt er engin opinber stefna eða áætlun á Íslandi um að uppræta fátækt meðal barna, né þátttöku þeirra.

Áður en Cocid faraldurinn hófst átti eitt af hverjum fjórum börnum í Evrópu á hættu að alast upp við fátækt og félagslega einangrun. Tölur frá Eurostat, sem skýrslan byggir á gefa til kynna að fátækt hafi aukist í faraldrinum. Um 20 milljón barna í Evrópu alast upp við fátækt og féalgslega einagrun.

12,7% barna á Íslandi eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun, næst lægst á eftir Danmörku þar sem 12,4% barna eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun og er Danmörk því með hlutfallsega minnsla fátækt meðal barna af þeim 14 löndum sem tóku þátt í gerð skýrslunnar. Albanía mælist með mestu fátækt meðal barna þar sem 49,4% barna býr við fátækt, í Finnlandi eru það 15% barna og í Svíþjóð 20% barna. Meðaltal Evrópusambandsríkja er 23,7%. Í mörgum tilfellum eiga tölurnar við árið 2019, þar sem nýrri tölur fengust ekki alls staðar frá. Þar sem nýrri tölur fengust, kom í ljós að fátækt jókst víðast á milli ára vegna áhrifa Covid–19. Ástæðan er ekki síst atvinnuleysi og því í kjölfarið erfiðleikar með að standa í skilum með reikninga og sjá fjölskyldu sinni farboða. Þó minnkaði minnkaði fátækt í Danmörku, Svíþjóð og Litháen frá 2019 til 2020. Ekki eru tölulegar upplýsingar til fyrir Ísland fyrir árið 2020.

Í skýrslunni er sérstaklega skoðuð þátttaka barna í leikskólum (Early childhood education and care), skólamáltíðir og næring barna, þátttaka í tómstundum, heilsugæsla og húsnæðismál barna og fjölskyldna þeirra. Skoðuð er sú þjónusta sem börnum stendur til boða og kostnaður fjölskyldna.

Samkvæmt skýrslunni eru þeir hópar barnafjölskyldna á Íslandi sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir fátækt og félagslegri einangrun, einstæðir foreldrar, fjölskyldur með lágar tekjur, fjölskyldur með fötluð börn, fjölskyldur þar sem foreldri er á örorkubótum, flóttabörn og börn í fjölskyldum sem búa við erfiðar félaglegar aðstæður.

90% foreldra á örorkubótum á Íslandi segja bæturnar ófullnægjandi, 80% geta ekki mætt óvæntum útgjöldum, 22% segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börn sín og 19% ekki geta greitt fyrir frístund eða tómstundir barna sinna.

Kostnaður við húsnæði er einn stærsti útgjaldaliður fjölskyldna á Íslandi og búa margar þeirra við óöryggi, þröngan húsnæðiskost og í óviðunandi húsnæði.

Áhrif Covid–19 á andlega heilsu barna og aðstæður í fjölskyldum er töluverð. Tilkynningar til barnavernda á Íslandi um vanrækslu jókst um 20% frá mars 2020 til mars 2021, tilkynningar um ofbeldi um 23%, áhættuhegðun barna um 3% og gruns um að líf og heilsa ófæddra barna væri í hættu um 68%.

Börn eru sá samfélagshópur sem hve viðkæmastur er fyrir þeim áföllum og átökum sem dynja á þjóðum og samfélögum og líða mest til skemmri og lengri tíma. Covid–19 faraldurinn hefur reynst börnum og fjölskyldum þeirra erfiður, ekki síst vegna aukins atvinnuleysis og skorts á þjónustu sem lá niðri meðan á farandrinum stóð, s.s. lokun skóla. Þeir hópar barna sem hafa orðið verst úti eru börn á flótta, börn einstæðra foreldra og börn sem alast upp í barnmörgum fjölskyldum, börn í lágtekjufjölskyldum, börn úr þjóðernishópum sem eru í minnihluta, börn með fötlun og börn sem búa við ótryggar heimilisaðstæður eða ófullnægjandi húsnæðisaðtæður svo og börn sem búa á stofnunum.

Barnaheill – Save the Children í Evrópu leggja áherslu á mikilvægi þess að börn séu höfð með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar um hag þeirra og líf. Slíkt er sjaldnast gert. Engin stefna er á Íslandi varðandi þátttöku barna.

Hér má sjá þá hópa sem mest eiga á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun:

Nánar um skýrsluna má lesa hér