Í ár fer Haustsöfnun Barnaheilla fram dagana 25. ágúst til 5. september 2022

Armbönd Barnaheilla verða seld víðsvegar um landið og vefverslun Barnaheilla dagana 25. ágúst - 5. september. Söfnunin er fjáröflunarleið Barnaheilla til styrktar þróunarverkefni samtakanna í Síerra Leóne. Verkefnið leggur áherslu á vernd barna gegn ofbeldi. Þetta er í annað sinn sem Haustsöfnun Barnaheilla er haldin.

 Verkefni Barnaheilla í Síerra Leóne miðar að því að draga úr kynbundnu ofbeldi í skólum. Það er gert með því að styðja við og þróa barnaverndarkerfi með sérstaka áherslu á kynbundið og kynferðisofbeldi. Samtökin vinna að því að gera tilkynningaleiðir skýrari og aðgengilegri og fræða þorpshöfðingja, kennara, foreldra og annað fullorðið fólk um umskurð kvenna, barnahjónabönd og þunganir unglingsstúlkna. Barnaheill vinna að þarfagreiningu ásamt börnum, foreldrum, kennurum og samfélaginu öllu þar sem rýnt er í hvar kynbundið ójafnrétti liggur í skólakerfinu.

Auk þess fá stúlkur og drengir margvíslega fræðslu um ofbeldi, þar á meðal um réttindi sín. Foreldrar og kennarar fá þjálfun í jákvæðum uppeldisaðferðum ásamt margvíslegri annarri fræðslu. Barnaheill vinna með öllu samfélaginu að því að draga úr kynbundnu ofbeldi í skólum og rödd barnanna sjálfra skipar mikilvægan sess í þeirri vinnu. Fyrsta skrefið til að útrýma ofbeldi er fræðsla um ofbeldi. 

Afhverju Síerra Leóne?

Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er gríðarlega stórt samfélagslegt vandamál í Síerra Leóne. Barnaverndarkerfi landsins er afar veikt, börn verða fyrir miklu ofbeldi og réttindi þeirra eru síbrotin. Börn upplifa ofbeldi í skóla, af hendi kennara, eldri nemenda auk annars starfsfólks skóla. Níu af hverjum tíu nemendum hafa upplifað einhverja tegund líkamlegs ofbeldis í skólum og tvær af hverjum þremur stúlkum hafa orðið þar fyrir kynferðisofbeldi.

Þar af hefur 18% stúlkna verið nauðgað, oft „í skiptum“ fyrir betri einkunnir. Þá eru 86% stúlkna í landinu umskornar. Stúlkum sem er nauðgað eru gerðar brottrækar úr samfélaginu, sérstaklega ef þær verða þungaðar. Oft eru stúlkurnar sendar til nauðgarans en 36% stúlkubarna eru giftar fyrir 18 ára aldur og er staða þeirra ein sú versta sem þekkist í heiminum. Börn sem koma undir við nauðgun eru litin hornauga og eiga oft erfitt uppdráttar.