10 milljónir barna flúðu heimili sín árið 2023

Meira en 10 milljón börn neyddust til að flýja heimili sín á síðasta ári vegna átaka eða náttúruhamfara, samkvæmt nýrri greiningu Barnaheilla – Save the Children. Fjöldi barna á flótta hefur aldrei verið meiri, en um 50 milljón börn eru nú á vergangi. Sá fjöldi hefur meira en tvöfaldast frá árinu 2010.

Að meðaltali lögðust 29.000 börn á flótta á hverjum degi í fyrra og eru á flótta í sínu eigin landi eða hafa flúið til annars lands. Barnaheill – Save the Children skoðuðu fólksflótta í samvinnu við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og leiddu niðurstöður í ljós að flest börn sem neyddust til að flýja heimili sín væru frá Súdan. Þar lögðust 4,1 milljón börn á flótta vegna átaka. Næstu komu börn frá Sómalíu en 1,6 milljón börn flúðu heimili sín vegna flóða og átaka á síðasta ári. Á Gaza svæðinu neyddust 890.000 börn að yfirgefa heimili sín frá 7. október til 21. desember 2023, en sú tala hefur hækkað á nýju ári.

Börn eru um 40% fólks á flótta í heiminum. Það er sláandi staðreynd því ekkert barn á að þurfa að upplifa óöryggið, eyðilegginguna og ofbeldið sem börn á flótta búa við alla daga,” segir Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.

Flóttabörn hafa ekki sama aðgengi að grunnþjónustu og önnur börn. Mörg þeirra eru utan skóla, eru án matar og drykkjarvatns, með lítinn eða engan aðgang að heilbrigðisþjónustu og eru útsettari fyrir ofbeldi en önnur börn. Erfiðar aðstæður barna geta þvingað þau í hættulegar athafnir, eins og glæpi, barnaþrælkun, barnahjónabönd og að ganga til liðs við vígahópa.

Barnaheill - Save the Children styðja við börn á flótta um allan heim. Við erum ávallt meðal fyrstu viðbragðsaðila þegar til átaka og náttúruhamfara koma. Við vinnum á vettvangi og færum börnum og fjölskyldum þeirra nauðsynlegar vistir sem þau þurfa til að lifa af, eins og mat, vatn og hlý föt. Við leggjum áherslu á að börn finni fyrir öryggi og vernd á erfiðum tímum og víða um heim höfum við komið upp barnvænum svæðum þar sem börn geta leitað í öryggi og skjól.

Þú getur stutt við börn á flótta með því að styðja við neyðarsöfnun Barnaheilla.