3.000 börn innikróuð í hersetnum flóttamannabúðum

Áætlað er að 3.000 börn sitji föst á nýlega hersetnum svæðum í Sýrlandi þar sem matarbirgðir og lyf eru að klárast. Hjálparsamtökin Jafra sem vinna á svæðinu segja að þrjú ungmenni hafi verið skotin til bana þegar þau reyndu að flýja. Sprengi- og loftárásir dynja á svæðinu og hafa lokað eina veginum sem enn er nothæfur.

Áætlað er að 3.000 börn sitji föst á nýlega hersetnum svæðum í Sýrlandi þar sem matarbirgðir og lyf eru að klárast.  

Algjört umsátur hefur verið um palestínsku flóttamannabúðirnar í Khan Ehsieh skammt frá Damaskus síðustu daga. Um það bil 3.000 börn eru innikróuð í búðunum og hvorki matarbirgðum né lyfjum leyft að komast inn á svæðið. Hjálparsamtökin Jafra sem vinna á svæðinu segja að þrjú ungmenni hafi verið skotin til bana þegar þau reyndu að flýja. Sprengi- og loftárásir dynja á svæðinu og hafa lokað eina veginum sem enn er nothæfur.

Sonia Khush, yfirmaður Sýrlandsverkefnis Barnaheilla – Save the Children segir að þrátt fyrir samþykkt vopnahlé í landinu búi fólk við skelfilegan og stöðugan ótta um sprengju- og loftárásir; „Íbúar í Khan Eshieh segja að lyf séu að mestu uppurin, eldsneyti og hveiti hafi næstum klárast og matarverð hafi tvöfaldast síðustu daga. Þeir búast við að ástandið versni á næstu dögum. Það verður að opna veginn og hleypa mannúðarsamtökum inn svo það sé hægt að koma nauðsynlegri hjálp til fólksins.“

Áætlað er að 12.000 manns búi í flóttamannabúðunum, þar af fjórðungur börn. Þær hafa að hluta verið undir umsátri síðustu þrjú ár og allir helstu vegir frá búðunum til Damaskus hafa verið lokaðir frá árinu 2013. Eftirlitsstöðvar hersins eru í kringum búðirnar til að varna fólki inn- og útgöngu. Almennir borgarar gátu notað einn veg – sem þekktur er undir nafninu „Dauðavegurinn“ vegna áhættunnar sem þeir tóku með því að ferðast um hann - til að ná í mat og aðrar nauðsynjar. Á síðstu vikum hafa umsátursaðilar bannað að lyf komist inn í búðirnar.

Þrátt fyrir samkomulag frá því í febrúar um að auka aðgengi mannúðarsamtaka til hernumdra svæða í Sýrlandi, eru enn hundruðir þúsunda fjölskyldna án aðstoðar. Aðeins 17% af þeim meira en 4,5 milljónum manna sem eru lokuð á hernumdum og afskekktum svæðum hafa fengið aðstoð og bílalest Sameinuðu þjóðanna sem flytur birgðir til þessara svæða er sífellt neitað um aðgang. Að minnsta kosti sex hernumin svæði hafa enn ekki fengið nokkra hjálp.

Söfnunarsími Barnaheilla - Save the Children á Íslandi til aðstoðar við sýrlenska flóttamenn er 940 1900 fyrir 1.000 krónur.