600 börn hafa drukknað í Miðjarðarhafi 2016

Að minnsta kosti 600 flóttabörn hafa látist á þessu ári við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið í leit a betra lífi í Evrópu. Barnaheill – Save the Children hafa tekið saman gögn sem sýna að tvö börn hafa að meðaltali látist eða horfið á hverjum degi frá upphafi árs til loka septembermánaðar.

Vos Hesta að sto¨rfumAð minnsta kosti 600 flóttabörn hafa látist á þessu ári við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið í leit a betra lífi í Evrópu. Barnaheill – Save the Children hafa tekið saman gögn sem sýna að tvö börn hafa að meðaltali látist eða horfið á hverjum degi frá upphafi árs til loka septembermánaðar.

Tölurnar eru birtar í tilefni af því að í dag eru þrjú ár liðin frá því að rúmlega 300 flóttamenn og hælisleitendur létust í sjóslysi við strendur ítölsku eyjarinnar Lampedusa.

Meira en 3.500 manns hafa látist í Miðjarðarhafinu það sem af er árinu, næstum 600 fleiri en á sama tímabili á síðasta ári. Rúmlega 20.600 flóttabörn hafa komið til Ítalíu frá upphafi þessa árs, af þeim eru 18.400 ein á ferð.

„Það er óásættanlegt að tvö börn látist eða hverfi á hverjum einasta degi í Miðjarðarhafi. Alþjóðasamfélagið getur ekki haldið áfram að líta framhjá þeim hörmungum sem þar eiga sér stað. Við berum öll ábyrgð á því að vernda börn, hvort sem það er hér á Íslandi eða annars staðar þar sem þau eru á flótta undan ömurlegum aðstæðum,” segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

„Í dag minnumst við 368 flóttamanna sem týndu lífi sínu í tilraun til að komast í öruggt skjól í Evrópu. Fyrir þremur árum lofuðu evrópuleiðtogar því að aldrei aftur myndi þetta gerast þegar myndir af skipsflakinu og líkkistum voru birtar í fjölmiðlum sem vöktu heimsathygli. En síðan þá hafa meira en 10.400 menn, konur og börn týnd lífi eða horfið við að reyna að komast sjóleiðina til Evrópu,” segir Kevin Watkins, framkvæmdastjóri Save the Children Í Bretlandi.

Barnaheill – Save the Children hafa unnið að hjálparstarfi við strendur Ítalíu í rúmlega átta ár, þar sem áhersla hefur verið lögð á að hjálpa börnum sem eru ein á ferð að fá þá hjálp sem þau þurfa. Í byrjun september tóku samtökin í notkun björgunarskipið Vos Hestia sem gert er út frá Sikiley og er ætlað að bjarga flóttafólki og hælisleitendum í neyð á Miðjarðarhafi. Skipið hefur nú þegar bjargað meira en 600 manns í neyð, þar af 85 börnum sem sum eru yngri en fimm ára að aldri.

Söfnunarsími Barnaheilla fyrir sýrlensk börn er 904-1900 fyrir 1.000 krónur.