Alþjóðadagur stúlkubarna er í dag

Myndin er af Munni, 16 ára stúlku sem býr í fátækrahverfi í Patna, Indlandi ásamt foreldrum sínum, f…
Myndin er af Munni, 16 ára stúlku sem býr í fátækrahverfi í Patna, Indlandi ásamt foreldrum sínum, fimm bræðrum og tveimur systrum. Fjölskyldan tilheyrir hinum stéttlausu á Indlandi. Þarna er mjög algengt að gifta stúlkur á unga aldri og þær ganga ekki í skóla. Munni hefur gegnið til liðs við samfélagshóp Barnaheilla – Save the Children og hefur mikinn áhuga á námi og menntun. Fyrir fjórum árum setti hún á stofn læsishóp til að hjálpa ungum stúlkum til að læra að lesa. Munni er lengst t.v. á myndinni að kenna tveimur stúlkum að lesa.

 Í dag, 11. október, er Alþjóðadagur stúlkubarna. Barnaheill – Save the Children hafa helgað daginn baráttunni gegn barnahjónaböndum. Í nýrri skýrslu samtakanna, Working Together to End Child Marriage, er fjallað um vandann og lausnir á honum.

Þriðju hverju sekúndu árið um kring er stúlka undir 18 ára aldri gift, oftast sér eldri karli. Ef áfram heldur sem horfir verða 134 milljónir stúlkna giftar á árabilinu 2018 til 2030. Árið 2030 eitt og sér munu tíu milljónir stúlkna giftast og ríflega tvær milljónir þeirra munu giftast áður en þær hafa náð 15 ára aldri. Verði ekkert að gert munu barnahjónabönd rýra lífsgæði milljóna stúlkna, hefta möguleika þeirra til menntunar og á að lifa til fulls. Þær eru líklegri til að deyja af orsökum sem hægt er að fyrirbyggja.

Hafi stúlkur frelsi til að njóta bernskunnar, mennta sig og njóta verndar hefur það afar jákvæð áhrif á lífshlaup þeirra. Ef hjónabandi og barneignum stúlkna er frestað fram yfir 18 ára aldur eru meiri líkur á að þær haldi áfram skólagöngu og ljúki menntun. Í því felst mikil valdefling og stúlkurnar eru líklegri til að vera virkar í samfélaginu, verða efnahagslega sjálfstæðar og leggja sitt af mörkum til efnahagslífsins.

Stjórnvöld í þeim löndum þar sem barnabrúðkaup eru hvað algengust verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að þróa og virkja aðgerðaáætlanir á öllum sviðum til að stöðva vandann. Það felur í sér skipulag aðgerða þvert á ráðuneyti og meðal hagsmunaaðila svo hægt sé að stilla saman strengi og ná árangri.

Menntun stúlkna er lykilatriði til að ná árangri. Samkvæmt nýrri greiningu Barnaheilla – Save the Children mætti afstýra 51 milljón barnahjónabanda til ársins 2030 með því að tryggja stúlkum grunnmenntun upp að 16 ára aldri. En til þess að það geti orðið þarf að leggja mun ríkari áherslu á að uppræta kynjaójafnrétti og aðrar undirliggjandi orsakir fyrir brottfalli stúlkna úr skóla.

Helle Thorning-Schmidt, framkvæmdastjóri Save the Children International, hefur sagt að þótt menntun ein og sér dugi ekki til að koma í veg fyrir barnahjónabönd sé hún mikilvægur liður í því að stöðva þessa ofbeldisfullu hefð.

„Þegar saman fer fátækt og kynjaójafnrétti komast fjölskyldur að þeirri niðurstöðu að dætrum þeirra sé betur borgið með því að gerast eiginkonur og mæður heldur en að mennta sig,“ sagði Helle.

„Þegar stúlkur eru giftar er ekki brotið á rétti þeirra í það eina skipti heldur eru afleiðingarnar til lífstíðar. Þessar stúlkur eru líklegri til að verða fyrir misnotkun, líklegri til að verða mæður áður en þær eru tilbúnar til þess bæði líkamlega og tilfinningalega og börn þeirra eru líklegri til að deyja fyrir fimm ára aldur.“

Áfram heldur Helle. „Við höfum séð að samþætting menntunar og valdeflingar stúlkna hefur verið árangursrík leið til að draga úr tíðni barnahjónabanda. Þar hefur fjárhagsaðstoð við foreldra gefið þeim færi á að láta dætur sínar ganga í skóla í stað þess að láta þær vinna á ökrunum til að auka tekjur fjölskyldunnar.“