Covid-19: Að ári liðnu

Nú er eitt ár liðið síðan að Covid-19 heimsfaraldurinn fór að hafa áhrif á líf barna út um allan heim. Heil kynslóð barna hefur orðið fyrir áhrifum heimsfaraldursins og hafa börn þurft að aðlaga líf sitt að nýjum takmörkunum sem hafa m.a. haft áhrif á skólagöngu þeirra, efnahag fjölskyldna þeirra, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og mörg börn hafa misst tengsl við fjölskyldu og vini. Sálfræðilegar afleiðingar heimsfaraldursins hafa einnig tekið sinn toll af heilsu barna, en að alast upp í heimsfaraldri hefur valdið kvíða og þunglyndi hjá mörgum börnum.

Milljónum barna út um allan heim hefur verið ýtt út í fátækt, með miklu fæðuóöryggi og óvissu um hvenær þau fái næstu máltíð. Í mörgum löndum hafa skólar verið lokaðir í heilt ár sem hefur skert aðgengi milljóna barna að menntun en samanlagt hafa börn út um allan heim misst 112 milljarða daga úr skóla frá því að faraldurinn hófst. Menntun barna og fæðuöryggi er eitt af meginstoðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem öll börn í heiminum eiga rétt á.

Alþjóðasamtökin Barnaheill – Save the Children hafa unnið í fremstu víglínu við það að aðstoða börn í heimsfaraldri til þess að minnka þann skaða sem börn hafa orðið fyrir vegna Covid-19. Á síðastliðnu ári hafa samtökin aðstoðað 29,5 milljón börn og fjölskyldur þeirra í 88 löndum.

Hibo, 17 ára frá Sómalíu, er ein af fjölmörgum börnum sem alþjóðasamtök Barnaheilla - Save the Children hafa aðstoðað. Foreldrar hennar samþykktu bónorð frá mun eldri manni í kjölfar lokana skóla. Hibo var virk í barnaréttarsamtökum, studdum af alþjóðasamtökum Barnaheilla - Save the Children, og tókst naumlega að komast undan því að vera gift í burtu.

Hibo hefur ekki getað sótt skóla síðan í mars á síðasta ári og hefur ekki haft tök á því að stunda fjarnám. Hún hefur þó ekki setið aðgerðarlaus heima og hefur nýtt tímann vel til að fara yfir gamalt kennsluefni frá kennslustundunum áður en heimsfaraldur skall á, til að halda lestri og annarri kunnáttu við. Foreldrar Hibo töldu lokanir skólans vera góðan tíma til þess að gifta hana. Sjálf vissi Hibo að þetta væri rangt og vildi ákveða framtíð sína sjálf. Hún fékk aðstoð frá skólanum sínum til þess að snúa foreldrum sínum frá ákvörðuninni um hjónaband.

Barnahjónabönd hafa aukist gífurlega í kjölfar Covid-19. Um 12 millj­ón­ir stúlkna undir 18 ára eru á hverju ári þvingaðar í hjóna­band og áætla má að vegna Covid-19 eigi rúm­lega 2,5 millj­ón­ir stúlkna til viðbótar á hættu á því að vera þvingaðar í hjóna­band fyr­ir árið 2025. Lokanir skóla eru helsti áhrifavaldur þess að stúlkur séu giftar ungar og er því mikilvægt að skólar opni sem allra fyrst svo að börn geti haldið áfram sinni menntun.

 

 

 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill eru leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif.
Við stöndum vaktina í þágu barna og gætum réttinda þeirra.