Alvarlegasta hungurkreppa 21. aldarinnar stendur yfir

Nú vofir yfir alvarlegasta hungursneyð 21. aldarinnar. 174 milljón manna í 58 löndum búa við matarskort, sem er 20 milljónum fleiri en árið í fyrra. 150 milljón manna eiga á hættu að verða ýtt út í fátækt á þessu ári, þá helst vegna afleiðinga heimsfaraldurs, átaka og loftslagsbreytinga. 16,8 milljón börn standa frammi fyrir mikilli hungursneyð, þar af 5,7 milljón börn sem búa við alvarlega vannæringu og er vart hugað líf.

Í fyrsta sinn í áratugi hefur hungur og vannæring barna aukist og eiga fjölskyldur víða um heim í erfiðleikum með að veita börnum sínum næringaríkan mat. Áhrif og afleiðingar heimsfaraldurs, átaka og loftslagsbreytinga hafa ýtt undir aukið hungur og vannæringu á mettíma. Án aðgerða gætum við horft upp á milljónir barna svelta til dauða og snúið þannig við áratuga framförum.

Barnaheill hafa veitt neyðaraðstoð til Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó undanfarna mánuði en landið hefur hæsta fjölda barna undir fimm ára aldri  sem búa við alvarlegan matarskort í heiminum. Einnig starfa Barnaheill í Sýrlandi þar sem samtökin leggja áherslu á barnavernd, menntun og heilsu barna, þar á meðal að sporna við hungri. En átök og heimsfaraldur hafa sett stórt strik í reikninginn og jókst hungur barna í Sýrlandi um 56% á milli ára 2020 og 2021. Sama má segja um Jemen þar sem Barnaheill vinna einnig að mannúðaraðstoð, en þar jókst hungur um 10% á milli ára. Í Afganistan þjáist helmingur barna undir fimm ára aldri, eða um 3,1 milljón börn, af miklu hungri.

Hasna, 23 ára, ung móðir í Sýrlandi hefur þurft að flýja heimili sitt í norð-austur Sýrlandi vegna átaka. Hún og Majad, 18 mánaða sonur hennar eru bæði illa á sig komin vegna vannæringar.

Stundum þegar ég gef syni mínum að drekka brjóstamjólk þá finn ég að ég er ekki með nóg fyrir hann. Svo ég gef honum hrísgrjón til að fylla hann betur. Það er ekkert annað sem ég get gefið honum að borða, hvorki kjöt né ávexti. Heilsu hans fer versnandi. Ég fór með hann á heilsugæslu þar sem þau sögðu mér að hann væri mjög vannærður. Það er ekkert sem ég get gert. Ég fór tilbaka í flóttamannabúðirnar og grét, segir Hasna.

Á átakasvæðum eru börn alltaf berskjaldaðasti hópurinn. Án næringaríkrar fæðu geta börn ekki þroskast og dafnað eins þau þurfa. Vannæring getur valdið óafturkræfum skaða á líkamlegum og vitrænum þroska barnsins.

Inger Ashing, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children segir nauðsynlegt að við bregðumst við og komum í veg fyrir að börn deyi úr hungri.

Covid-19, átök, vonskuveður, flóð og aðrar náttúruhamfarir hafa haft alvarlegar afleiðingar í för með sér á undanförnum mánuðum fyrir hungur í heiminum. Matvælaverð hefur hækkað sem hefur haft áhrif á lífsbjargir fjölskyldna. En það er ekki skortur á mat í heiminum. Það er til nægur matur fyrir hvert barn og fullorðinn einstakling en honum er skipt ójafnt. Við höfum tækifæri til þess að bjarga öllum þessum börnum frá vannæringu og við verðum að bregðast við strax.

Til þess að stöðva þessa neikvæðu þróun sem hefur átt sér stað í heiminum á undanförnum mánuðum hafa alþjóðsamtök Barnaheilla – Save the Children sett af stað stærstu fjáröfun í rúmlega 100 ára sögu samtakanna þar sem markmiðið er að safna 130 milljónum bandaríkjadala á næstu mánuðum til þess að sporna við hungri í heiminum.

Alþjóðasamtökin segja að nauðsynlegt sé að ríki heims og mannúðarsamtök bregðist skjótt við hungursneyðinni sem ríkir í heiminum en miklu fleiri börn eru að deyja nú en áður úr sjúkdómum á borð við lungnabólgu, niðurgang og malaríu, sem eru beinar afleiðingar af matvælaóöryggi.

Teymin okkar á vettvangi eru vitni þess að fjöldi vannærða barna aukist á hverjum degi. Ekkert barn ætti nokkurn tímann að verða svangt. Við getum ekki leyft því að gerast aftur eins og árið 2011 þegar 260.000 dóu vegna hungurs í Afríku þegar mikið þurrkatímabil stóð yfir. Það eru engin bóluefni til fyrir hungur en það er til lausn. Ríkisstjórnir verða að taka sig til, standa við skuldbindingar sínar og leggja sitt af mörkum áður en milljónir barna og fjölskyldur þeirra deyja úr hungri, segir Inger Ashing.

Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children hvetja stjórnvöld út um allan heim til þess að fjármagna að fullu viðbragðsáætlanir vegna mannúðarmála og styðja við áætlanir um heilbrigðisþjónustu fyrir börn, þar með talið meðferðum við vannæringu. Samtökin hvetja jafnframt stjórnvöld víðsvegar um heim að beita sér fyrir auknu aðgengi að mannúð að öllu tagi, svo að öll börn geti fengið þann stuðning sem þau þurfa.

 

Hvergi í heiminum búa börn við eins mikið hungur og í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Roland, 20 mánaða, er alvarlega haldinn vegna vannæringar. Hún er komin undir læknishendur og fær meðferð við vannæringu.

Hungur hefur aukist um 56% í Sýrlandi síðan 2019.

 

Kasadi, 13 mánaða frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, þjáist af mikilli vannæringu og lungnabólgu. Hér er hún með móður sinni, Kapigna, 19 ára, á heilsugæslu studdri af Barnaheillum - Save the Children.