Átökin í Jemen hafa áhrif á geðheilsu barna

Átökin í Jemen hafa staðið yfir í fimm ár og hafa haft verulega slæm áhrif á andlega heilsu barna í landinu. Ný rannsókn sem framkvæmd var af Save the Children sýndi fram á að mikil geðheilbrigðiskreppa ríkir í landinu.

Rannsóknin er stærst sinnar tegundar í Jemen síðan að átökin hófust og tóku alls 1,250 börn þátt á aldrinum 13 – 17 ára, ásamt fjölskyldum þeirra. Niðurstöður sýndu að meira en helmingur barna glímir við andleg veikindi. Um það bil 20% barna sem tóku þátt í rannsókninni sögðust alltaf vera hrædd og 56% töldu sig ekki vera örugg þegar þau væru ein á gangi. 70% barna sögðust eiga erfitt með að sofa. Niðurstöður sýndu einnig fram á að:

38% barna glíma við auknar martraðir og 8% greindu frá því að þau pissi undir í auknum mæli eftir að átökin hófust. 16% barna segjast aldrei geta slakað á og 36% barna sögðust aldrei líða eins og þau gætu talað við fagaðila ef þau eru sorgmædd. Mörg börn sem rætt var við sögðu frá mögulegum einkennum kvíða, eins og auknum hjartslætti, magaverkjum, sveittum lófum og skjálfta þegar þau eru hrædd.

 

Eyad* er 14 ára frá Saada og hefur andleg líðan hans breyst eftir að átök hófust. Hann missti meðal annars annað augað í loftáras og í kjölfarið missti hann lífsviljan. ,,Þegar loftárásin átti sér stað þá hlupum við út, ég og fjölskyldan mín. Við hlupum til þess að halda lífi. Eftir árásina varð ég latur. Ég vildi ekki læra og ég var alltaf þreyttur. Mér leið eins og ég væri dauður. Ég missti allan vilja og von. Þegar ég var yngri, áður en loftárásirnar hófust, þá sáum við oft flugvélar og þá hlupu öll börnin út og fóru að syngja ,,Fljúgandi flugvél, fljúgandi flugvél!". En núna eftir að loftárásirnar hófust, þá erum við mjög hrædd við það."

Börn borga hátt verð fyrir átökin í Jemen en á síðastliðnum tveimur árum hafa að minnsta kosti 2,047 börn verið drepin eða limlest. 10,3 milljón barna búa við matvælaóöryggi og þar af eru 2,1 milljón barna alvarlega vannærð. 2 milljónir barna eru á flótta og 1,2 milljónir barna hafa veikst af kóleru, barnaveiki eða beinbrunasótt á síðustu þremur árum.

Ef ekki er brugðist við og reynt að stöðva átökin mun heil kynslóð þjást af langtímaárhifum átakanna. Börn þurfa að búa við öryggi, þar sem þau geta slakað á og þurfa ekki að lifa í stöðugum ótta. Andleg veikindi á borð við ótta og kvíða getur haft langvarandi áhrif á heilsufar þeirra, m.a. gæti gert þau viðkvæm fyrir langvarandi sjúkdómum eins og hjartasjúkdómum.

Inger Ashing, forstjóri Save the Children International, hvetur alla aðila í átökunum að vinna að pólitískri og friðsamlegri lausn. ,,Börnin í Jemen eru rosalega hrædd. Þau eru hrædd við það að leika úti og þeim finnst ógnvekjandi að heyra í flugvél eða þegar þau heyra í sprengjum. Áhrif átakanna munu hafa varanleg andleg áhrif á börnin. Við getum ekki leyft þessu stríði að halda áfram."

Samkvæmt nýjustu gögnum þá eru aðeins tveir barnageðlæknar í öllu landinu. Börn eiga rétt á að finna fyrir öryggi og góðri andlegri líðan. Til að koma í veg fyrir yfirvofandi geðheilbriðiskreppu í Jemen, þá þarf fjármagn til þess að veita sálfræðistuðning og geðhjálp að mati Save the Children.