Barnaheill hvetja stjórnvöld til að falla frá fyrirhugaðri skerðingu á fæðingarorlofi

Barnaheill, Save the Children, á Íslandi lýsa yfir áhyggjum vegna frumvarps til laga um skerðingu á hámarksgreiðslum úr fæðingarorlofssjóði. Barnaheill telja að með boðaðri breytingu sé ekki einungis verið að skerða réttindi foreldra, heldur að vegið sé að þeim rétti barnsins að fá að njóta jafnt umönnunar móður sem og föður á fyrsta ári ævi þess.

Barnaheill, Save the Children, á Íslandi lýsa yfir áhyggjum vegna frumvarps til laga um skerðingu á hámarksgreiðslum úr fæðingarorlofssjóði. Barnaheill telja að með boðaðri breytingu sé ekki einungis verið að skerða réttindi foreldra, heldur að vegið sé að þeim rétti barnsins að fá að njóta jafnt umönnunar móður sem og föður á fyrsta ári ævi þess.

Það fyrirkomulag fæðingarorlofs sem hefur verið við lýði á Íslandi undanfarin ár hefur markað tímamót hvað varðar réttindi barna og hefur m.a. stuðlað að aukinni þátttöku feðra í uppeldi barna sinna á fyrstu mánuðum ævi þeirra. Það hefur einnig gert foreldrum kleift að verja lengri tíma með barninu heima við og barnið því farið seinna í dagvistun utan heimilis.

 

Þau tilfinningatengsl sem myndast milli barns og foreldra þess á fyrsta ári barnsins, eru grunnurinn að öðrum tilfinninga- og félagstenglsum síðar á ævinni. Barn sem getur myndað góð og heilbrigð tengsl er með sterkari sjálfsmynd og mun ganga betur í leik og starfi. Því er afar mikilvægt fyrir þroska barnsins að það fái að njóta sem mestra samvista við foreldra sína á fyrsta æviári þess.

 

Að mati Barnaheilla fela fyrirhugaðar breytingar í sér þá hættu að feður hafi ekki tök á að nýta sér fæðingarlofsrétttinn vegna skerðingu launa. Það getur leitt til þess að barnið þurfi að fara fyrr í dagvistun utan heimilis en annars hefði verið raunin

 

Breytingarnar valda því ekki eingöngu tekjuskerðingu heimila, heldur hafa mikil áhrif  á velferð barna og eru, að mati Barnaheilla, skerðing á réttindum þeirra. Barnaheill minna á að samkvæmt 3. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn að byggja á því sem börnum er fyrir bestu.

 

Barnaheill hvetja stjórnvöld til að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi þegar kemur að málefnum sem snerta þau og hvetja ríkisstjórnina til að falla frá fyrirhugaðri skerðingu á fæðingarorlofi foreldra.