Barnaheill í Suður-Kivu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó

Barnaheill hófu mannúðaraðstoð í Suður-Kivu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í nóvember síðastliðnum. Verkefnið miðar að því að vernda börn gegn ofbeldi, misnotkun, útskúfun og vanrækslu, auk þess að vernda börn fyrir því að vera neydd til að ganga til liðs við vígahópa og styðja við þau börn sem hafa þegar verið neydd til þess. Verkefnið miðar að því að ná þessu fram meðal annars með því að styðja við svokölluð Barnvæn svæði.

Barnaheill - Save the Children reka barnvæn svæði víða um heim á átaka- og hamfarasvæðum. Þar fá börn athvarf þar sem þeim leyfist að leika sér við öruggar aðstæður og þau fá fræðslu og fá að taka þátt í valdeflingarverkefnum. Börn öðlast þar kunnáttu og þekkingu til að stuðla að vernd sinni og jafnaldra sinna, til dæmis með því að fá vitneskju um hvar hægt sé að nálgast stoðþjónustu við fórnarlömb ofbeldis, fá aðgang að gistifjölskyldum, sérhæfða sálfræðiþjónustu, læknisaðstoð og lögfræðiaðstoð.

Barnaheill fylgjast náið með framvindu verkefnisins. Reglubundnir stöðufundir eru haldnir með Save the Children í Kongó og þess sem myndir frá starfinu berast reglulega. Á meðfylgjandi myndum má sjá börn að leik í Barnvænu svæði sem stutt er af Barnaheillum í Suður-Kivu. Barnvæn svæði gefa börnum kost á að leika og læra í öruggu umhverfi.