Barnaheill – Save the Children hvetja til þess að vopnasala til Sádi-Araba verði stöðvuð þar til þeir hætta að brjóta alþjóðareglur

Kareema*, sem er sjö mánaða frá bænum Sada’a í Jemen, þjáist af alvarlegri vannæringu. Kareema og fa…
Kareema*, sem er sjö mánaða frá bænum Sada’a í Jemen, þjáist af alvarlegri vannæringu. Kareema og faðir hennar, Hassan*, komu á heilsugæslustöð, sem studd er af Barnaheillum – Save the Children, þar sem hún fékk ókeypis meðferð.

Barnaheill – Save the Children lýsa yfir miklum áhyggjum yfir ástandinu í Jemen og hvetja til þess að alþjóðasamfélagið og ríkisstjórnir beiti sér fyrir því að vopnasala til Sádi-Arabíu verði stöðvuð. Sádi-Arabar styðja aðra af tveimur stríðandi fylkingum í Jemen og hafa ítrekað gert árásir á almenna borgara og innviði í landinu. Þeir hafa brotið alþjóðalög og -reglur sem gilda eiga í stríðsástandi og alþjóðasamskiptum.

Í liðinni viku er áætlað að 700 börn hafi látist af völdum hungurs í Jemen og talið að 1.500 börn hafi smitast af kóleru. Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna hafa meira en sex þúsund börn verið drepin eða limlest í loftárásum af hálfu þeirra aðila sem studdir eru af Sádum. Mjög líklegt er talið að hungursneyð af manna völdum geti átt sér stað, sú versta í 100 ár að mati SÞ.

Alþjóðasamfélagið verður að sýna gott fordæmi; þegar alþjóðalög og -reglur eru ekki virtar verður það ávallt að hafa í för með sér afleiðingar. Það væru skýr skilaboð að stöðva alla vopnasölu til Sádi-Araba þar til öruggt væri að vopnin yrðu ekki notuð til að beita börn í Jemen grófu ofbeldi. Ríkisstjórnir og alþjóðasamfélagið verða að gera mun betur til að vernda börn og fjölskyldur þeirra og taka afdráttarlausa forystu í að binda enda á þessar hörmungar. Reglur gilda alls staðar, jafnvel í stríði. Þjóðir heims geta ekki lengur látið sem ekkert sé. Það eru börn sem líða fyrir það.

Drengur frá Jemen

 

Þann 9. ágúst síðast liðinn var Khaled* á ferð í skólabíl í bænum Dahyan í Jemen. Sprengju var varpað á skólabílinn úr flugvél á vegum Sádi-Araba sem styðja eina af stríðandi fylkingum í landinu. Um 50 manns létust í árásinni, þar af 40 börn, flest yngri en tíu ára. Khaled komst lífs af en særðist talsvert. Hann er enn í áfalli og glímir við mikla sorg vegna dauða vina sinna.

 

 

 

Barn frá Jemen

 

Nusair*, 11 mánaða, liggur hér í sjúkrahúsbörum. Hann býr í borginni Hodeida með móður sinni sem er 32ja ára og þremur systkinum. Hann fær meðhöndlun á Al-Rabassah heilsugæslustöðinni vegna alvarlegrar vannæringar. Teymi Barnaheilla – Save the Children aðstoðar og greiðir ferðakostnað fyrir Nusair á sjúkrahús. Barnaheill – Save the Children fylgja honum eftir þar til hann nær sér.

 

*Nöfnum hefur verið breytt.