Barnaheill senda hvatningu til fjölmiðla vegna umfjöllunar um börn

Barnaheill – Save the Children á Íslandi fá títt ábendingar um og skoða umfjöllun fjölmiðla um mál sem tengjast börnum með einum eða öðrum hætti. Samtökin verða því miður vör við að þörf sé á að árétta mikilvægi þess að um börn sé fjallað á þann hátt að ekki brjóti gegn réttindum þeirra, m.a. til friðhelgi einkalífs.

Barnaheill hafa sent almenna hvatningu til allra fjölmiðla um að kynna sér og vinna eftir Almennum viðmiðum um opinbera umfjöllun um börn sem gefin voru út fyrir nokkrum misserum af Barnaheillum, UNICEF á Íslandi, Umboðsmanni barna, Fjölmiðlanefnd, Heimili og skóla og SAFT.

Börn hafa rétt til að tjá sig um málefni sem varða þau og ber að árétta að þessum viðmiðum er ekki ætlað að takmarka tjáningarfrelsi barna á nokkurn hátt. Þeim er fyrst og fremst ætlað að stuðla að því að öryggi þeirra og velferð sé gætt í hvívetna þegar um þau er fjallað eða þegar börn taka sjálf þátt í almennri umfjöllun. Mikilvægt er að tryggja vandaða og uppbyggilega umfjöllun um málefni barna í fjölmiðlum, ásamt því að stuðla að þátttöku þeirra í samfélagsumræðu.

Viðmiðin er hér að finna.

Barnaheill telja óviðeigandi, og geta verið vanvirðandi fyrir börn sem fjallað er um í viðkvæmum málum í fjölmiðlum, að hægt sé að gera athugasemdir undir fréttum eða greinum á vefmiðlum. Samtökin óska þess og gera það að tillögu sinni að lokað verði fyrir athugasemdir við greinar sem fjalla um málefni barna eða fjölskyldna.