Barninu fyrir bestu?

Barnaheill - Save the Children á Íslandi sendu Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra opið bréf varðandi áfengisauglýsingar og netverslun með áfengi. Bréfið er svohljóðandi:

Kæra Áslaug Arna,

Barnaheill – Save the Children á Íslandi lýsa yfir miklum áhyggjum varðandi yfirlýsingu þína um að afnema bann við áfengisauglýsingum og frumvarpsdrög um að leyfa sölu á áfengi í vefverslunum hér á landi. Barnaheill hafa ítrekað sent umsagnir um sambærileg mál og um tilslakanir á lögum er varða aðgengi að áfengi.

Á Íslandi hefur náðst mikill árangur í forvarnastarfi gegn áfengis- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna og líta margar þjóðir til þess hvaða leiðir hafa verið farnar hér á landi til að stuðla að því. Mikill skaði yrði af ef þeim góða árangri yrði stefnt í voða.

Áfengisauglýsingar gefa oftar en ekki röng skilaboð um notkun á áfengi t.d. sýnir mynd af hamingjusömu fólki, sem nýtur áfengis án neikvæðra afleiðinga, ekki alla myndina. Rannsóknir benda til að áfengisauglýsingum er beint markvisst að börnum og ungmennum með þeim hætti að hvetja til neyslu og að þau byrji fyrr að drekka og drekki meira. Rannsóknir gefa einnig til kynna að áfengi er helsti áhættuþáttur sjúkdóma fyrir fólk á aldrinum 15 til 49 ára. Tölfræði frá aðildarríkjum ESB sýnir að áfengisneysla er að baki 1 af hverjum 7 dauðsföllum meðal karla og 1 af 13 dauðsföllum meðal kvenna.

Auglýsingar um áfengi eru í minna mæli hér á landi vegna laga sem um þær gilda og aðgengi að áfengi er auk þess takmarkað með einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Tilslökun í lagaumhverfi um áfengissölu leiðir óhjákvæmilega til aukinnar neyslu þess. Með vísan í allar fyrri umsagnir samtakanna um sambærileg mál er aukin áfengisneysla ekki börnum fyrir bestu. Tillögur um að heimila áfengisauglýsingar og netverslun með áfengi stríðir gegn 3. gr. Barnasáttmálans en þar kemur meðal annars fram:

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi skora á þig að falla frá áformum um þessar lagabreytingar með velferð barna og ungmenna í huga. Barnaheill telja að hagsmunir barna af vernd gegn áfengisneyslu og afleiðingum hennar eigi að ganga framar hagsmunum þeirra sem selja áfengi.

Samtökin hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi og vekja athygli á að allar ákvarðanir þarf að taka með það sem barni er fyrir bestu í forgrunni. Af því leiðir að meta þarf fyrirfram möguleg áhrif ákvarðana á líf barna og velja þá leið sem best samræmist hagsmunum og réttindum barna. Að mati Barnaheilla stríðir það gegn Barnasáttmálanum og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna að auka frelsi varðandi áfengissölu og -auglýsingar.

Ítarefni: