Blær brúar bilið milli heimshluta

Í september fóru tveir starfsmenn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Linda Hrönn Þórisdóttir leiðtogi innlendra verkefna og Margrét Júlía Rafnsdóttir verkefnisstjóri Vináttu, til Tallinn í Eistlandi. Tilgangurinn ferðarinnar var að kynna sér hvernig unnið er með Vináttu þar í landi og miðla þeirri reynslu og þekkingu sem fengist hefur við notkun á námsefninu hér á landi. Það eru samtökin MTÜ Lastekaitse Liit (Estonian Union for Child Welfare) sem halda utan um verkefnið í Eistlandi og er heiti verkefnisins þar Kiusamisest vabaks. Frá árinu 2010 hefur verið unnið með námsefnið í leikskólum þar í landi og nú eru um 80% leikskóla að vinna með Vináttu.

Barnaheill ráðstefna í Eistlandi.

 Linda og Margrét voru viðstaddar athöfn sem samtökin stóðu fyrir til að veita skólum viðurkenningu sem sem hafa unnið markvisst með Vináttu. Útbúin voru myndbönd fyrir hvern skóla og kom þar bersýnilega í ljós á hversu fjölbreyttan hátt er hægt að vinna með Vináttu í skólum. Spiluð var upptaka af ávarpi Mary krónprinsessu Danmerkur sem er stjórnarformaður Mary Fonden samtakanna sem þróað hafa Vináttu frá upphafi ásamt Red barnet, systursamtökum Barnaheilla í Danmörku. Í ávarpinu fjallaði Mary meðal annars um mikilvægi þess að skapa öruggt og heilnæmt umhverfi fyrir börn því í slíku umhverfi þrífast þau best. 

Leik- og grunnskólar sem vinna með Vináttu voru heimsóttir í ferðinni. Í leikskólanum var verið að kynna Blæ fyrir börnunum og var sett upp skemmtilegt leikrit sem greindi frá ferðum Blæs/Blævar frá Ástralíu til Eistlands. Í leikritinu voru hin fjögur gildi Vináttu (Virðing, Umhyggja, Umburðarlyndi og Hugrekki) kynnt til sögunnar og gefin skýr dæmi um í hverju þau felast og hversu miklu máli það getur skipt um líðan og velferð annarra að hafa þessi gildi að leiðarljósi í lífinu.

 

Þó ýmislegt í menningu Eistlands er frábrugðið því sem tíðkast hér á landi kom fljótt í ljós að þjóðirnar eiga gríðarlega margt sameiginlegt. Bæði löndin standa frammi fyrir sífellt nýjum áskorunum þegar kemur að samskiptum í barnahópum og mikill vilji er fyrir því að koma sem best á móts við þær með það til hliðsjónar að öll börn komi alltaf út úr aðstæðum með reisn. Að sýna hugrekki með því að bregðast við órétti sem aðrir eru beittir og að setja sjálfum sér mörk er meðal þess sem lagt er upp með í Vináttu. Stundum getur reynst erfitt að sýna hugrekki og á það við í ýmsum aðstæðum í Eistlandi þar sem bæði börn og fullorðnir óttast stundum afleiðingarnar ef slíkt hugrekki er sýnt. Því í grunninn þurfum við alltaf líka að tryggja eigið öryggi. Við slíkar aðstæður hefur verið hvatt til þess í Eistlandi að fara eftir á til viðkomandi aðila sem er órétti beittur, hughreysta og vera hvetjandi. Því þó allra best sé að grípa inn í neikvæðar aðstæður í þeirri viðleitni að breyta þeim þá geta aðstæður verið með þeim hætta að maður treystir sér ekki til þess en hlý orð geta líka dimmu í dagsljós breytt.

Það sýndi sig svo sannarlega að Blær brúar bilið. Þessi mjúki og vinalegi bangsi hefur aðstoðað við að brúa bilið milli skóla og heimila, milli leik- og grunnskóla og nú sýndi það sig svo ekki var um að villast að Blær brúar bilið milli heimshluta. Að eiga slíkt sameiningartákn sem hefur svo fallegan, einfaldan og skýran boðskap eru forréttindi sem Barnaheill leggja mikið upp úr að koma vel til skila og nú þegar hefur það skilað sér til um 65% leikskóla og 25% grunnskóla hér á landi.