Börn eru að þjást á Gaza-svæðinu

Ali Jadallah/Anadolu Agency via Getty Images
Ali Jadallah/Anadolu Agency via Getty Images

Barnaheill standa vaktina á Gaza-svæðinu og styðja við börn og ungmenni sem þjást vegna stríðsins sem þar er ríkjandi. Börn eru þeir einstaklingar sem líða alltaf mest í átökum og hörmungum og sögurnar sem nú berast eru hræðilegar. Að minnsta kosti 724 palestínsk börn hafa verið drepin á Gaza-svæðinu og þrjú á Vesturbakkanum auk þess sem 2.450 börn til viðbótar hafa særst. Ekki hefur verið staðfest hversu mörg ísraelsk börn hafa látið lífið eða eru særð en ljóst er að þau hafa einnig orðið fyrir hræðilegu ofbeldi. Fregnir hafa borist af því að börnum hafi verið rænt og þau tekin í gíslingu.

Ísraelski herinn hefur gefið út þá yfirlýsingu að allir íbúar Gaza, norðan Wadi Gaza, skuli flytja til suðurhluta Gaza áður en herinn taki undir sig landið. Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út þá yfirlýsingu að ómögulegt sé að rýma norðurhluta Gaza-svæðisins án þess að það hafi í för með sér alvarlegar afleiðingar og hafa beðið um að slík skipun verði afturkölluð, en um 1,1 milljón manns er á svæðinu.

Inger Ashing, framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children International hefur verið í sambandi við starfsmenn samtakanna á hernumda svæðinu á Gaza. Margir starfsmenn Barnaheilla hafa misst fjölskyldumeðlimi og heimili sín. „Það er skelfilegt hvernig brotið er á réttindum barna og atburðirnir á Gaza munu hafa hrikaleg langtímaáhrif á framtíð þeirra,“ segir Inger.

Starfsmenn Barnaheilla veita aðstoð á svæðinu og taka virkan þátt í skipulagningu á hjálpargögnum sem koma þarf fyrir á Gaza-svæðinu. Barnaheill í Egyptalandi eru í samstarfi við Rauða hálfmánann (ERC) við skipulagningu neyðarbirgða á svæðið og heilbrigðisteymi samtakanna skipuleggur læknisaðstoð. Starfsmenn Barnaheilla í Líbanon eru að yfirgefa landið en Ísraelsher hefur gert fjölda sprengiárása á suðurhluta landsins. Starfsmenn samtakanna vinna þó baki brotnu við að skipuleggja neyðaraðstoð samhliða því að tryggja eigið öryggi og fjölskyldna sinna.

„Það sem við erum að upplifa núna á Gaza er ólíkt öllu sem ég hef séð áður“, segir starfsmaður Barnaheilla – Save the Children á Gaza-svæðinu sem er staddur þar með þrjú börn sín, öll undir 10 ára aldri. Starfsmaðurinn sem um ræðir hefur mikla reynslu af því að skipuleggja og innleiða neyðarstarf í stórfelldum átökum.

Að sögn starfsmannsins er vatnsflöskum skammtað og maturinn er að klárast. Ekki er hægt að meðhöndla særða og sjúka og á kvöldin sitja börn í myrkrinu og vita ekki hvort þau muni lifa fram að sólarupprás. Heitasta ósk allra á svæðinu er að finna fyrir öryggi þegar þeir vakna á morgnanna með fjölskyldu og ástvinum. Það er engin leið út úr Gaza að sögn starfsmannsins, engan öruggan stað þar að finna og eru eftirfarandi skilaboð því miður lýsandi fyrir ástandið:

„Mér er þungt fyrir brjósti er ég skrifa þessi skilaboð frá Gaza, undir stanslausri og þrúgandi sprengjuárás sem hefur yfirtekið allt líf okkar og gert réttinn til lífs að stöðugri baráttu. Þegar ég skrifa þetta er ég að telja í mig kjark og reyna að sýna hugrekki, þó ég viti ekki hvort þessi skilaboð verði mín síðustu.“

Barnaheill – Save the Children vilja árétta að öll börn eiga sama rétt til verndar gegn hvers kyns ofbeldi og til að búa við öryggi. Það á við um börn hvar sem þau búa í heiminum.