Börn í leit að vernd á Íslandi

 Á Íslandi sækir árlega fjöldi barna um alþjóðlega vernd sem er af ýmsum ástæðum á flótta frá heimalandi sínu. Á ári hverju er fjölda þessara barna vísað frá af ýmsum ástæðum. Þau eru ekki talin uppfylla skilyrði og teljast ekki eiga lagalegan rétt á vernd á Íslandi. Ýmist eru börnin ein á ferð, það er fylgdarlaus eða í fylgd fjölskyldu. 

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa áhyggjur af börnum á flótta og sérstaklega þeim sem komast hingað til lands en er vísað í burtu. Í Barnasáttmálanum kemur fram sú grundvallarregla að allar ákvarðanir sem varða barn beri að taka með sjónarmiðið um það sem barni er fyrir bestu í forgrunni. Samkvæmt því þarf hver sá sem tekur ákvörðun um líf barns að meta áhrif ákvörðunarinnar á líf barnsins fyrirfram til að geta tekið rétta ákvörðun. Því þarf sá aðili að hafa komist að því að best sé fyrir barnið að vera vísað brott til annars lands ef það er niðurstaðan. Viðkomandi þarf jafnframt að geta rökstutt þá niðurstöðu fyrir viðkomandi barni eða aðstandendum þess. Ennfremur þarf barnið að hafa haft tækifæri til þess að tjá sig um aðstæður sínar, vilja og skoðanir áður en ákvörðun er tekin.


Íslenska ríkið er skuldbundið til að byggja allar ákvarðanir sem hafa áhrif á börn á þessum sjónarmiðum og ákvæðum Barnasáttmálans. Það er mikilvægt að allir þeir sem hafa með ákvarðanir um réttindi barna að gera muni þessar grundvallarreglur áður en þær eru teknar. Í almennu áliti nr. 14, um 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmálans sem Barnaréttarnefndin í Genf gaf út árið 2013 koma fram skýrar leiðbeiningar um notkun grundvallarreglunn- ar um að það besta fyrir barnið skuli ráða niðurstöðu máls og eru stjórnvöld hvött til að tileinka sér það sem þar stendur skrifað.


Barnaheill – Save the Children á Íslandi sendu í nóvember 2016 frá sér sameiginlega yfirlýsingu til stjórnvalda, ásamt Rauða krossinum, UNICEF á Íslandi og umboðsmanni barna, vegna barna sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi. Í henni var skorað á stjórnvöld að líta á málefni barna og barnafjölskyldna, sem leita alþjóðlegrar verndar eða sækja um dvalarleyfi af mannúðarástæðum, fyrst og fremst út frá réttindum barnanna. Sú áskorun er í fullu gildi og vonast Barnaheill til þess að ofangreind sjónarmið séu öllum sem málið varðar efst í huga. 

Þóra Jónsdóttir

Greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2017.