Að minnsta kosti 78 börn hafa látist af beinbrunasótt í Jemen

Heilbrigðisstarfsmenn á vegum Barnaheilla - Save the Children að störfum í flóttamannabúðum í Jemen
Heilbrigðisstarfsmenn á vegum Barnaheilla - Save the Children að störfum í flóttamannabúðum í Jemen

78 börn undir 16 ára aldri hafa látist af beinbrunasótt í Jemen en yfir 52,000 tilfelli hafa verið skráð í landinu. Beinbrunasótt er veirusjúkdómur sem smitast með moskítóflugum en Barnaheill – Save the Children telja að þetta gæti verið upphaf faraldurs.

Í lok árs 2019 voru samtals 192 dauðsföll af völdum beinbrunarsóttar í Jemen (þar af 78 börn) og ef ekki er gripið til ráðstafanna til þess að styðja við heilbrigðiskerfið og efla aðstöðu til þess að greina smit snemma er hætta á að tala dauðsfalla hækki verulega.

Smit hafa verið skráð í næstum öllum landshlutum í Jemen en meirihluti þeirra eða um 60% hafa verið skráð í borgunum Hodeidah og Aden. Mikil úrkoma og átök í landinu hefur raskað vatnsbirgðum en vegna þessara truflana hefur fólk sjálft þurft að safna regnvatni. Það hefur m.a. stuðlað að útbreiðslu moskítóflugna á viðkomandi svæðum og leitt til aukinnar smithættu á beinbrunasótt.

Verkefnastjóri Barnaheilla – Save the Children í Hodeidah í Jemen, Mariam Aldogani, er ein af þeim sem hafa smitast af beinbrunasótt en er nú að jafna sig eftir veikindin.  

Hodeidah hefur næsthæstu dánartíðinina í landinu með 62 dauðsföll árið 2019. Við höfum aldrei séð annað eins. Meira en 40 af starfsmönnum okkar, þar á meðal fjölskyldur þeirra, hafa smitast. Við fáum daglega fregnir af dauðsföllum og sumar af heilbrigðisstofnunum okkar starfa allan sólahringinn. Ein þeirra skráði 30 smit á aðeins einum degi, þar sem börn voru í meirihluta. Efnahagsástandið í landinu hefur ekki bætt ástand fólks. Foreldrar hafa ekki efni á að fara með börnin sín á næstu heilsugæslu eða sjúkrahús eða kaupa lyf fyrir þau. Sjúkrahús eru yfirfull og þurfa sumir sjúklingar að liggja á gólfinu vegna skorts á rúmum og plássi. Ung börn hafa einnig verið að smitast af veirunni og á sumum sjúkrahúsum heyrist ekkert nema í börnum sem gráta af sársauka. Við erum nú að starfa með 48 heilbrigðisstofnunum í Hodeidah og voru þar meira en 6000 tilfelli um grun á smiti skráð árið.

Heilbrigðisstofnanir sem Barnaheill – Save the Children hafa unnið með hafa fengið til sín fjölda barna sem þjást af beinbrunasótt og eru starfsmenn samtakanna að hjálpa til með að greina og meðhöndla sjúklinga og tilkynna alvarlegustu tilvikin.

Ali, 8 ára, er einn af fjölmörgum börnum sem hafa leitað til eins af sjúkrahúsunum sem Barnaheill – Save the Children eru í samstarfi við en hann greindist með beinbrunasótt í heimabyggð sinni sem er skammt frá Hodeidah. Foreldrar hans fóru með hann á Al-Thawrah sjúkrahúsið þar sem hann þiggur meðferð, ásamt 14 öðrum börnum á aldrinum 2 - 8 ára. ,,Ég þurfti að skilja allt eftir heima í þorpinu til að vera hjá syni mínum. Hann er með mjög háan hita og hefur ekki borðað neitt í þrjá daga" segir móðir Ali.

Barnaheill – Save the Children hafa dreift sjúkrabirgðum á starfssvæði sín til þess að bregðast við beinbrunasóttinni og einnig er unnið markvisst að því að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu moskítóflugna og miðla þekkingu til heilbrigðisstarfsmanna um hvernig eigi að bregðast við beinbrunasóttinni.

Vegna stöðugra átaka í Jemen sl. 5 ár er erfitt að bregðast skjótt við. Friður í landinu gæti tryggt enduruppbyggingu heilbrigðiskerfisins en það stendur frammi fyrir hruni þar sem meira en helmingur heilbrigðisstofnananna hefur verið lokað, þá m.a. annars vegna þess að sjúkrahús hafa orðið fyrir loftárásum eða vegna þess að skortur er á nauðsynlegum lyfjum og hæfu starfsfólki. Einnig stendur heilbrigðiskerfið höllum fæti eftir kólerufaraldurinn sem geysaði frá 2016 - 2019, þar sem talið er að um 2 milljón börn og fullorðnir hafi smitast.