Dagur mannréttinda barna

Barnaheill skora á skólastjórnendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum að hafa nemendaþing í skólum í tengslum við Dag mannréttinda barna sem er á morgun, miðvikudag 20. nóvember. Nemendaþing í skólum er hugsað sem ein leið af mörgum til að sjá til þess að raddir allra nemenda fái að heyrast, gera nemendur meðvitaðri um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að vera um leið þátttakendur í stefnumótun í eigin lífi. Kennarar geta nýtt þingið í vinnu með grunnþáttinn lýðræði- og mannréttindi. 

Hér eru hugmyndir og tillögur um hvernig hægt er að skipuleggja nemendaþing í skólum.

Þann 20. nóvember árið 1989, eða fyrir 30 árum, var Barnasáttmálinn samþykktur á allsherjar­þingi Sameinuðu þjóðanna. Með sáttmálanum sem var svo lögfestur á Alþingi árið 2013 var gríðarlega mikilvægt skref tekið til að tryggja með lögum réttindi barna. Árið 2016 var samþykkt á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skuli helgaður fræðslu um mannréttindi barna. Barnaheillum var falið af dómsmála- og mennta- og menningarmálaráðuneyti að sjá um framkvæmd dagsins. Barnaheill hafa undanfarin ár hvatt kennara á öllum skólastigum til að fræða börn um réttindi sín á þessum degi, m.a. með því að hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi og að þessu sinni var send hvatning í tölvupósti til allra skólastjórnenda á landinu um að hafa nemendaþing í skólunum. Barnaheill mælast til að kennarar sendi niðurstöður/samantekt af nemendaþinginu á netfangið barnaheill@barnaheill.is  Niðurstöðunum er safnað saman nafnlaust og komið á framfæri við dómsmála-, barnamála- og mennta- og menningarmálaráðuneytið sem við erum í beinu samstarfi við og verðum stjórnvöldum til hliðsjónar í stefnumótun um málefni barna og ungmenna. Einnig óska Barnaheill eftir lýsingu á hvernig nemendaþingin fara fram í skólunum og verður hugmyndunum safnað í hugmyndabanka sem mun nýtast öðrum skólum til framtíðar.