Ein jörð fyrir öll börn um ókomna tíð

Barnaheill samþykktu nýverið fyrstu umhverfisstefnu samtakanna og vilja þannig vinna enn frekar að betri heimi fyrir börn í nútíð og framtíð. Mann­réttindi og umhverfismál eru órjúfanleg og náskyld málefni. Það eru mann­réttindi að búa við heilnæmt og gott umhverfi og er heilnæmt og gott um­ hverfi er forsenda velferðar. Þegar unnið er að mannréttindum þarf jafnframt ávallt að taka tillit til umhverfisþátta. 
Um áratugaskeið hefur alþjóðsamfélagið reglulega sett sér háleit markmið um betri heim. Markmið um sjálfbæra þróun, þar sem forgangsverkefni er að uppræta fátækt og auka jöfnuð. Nú síðast Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, eða SDG2030, eða markmið sem þjóðir heims ætla sér að ná fyrir árið 2030. Með sjálfbærri þróun er átt við að núlifandi kynslóðir skili jörðinni til komandi kynslóða í því ástandi að mörguleikar þeirra til að fullnægja þörfum sínum og væntingum séu ekki minni en núlifandi kynslóða. Sjálfbær þróun er því jafnrétti milli kynslóða en einnig jafnrétti minni heimshluta. 
Heimsmarkmiðin eru 17 og eru meðal annars um heilsu og vellíðan, menntun fyrir alla, ábyrga neyslu og að uppræta fátækt. Aukin fátækt, ófriður, hungur og sjúkrdómar stafa að hluta til af loftslagsbreytingum, sóun á verðmætun, mengun og ábyrgðarleysi í ákvörðunum. Ákvörðunum sem svo leiða til eyðileggingar á auðlindum og gæðum jarðar, sem kemur svo í veg fyrir að börn í nútíð og framtíð geti átt sambærilegt líf eða betra en foreldrar þeirra. 
Því er mikilvægt að samtök eins og Barnaheill, sem vinna að mannréttindum barna og velferð leggi sitt lóð á þær vogaskálar.
Margrét Júlía Rafnsdóttir - greinin birtist í Blaði Barnaheilla 2017.

 


UMHVERFISSTEFNA BARNAHEILLA:

 


Barnaheill – Save the Children á Íslandi vilja að tryggt sé að öll heimsins börn í nútíð og framtíð njóti þeirra réttinda sem þeim ber samkvæmt Barnasáttmálanum. Mikilvægt er að stuðla að jafnrétti milli heimshluta og en einnig milli kynslóða; að komandi kynslóðir geti notið réttinda sinna, búið við öryggi og vernd og uppfyllt þarfir sínar, ekki síður en núlifandi kynslóðir.
Því munu samtökin með störfum sínum í þágu barna hafa sjálfbæra þróun að leiðaljósi. Til að jörðin verði áfram byggileg, þarf að nýta auðlindir með sjálfbærum hætti, minnka sóun, vinna gegn loftslagsbreytingum, vernda vistkerfi, vinna að jöfnuði í heiminum, gæta jafnræðis og uppræta fátækt. Jafnframt að stunda lýðræðisleg vinnubrögð, efla þátttöku barna og ungmenna og taka mið af fjölbreytileika samfélaga. Í hverju verkefni sem unnið er í anda sjálfbærrar þróunar skal huga jafnt að umhverfisþáttum, félagslegri velferð og hagrænum þáttum.
Við allar ákvarðanatökur, framkvæmdir, rekstur, innkaup og aðra starfsemi á vegum Barnaheilla skal leitast við að neikvæð áhrif á fólk, umhverfi og náttúru séu í lágmarki.
• Leggja skal áherslu á vistvæn innkaup á vörum og þjónustu, fram- kvæmdum og framleiðslu.
• Dregið verði úr hvers kyns sóun verðmæta, myndun úrgangs og stuðlað að endurnýtingu og endurvinnslu með góðri nýtingu hráefna og flokkun.
• Stuðlað verði að notkun vistvænna samgangna. • Þekking og vitund um umhverfismál og umhverfisvæna lífshætti verði aukin með fræðslu til starfsmanna og félagsmanna.


Ein jörð fyrir öll börn – um ókomna tíð, umhverfisstefna Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og framkvæmd hennar skal vera liður í daglegu starfi samtakanna. Stefnuna skal kynna fyrir starfsfólki, stjórn og félagsmönnum vera öllum aðgengileg á vef félagsins. Stefnuna skal endurskoða á þriggja ára fresti. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á stefnunni og framkvæmd hennar. Við framkvæmd stefnunnar skal leitast við að hafa jafnræði allra og jafnrétti að leiðarljósi. Stefnan byggir á alþjóðlegum samþykktum, svo sem barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum, reglugerðum og áætlunum um umhverfismál. Stefnuna skal samþætta öðrum stefnum samtakanna.
Við framkvæmd stefnunnar skal leitast við að hafa jafnræði allra og jafnrétti að leiðarljósi. Stefnan byggir á alþjóðlegum samþykktum, svo sem heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, SDG2030, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum, reglugerðum og áætlunum um umhverfismál. Stefnuna skal samþætta öðrum stefnum samtakanna.
Með því að vinna að sjálfbærri þróun vilja Barnaheill – Save the Children á Íslandi lágmarka það vistspor sem samtökin marka og þannig hámarka þann arð sem samtökin skila til barna í nútíð og framtíð. Barnaheill vilja jafnframt vekja athygli á mikilvægi þess að tryggja rétt barna í nútíð og framtíð til heilnæms umhverfis.
Með stefnunni vilja Barnaheill vera öðrum samtökum fyrirmynd og hvatning til að vinna að umhverfismálum, til umhverfisvænna lífshátta og til að vinna að sjálfbærri þróun, núlifandi og komandi kynslóðum til heilla. Þannig verður jörðin okkar fyrir öll börn um ókomna tíð.