Seinni bylgja Covid-19 faraldursins banvænni í Afríku en annars staðar í heiminum. Nauðsynlegt að tryggja Afríkuríkjum aðgengi að bóluefni

Börn í Malaví, en Malaví hefur næst hæsta hlutfall fjölgandi smita í heiminum.
Börn í Malaví, en Malaví hefur næst hæsta hlutfall fjölgandi smita í heiminum.

Barnaheill - Save the Children vara við því að líf þúsunda barna í Afríku sé í hættu vegna annarrar bylgju Covid-19. Samtökin óttast að mörg Afríkuríki verði neydd til þess að bíða í marga mánuði eftir bóluefni gegn Covid-19.

Í Afríku eru sex af tíu löndum með hæstu tíðni af staðfestum Covid-19 tilfellum. Dánartíðni í álfunni vegna Covid-19 er nú einnig hærri en meðaltal á heimsvísu - með dánartíðnina 2,5% en meðaltal í heiminum er 2,2%.

Barnaheill - Save the Children hvetja ríkari þjóðir til þess að bregðast við þeirri neyð sem nú ríkir í Afríku með því að útvega aðgengi að súrefni og bóluefni. Súrefni, sem er almennt fáanlegt í ríkari löndum heimsins er víða um Afríku erfitt að útvega og telst til ,,lúxusvara”.  Allar tafir á bólusetningu heilbrigðisstarfsmanna gegn Covid-19 geta raskað nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í Afríkuríkjum.

Malaví hefur nú næsthæsta hlutfall fjölgandi smita í heiminum, en tilfellin hafa tvöfaldast á aðeins tólf dögum, úr 9.991 þann 14. janúar, í 20.830 tilfelli þann 26. janúar. Samvkæmt Global Health Index Security 2019 er Malaví í hópi þeirra landa í heiminum sem er hvað verst undirbúið undir að bregðast við veirunni, en þar er mikill skortur á súrefni og gjörgæsluplássi í landinu fyrir þá sem veikjast. Hætta er á að heilbrigðiskerfið nái ekki að takast á við vaxandi álag vegna Covid-19, sem bitnar á getu þess til að bregðast við öðrum veikindum eins og lungnabólgu hjá börnum, sem hægt er að fyrirbyggja auðveldlega ef réttu tólin eru til staðar.

Framkvæmdastjóri Save the Children í Malaví, Kim Koch segir álagið hafa margfaldast í kjölfar heimsfaraldurs.

Starfsfólk okkar vinnur sleitulaust að því að veita börnum stuðning við sífellt erfiðari aðstæður. Það leggur sig í hættu og þarf að aðlaga verkefni sín að faraldrinum. Það var mikið álag á starfsfólk fyrir heimsfaraldur, þar sem heilbrigðiskerfið hér er mjög veikt og hefur álagið nú margfaldast.

Svæðisstjóri Save the Children í austur- og sunnanverðri Afríku, Ian Vale, segir nauðsynlegt að lágtekjuríkjum sé tryggt bóluefni við Covid-19, þar sem þau eru mun verr í stakk búin til þess að berjast við faraldurinn en önnur ríki.

Vesturlönd eru um þessar mundir að tryggja bóluefni fyrir sína þegna og eru þau að keppast um sömu skammta og fátækari ríki, sem eru undir í baráttunni. Með þessari þróun verða lágtekjuríki þau síðustu til að fá bóluefni við faraldrinum.
Við skiljum vel að það er erfitt að tryggja jafnan aðgang að bóluefni, þar sem eftirspurnin er mun meiri en framboðið. Það blasir við alþjóðlegt misrétti sem leiðir af sér að fátækari ríki verða mun lengur að koma sér upp úr faraldrinum en önnur ríki. Það má lítið út af bregða hjá þeim ríkjum þar sem heilbrigðiskerfið er veikt fyrir og mun þetta hafa gríðarleg langtímaáhrif ef ekki er tryggt að fátækari ríki fái líka bóluefni sem fyrst.

Barnaheill - Save the Children eru mjög áhyggjufull yfir áhrifum heimsfaraldurs á menntun barna til lengri tíma. Því lengur sem börn eru utan skóla, því minni líkur eru á að þau snúi aftur. Rannsóknir Save the Children á síðasta ári leiddu í ljós að um 10 milljónir barna muni aldrei snúa aftur í skólann.

Barnaheill - Save the Children hvetja stjórnvöld Vesturlanda til að aðstoða lönd í Afríku að bregðast við faraldrinum í álfunni með því að útvega súrefni og aðgengi að bóluefni. Einnig hvetja samtökin stjórnvöld í lágtekjuríkjum til þess að fara eftir leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um forgangsröðun bóluefna. Þetta felur í sér að tryggja að kennarar séu meðal þeirra fyrstu til að verða bólusettir, ásamt öðrum forgangshópum á borð við heilbrigðisstarfsmenn í framlínu. Það er nauðsynlegt til að tryggja að börn hljóti áfram menntun og að skólar geti opnað á ný.