Fátækt barna í norrænni velsæld

Skýrsla Barnaheilla – Save the Children á Norðurlöndum um fátækt á meðal barna er komin út.

Ríki Norðurlandanna hafa lengi státað sig af öflugu velferðarkerfi, þar sem innviðir eru nýttir til að jafna stöðu fólks og tryggja þar með öllum jöfn tækifæri, bestu mögulegu heilsu, menntun og öryggi. Í skugga þess eru börn sem alast upp við fátækt. Um er að ræða rúmlega 11% barna í Noregi, 12% í Finnlandi, 5% barna í Danmörku, 19% í Svíþjóð og 13,1% barna á Íslandi sem eiga á hættu að alast upp við fátækt og félagslega einangrun. Á Norðurlöndum alast 719.500 börn upp á lágtekjuheimilum.

Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu Barnaheilla – Save the Children á Norðurlöndum.

Töluverður munur er á milli landanna þegar hlutfall barna sem eiga á hættu að búa við fátækt eru skoðaðar, Þess ber þó að geta að mælikvarðar eru mismunandi eftir löndum og þarf því að taka tölum með fyrirvara þó að munurinn sé umtalsverður, frá 5 til 19%. Í Danmörku miðast mælingar við 50% af meðaltekjum, en viðmiðið er 60% í hinum löndunum. En hvað er sammerkt með ríkjunum og hvað er ólíkt?

  • Danmörk, Svíþjóð og Ísland hafa hvorki stefnu né aðgerðaáætlun til að uppræta fátækt. Það hafa hins vegar Noregur og Finnland.
  • Ísland er eina ríki Norðurlanda þar sem barnabætur eru einungis handa lágtekjufjölskyldum. Í hinum ríkjunum fá allar fjölskyldur með börn yngri en 18 ára stuðning eða barnabætur. Sammerkt er að greitt er meira með börnum yngri en 6 eða 7 ára en þeim sem eldri eru. Þrátt fyrir að allar barnafjölskyldur í hinum norrænu ríkjum fái greitt með börnum sínum er greiðslan ekki talin nægjanleg. Mismunandi reglur um búsetu og fleira gilda í hverju landi.
  • Öll löndin bjóða börnum upp á frístund eftir skóla á niðurgreiddu verði, en mismunandi er hve mikið og hve lengi börn njóta þjónustunnar. Í Noregi er þjónustan gjaldfrjáls fyrir tvö fyrstu árin og stefnt er að því að svo verði einnig fyrir þriðja og fjórða bekk.
  • Grunnmenntun er gjaldfrjáls alls staðar á Norðurlöndum en alls staðar er einhver falinn kostnaður við skólagöngu barna sem foreldrar þurfa að greiða. Þar má nefna skemmtanir sem börnin sækja saman eftir skóla, börn leggja í púkk fyrir gjöfum og fleira. Þetta er valfrjálst en enginn vill skorast undan. Börn sem búa við fátækt segjast gjarnan ekki komast á viðburði til að hlífa foreldrum sínum við að þurfa að greiða. Heimili eru misvel tækjum og tækni búin og kom það berlega í ljós þegar reiða þurfti á tæknina í Covid 19 faraldrinum. Sammerkt er með öllum löndunum að börn sem búa við fátækt sýna yfirleitt verri námsárangur.
  • Í Svíþjóð og Finnlandi er boðið upp á eina gjaldfrjálsa máltíð á dag í grunnskólum. Á Íslandi er skólamatur víðast hvar niðurgreiddur.
  • Mikil hefð er fyrir tómstundaiðkun meðal barna á Norðurlöndum. Í öllum löndunum er boðið upp á einhvers konar frístundastyrki, sem nægja þó hvergi til að standa straum af kostnaði og þar með jöfnum tækifærum fyrir öll börn til að stunda tómstundir. Börn úr lágtekjufjölskyldum og úr fjölskyldum þar sem lítil hefð er fyrir tómstundaiðkun taka síður þátt í tómstundum. Börn frá þessum fjölskyldum mæta alls kyns hindrunum, bæði fjárhagslegum og félagslegum, svo sem vegna kaupa á búnaði, fá síður stuðning og aðstoð við að komast til og frá æfingum, tungumálaerfiðleikum og fleira. Í Finnlandi er í gangi verkefni í 250 sveitarfélögum, þar sem börnum í 1.-6. bekk er boðið upp á gjaldfrjálsar tómstundir.
  • Fjölskyldur sem búa við fátækt búa við verri og minni húsakost en almennt gerist og gjarnan er húsnæðið í umhverfi þar sem ekki er félagsleg blöndun. Alls staðar er félagslegt húsnæði í boði, en langir biðlistar. Í Svíþjóð voru a.m.k. 15.000 heimilislaus börn árið 2017. Framfærslukreppan undanfarið jók kostnað vegna húsnæðis alls staðar.

Segja má að meira sé líkt en ólíkt á meðal ríkja Norðurlanda. Öll þessi ríki hafa staðfest eða jafnvel lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og skuldbundið sig til að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (SDG) og þar með vinna gegn fátækt. Barnasáttmálinn kveður á um þau réttindi sem börn eiga að njóta til að vaxa, þroskast og eiga innihaldsríkt líf. Ekki má mismuna börnum hvað varðar þessi réttindi.

Sáttmálinn kveður jafnframt á um skyldur stjórnvalda til að veita börnum þessi réttindi, svo sem um efnahagslegan og félagslegan stuðning ef þörf er á, tryggt húsnæði og þátttöku svo sem í menningu og tómstundum.

Norðurlandaráð er helsti samstarfsvettvangur norrænna ríkja. Ráðið hefur samþykkt tilmæli um að staða barna í lágtekjufjölskyldum sé skoðuð með það að markmiði að takast á við stöðuna og uppræta fátækt. Ekki síst þarf að skoða áhrif Covid 19 faraldursins á velferð barna. Vísbendingar eru um að fátækt hafi aukist vegna faraldursins. Þessi skýrsla er innlegg í þá vinnu.

Svokölluð evrópsk stoð um félagsleg réttindi eða European pillar of social right gerir ráð fyrir að fyrir árið 2030 muni 15 milljónum færri Evrópubúar búa við fátækt en nú er og þar af 5 milljónir barna. Til að svo megi verða þurfa öll ríki Evrópu og þar með hin norrænu velferðarríki að marka sér stefnu og aðgerðaáætlun með mælanlegum markmiðum.

Barnaheill – Save the Children á Norðurlöndum skora á stjórnvöld Norðurlanda að;

  • Allar stefnur og áætlanir um að uppræta fátækt á meðal barna skuli byggðar á þeim réttindum sem börn eiga, með skilningi á þörfum þeirra og stöðu. Börnum þarf að gefa kost á að taka þátt í öllum þeim ákvörðunum sem teknar eru um þeirra málefni.
  • Líta á fjármagn sem varið er til barna og málefna þeirra sem fjárfestingu og samfélagslegan sparnað til lengri tíma.
  • Tryggja að barnabætur nái til allra barnafjölskyldna, hvernig svo sem staða fjölskyldunnar er eða hvort hún er samsett eða dreifð (s.s. börn sem búa á tveimur heimilum og börn innflytjenda).
  • Auka gæði og aðgengi að allri heilbrigðisþjónustu, einnig geðheilbrigðisþjónustu. Öll heilbrigðisþjónusta fyrir börn sé gjaldfrjáls.
  • Tryggja gjaldfrjálsa menntun og gjaldfrjálsar máltíðir í skólanum. Meira eftirlit og reglur þarf með földum kostnaði vegna skólagöngu barna.
  • Aðgengi allra að heilnæmum mat sé gott og á viðráðanlegu verði.
  • Öllum barnafjölskyldum sé tryggt öruggt og heilsusamlegt húsnæði.
  • Tryggja að öll börn geti stundað tómstundir og öllum hindrunum fyrir því sé rutt úr vegi.
  • Meta áhrif loftslagsbreytinga á börn. Í öllum áætlunum sem gerðar eru til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar og mæta áhrifum þeirra þarf að taka mið af velferð barna.

Börn sem alast upp við fátækt njóta ekki þeirra réttinda sem þeim ber og eru svipt tækifærum til að eiga sambærilegt líf og félagar þeirra. Þau búa við skort á efnislegum gæðum, búa við lakari heilsu, verra fæði og hafa síður tækifæri til menntunar og tómstunda. Líklegra er að þessi börn muni búa við fátækt sem fullorðnir einstaklingar en önnur börn. Þar sem sárafátækt er sjaldgæf á Norðurlöndum hafa afleiðingar þess að alast upp í fátækt verið vanmetnar til þessa í hinum norrænu velferðarríkjum.

Hver eru þessi börn? Þetta eru til dæmis börn einstæðra foreldra, börn innflytjenda, börn í barnmörgum fjölskyldum, ekki síst með ung börn, börn í fjölskyldum með veika félagslega stöðu, fjölskyldur sem kljást við veikindi, eru á leigumarkaði og með lágar tekjur.

Við þurfum að tryggja að þessi börn geti átt innihaldsríkt líf, þau njóti heilbrigðis og menntunar, geti átt drauma sem rætast og tekið þátt í samfélagi annarra barna. Tryggjum þeim tækifæri. Þannig auðgum við samfélag allra