Fátækt - húsnæðisöryggi allra barna verði forgangsatriði

,,Heimili sem er öruggt og heilsusamlegt er ein grundvallarforsenda fyrir þroska barna, heilsu þeirra, menntun og félagslíf." Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar grein sem birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 21. mars 2015.

Heimili sem er öruggt og heilsusamlegt er ein grundvallarforsenda fyrir þroska barna, heilsu þeirra, menntun og félagslíf. Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur lögfest, eiga öll börn rétt á að lifa og þroskast og að búa við aðstæður sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska þeirra. Ekki má mismuna börnum vegna stöðu þeirra eða foreldra þeirra, svo sem sökum efnahags foreldra.

Börn þurfa aðstöðu og næði á heimili sínu til að vinna heimavinnu, leika sér og geta boðið félögum sínum heim. Börn sem búa við fátækt eru líklegri til að búa ekki við þessar aðstæður.

Samkvæmt skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla – Save the Children, sem kom síðastliðið vor, kemur fram að um 16% íslenskra barna, eða um 12.000 börn, eiga á hættu að búa við fátækt. Þar kemur jafnframt fram að allt að 30% barnanna búa í húsnæði sem er óviðunandi og jafnvel við mikið þröngbýli. Um 40% barnanna búa við þær aðstæður að húsnæðiskostnaður er fjölskyldunni þungur baggi – og henni jafnvel ofviða. Of stór hluti heimilistekna fer í húsnæðiskostnað og því er fjármagn af skornum skammti til annarra þátta á borð við tómstundir barnanna eða heilsueflingu. Börnin búa í mörgum tilfellum við tíða flutninga, sem gerir það að verkum að þau missa tengsl við gamla félaga og vini og ná ekki að eignast nýja eða verða hluti af hópnum á hverjum stað. Þau eiga því á hættu að verða félagslega einangruð.

Allir eigi öruggt heimili
Húsnæðismál hafa verið mikið í umræðunni undanfarin misseri á Íslandi, ekki síst vegna mikils kostnaðar barnafjölskyldna og óöryggis á leigumarkaði. Í nýútkominni skýrslu Velferðarvaktar velferðarráðuneytisins, sem Barnaheill eiga sæti í, eru sett fram markmið til að vinna bug á fátækt. Eitt af þeim markmiðum er að stjórnvöld tryggi að allir eigi öruggt heimili, ekki síst að börn búi við tryggt húsnæði til lengri tíma. Barnaheill – Save the Children á Íslandi hvetja stjórnvöld til að vinna hratt og örugglega að því að ná þessu markmiði.

Mikilvægt er að hafa ávallt í huga að börn bera ekki ábyrgð á þeirri stöðu sem þau eru í. Börn sem alast upp við fátækt eru jafnframt líklegri til að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar. Að alast upp við fátækt hefur víðtæk áhrif á möguleika barna til framtíðar. Bernskan er afar mikilvæg og líður hratt. Því er brýnt að vinna hratt að því að tryggja öllum börnum bestu mö