Fjöldi ábendinga um barnaklám

Alls hafa borist tæplega 550 ábendingar um barnaklám frá notendum Netsins hér á landi, eða tæplega 100 á mánuði að meðaltali, frá því verkefni Barnaheilla, Stöðvum barnaklám á Netinu, fór af stað í lok október sl.
Þá var komið upp tilkynningahnappi á vef samtakanna, www.barnaheill.is, þar sem notendur Netsins eru hvattir til að láta vita ef þeir rekast á barna-klám. Allar vefsíður með barna-klámi, sem Barnaheill hafa fengið ábendingar um hingað til, eru vistaðar á netþjónum erlendis.

Alls hafa borist tæplega 550 ábendingar um barnaklám frá notendum Netsins hér á landi, eða tæplega 100 á mánuði að meðaltali, frá því verkefni Barnaheilla, Stöðvum barnaklám á Netinu, fór af stað í lok október sl. 
Þá var komið upp tilkynningahnappi á vef samtakanna, www.barnaheill.is, þar sem notendur Netsins eru hvattir til að láta vita ef þeir rekast á barna-klám. Allar vefsíður með barna-klámi, sem Barnaheill hafa fengið ábendingar um hingað til, eru vistaðar á netþjónum erlendis.

„Þessi viðbrögð sýna að Íslendingar láta sig þetta mál miklu varða og eru tilbúnir að vinna með Barnaheillum að því að uppræta það ofbeldi á börnum sem hefur viðgengist á Netinu. Og við erum ekki ein í þessari baráttu því fleiri samtök og félög hér á landi, s.s. Heimili og skóli og bandalag evrópskra tölvunotenda (CECUA), vinna einnig að því að auðvelda foreldrum að verja börn sín gegn hættum á Netinu,” segir Kristín Jónasdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla.
Barnaheill eiga aðild að Inhope, alþjóðlegum samtökum sem berjast gegn barnaklámi á Netinu. Verkefnið nýtur styrks undir framkvæmdaáætlun Evrópusambandsins um öryggi á Netinu, Safer Internet Action Plan.
Starfsfólk Barnaheilla fylgir reglum Inhope um meðferð ábendinga. Vefsíður sem ábendingar berast um eru skoðaðar og metið hvort á þeim komi fram barnaklám. „Sem betur fer er ekki alltaf um barnaklám að ræða og/eða vefsíða er þannig sett upp að það er erfitt fyrir okkur að meta það. Stundum hefur síðum verið lokað eða slóðum breytt. Því er brýnt að skoða ábendingar fljótt og koma þeim í réttan farveg. Upplýsingar um síður, sem virðast vistaðar í landi þar sem Inhope starfar, eru sendar áfram til samstarfsfólks þar. Að öðrum kosti er lögreglu hér tilkynnt um slóðirnar.”
Kristín segir að hið alþjóðlega samstarf Inhope og yfirvalda hafi þegar leitt til handtöku barnaníðinga í mörgum löndum og fjöldi barna hafi fengið hjálp. Hún hvetur notendur Netsins hér á landi til að halda áfram að senda ábendingar til Barnaheilla og taka þannig þátt í því að stöðva barnaklám á Netinu. „Því fleiri sem leggja okkur lið, því meiri von gefum við þeim börnum sem verða fyrir þessu ofbeldi og óhamingju.”