Gleði, samvera og leikir í Laugardalnum í tilefni af Degi barnsins

Barnaheill – Save the Children á Íslandi í samvinnu við Langholtsskóla og Laugarnesskóla efna til gleði- og samverustundar klukkan 10.00 í Laugardalnum í Reykjavík í dag. Áhersla verður lögð á hreyfingu en samtökin vinna nú að átaksverkefni um hreyfingu og almennt heilbrigði íslenskra barna.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi í samvinnu við Langholtsskóla og Laugarnesskóla efna til gleði- og samverustundar klukkan 10.00 í Laugardalnum í Reykjavík í dag. Áhersla verður lögð á hreyfingu en samtökin vinna nú að átaksverkefni um hreyfingu og almennt heilbrigði íslenskra barna.

Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar frá því í október árið 2007, er Dagur barnsins haldinn hátíðlegur síðasta sunnudag í maí ár hvert. Yfirskrift dagsins í ár var „Gleði og samvera“. Barnaheillum – Save the Children á Íslandi þótti því kjörið að fá tvo skóla í nágrenni Laugardalsins til samstarfs og efna til samverustundar við minnismerki samtakanna í dalnum, Rósina, þar sem áhersla er lögð á heilbrigða hreyfingu og skemmtun með börnum.

Alls ætla um 300 börn að skemmta sér saman við leiki á borð við snú snú, stórfiskaleik, reiptog, myndastyttuleik og fleiri góða og sígilda leiki. Eftir leikina mun leiðin liggja í húsdýragarðinn, þar sem boðið verður upp á stutt skemmtiatriði og veitingar; margaríta-pítsur frá Domino‘s og heilsusafa frá Ölgerðinni.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi vinna nú að átaksverkefninu „Hreyfing og líkamlegt heilbrigði“. Átakinu er ætlað að efla vitund um mikilvægi heilbrigðs lífs fyrir börn; hvort sem er út frá líkamlegu og andlegu heilbrigði eða í forvarnarlegu tilliti. Verkefnið byggir á ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt barna til heilsuverndar og banni við mismunun. Auk þess byggir átakið á ákvæðum sáttmálans um ábyrgð foreldra og aðildarríkja. 

Það er full ástæða til að fylgjast vel með þróun heilbrigðis barna hér á landi, bæði hvað varðar næringu og þyngd. Báðir þættirnir geta haft heilsufarslegar afleiðingar fyrir börnin ásamt því að hafa einnig mikil áhrif á sjálfsmynd þeirra sem er í mótun. Foreldrar eru í lykilhlutverki í þessu sem öðru er varðar börn þeirra. Barn sem horfir á foreldra sína lifa heilbrigðu lífi, huga að hollu mataræði og stunda reglulega hreyfingu er líklegra til að vilja feta í sömu fótspor. 

Öll börn eiga rétt á að stunda hreyfingu við hæfi óháð efnahag foreldra. Flestir eru sammála um að leikir, íþróttir og almenn hreyfing hafi einnig forvarnargildi. Það er á ábyrgð okkar að skapa börnum viðeigandi vettvang til íþrótta- og tómstundaiðkana þar sem þau geta komið saman, leikið sér og fengið hreyfingu við hæfi.