Hjólasöfnun Barnaheilla er hafin

Hjólasöfnun Barnaheilla - Save the Children á Íslandi var formlega hleypt af stokkunum í dag. Villi Vísindamaður afhenti fyrsta hjólið í söfnunina í Sorpu Sævarhöfða með pompi og pragt og hvatti þannig aðra til að láta gott af sér leiða og koma ónotuðum hjólum í notkun á ný. Söfnunin stendur yfir til 15. maí og úthlutanir fara fram að loknum viðgerðum hjólanna.

Hjo´laso¨fnun 2017Hjólasöfnun Barnaheilla - Save the Children á Íslandi var formlega hleypt af stokkunum í dag. Villi Vísindamaður afhenti fyrsta hjólið í söfnunina í Sorpu Sævarhöfða með pompi og pragt og hvatti þannig aðra til að láta gott af sér leiða og koma ónotuðum hjólum í notkun á ný. Söfnunin stendur yfir til 15. maí og úthlutanir fara fram að loknum viðgerðum hjólanna.

Liv Sólrún Bastiansdóttir og Úlfur Sær Bastiansson úr Víðistaðaskóla afhentu einnig hjól í Söfnunina og Matthildur Sóley Eggertsdóttir úr Langholtsskóla tók á móti hjólunum.

Þetta er í sjötta sinn sem hjólasöfnunin fer fram en hún er unnin í samstarfi við Æskuna barnahreyfingu IOGT, Sorpu og ýmsa aðra velunnara.

1200 börn hafa fengið hjól

Hjólin verða gefin börnum og unglingum sem ekki hafa kost á því að kaupa sér reiðhjól. Hægt er að sækja um hjól hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Um 1.200 börn hafa nú notið góðs af hjólasöfnun Barnaheilla frá því henni var fyst hrundið af stað árið 2012.

Hjólunum er safnað á endurvinnslustöðvum Sorpu. Þau eru gerð upp af sjálfboðaliðum undir styrkri stjórn sérfræðinga í reiðhjólaviðgerðum áður en þau verða afhent.

Hægt er að fylgjast með verkefninu á Facebook síðu söfnunarinnar og einnig er hægt að skrá sig þar til þátttöku í sjálfboðaliðastarf fyrir hjólaviðgerðir.

Á myndinni eru frá vinstri Guðmundur Tryggvi Ólafsson hjá Sorpu, Liv Sólrún Bastiansdóttir (10 ára) úr Víðistaðaskóla, Villi Vísindamaður, Erna Reynsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, Úlfur Sær Bastiansson (8 ára) úr Víðistaðaskóla, Aðalsteinn Gunnarsson frá IOGT og Matthildur Sóley Eggertsdóttir (7 ára) úr Langholtsskóla.