Hjólaviðgerðardagurinn mikli

Í dag fór fram Hjólaviðgerðardagurinn mikli þar sem sjálfboðaliðar gerðu við hjól sem safnast höfðu í hjólasöfnun Barnaheilla - Save the Children á Íslandi og hjólreiðakeppninnar Wow Cyclothon. Alls söfnuðust tæplega 500 hjól í söfnuninni.

Í dag fór fram Hjólaviðgerðardagurinn mikli þar sem sjálfboðaliðar gerðu við hjól sem safnast höfðu í hjólasöfnun Barnaheilla - Save the Children á Íslandi og hjólreiðakeppninnar Wow Cyclothon. Alls söfnuðust tæplega 500 hjól í söfnuninni.

Liðsmenn úr hjólaliðum keppninnar, leikarar úr Vesturporti og fleiri áhugamenn um góðgerðarmál létu sitt ekki eftir liggja og unnu af kappi að viðgerðum á hjólunum í blíðskaparveðri. Sjálfboðaliðarnir nutu aðstoðar sérfræðinga í reiðhjólaviðgerðum, enda brýnt að hjólin séu í góðu standi.

Tónlistarmennirnir Óskar og Ómar Guðjónssynir spiluðu á staðnum og Hamborgarabúllan bauð duglegum hjólaviðgerðarmönnum upp á hamborgara.

Mæðrastyrksnefndir út um land og fleiri aðilar munu svo dreifa hjólunum til þeirra barna sem ekki hafa ráð á að fjárfesta í hjóli.

 

WOW CYCLOTHON

WOW Cyclothon er fyrsta alþjóðlega hjólreiðakeppnin sem haldin hefur verið á Íslandi. Hjólað verður 1332 kílómetra hringinn í kringum landið dagana 19. júní -22. júní í miðnætursólinni. Í keppninni munu þrettán fjögurra manna lið keppa sín á milli um að koma fyrst í mark. Öll áheit á hjólaliðin sem taka þátt í Wow Cyclothon keppninni renna óskipt til áheitaverkefnis Barnaheilla – Save the Children á Íslandi „Hreyfing og líkamlegt heilbrigði barna“.

 

Átaksverkefnið Hreyfing og líkamlegt heilbrigði

Barnaheill – Save the Children á Íslandi vinna um þessar mundir að átaksverkefni sem byggir á ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt barna til líkamlegs heilbrigðis. Börn verða hvött til þátttöku í ýmis konar hreyfingu með reglulegum viðburðum þar sem mismunandi íþróttagreinar verða hafðar í hávegum. Verkefnið miðar að því að efla vitund barna og foreldra um heilbrigt líf fyrir börn og mikilvægi reglulegrar hreyfingar. Aðal markmið átaksins er að auka vægi hreyfingar hjá íslenskum börnum og efla þannig bæði líkamlegt og andlegt heilbrigði sem og stuðla að almennum heilsufarslegum forvörnum.