Hlustum og spyrjum hvort ofbeldi sé á heimilinu

Hvaða vitneskju hafa börn og unglingar um heimilisofbeldi? Hvernig bregðast þau við því og hvaða áhrif hefur það á börn að búa við slíkt ofbeldi? Hvernig finnst börnum samfélagið bregðast við? Hvað segja prentmiðlar um heimilisofbeldi og hvað er til ráða? 

Hvaða vitneskju hafa börn og unglingar um heimilisofbeldi? Hvernig bregðast þau við því og hvaða áhrif hefur það á börn að búa við slíkt ofbeldi? Hvernig finnst börnum samfélagið bregðast við? Hvað segja prentmiðlar um heimilisofbeldi og hvað er til ráða? 

Leitað er svara við þessum spurningum í bókinni Ofbeldi á heimili með augum barna. 

Á síðari árum hefur heimilisofbeldi nokkuð verið rannsakað meðal fullorðinna hér á landi, en sérstaða bókarinnar felst í þátttöku grunnskólabarna hér á landi í að rannsaka hugmyndir, vitneskju, viðhorf og eigin reynslu þeirra af heimilisofbeldi. Bókin byggir á fjórum rannsóknum, en efnið hafði ekki áður verið kannað meðal almenns hóps barna. 

Niðurstöður bókarinnar um hugmyndir barna og unglinga um heimilisofbeldi byggja á könnun sem lögð var fyrir rúmlega 1100 börn í 4. – 10. bekk grunnskóla. Þær sýna að grunnskólabörn hér á landi og sérstaklega unglingar þekkja almennt vel til þessa. Mörg geta útskýrt hvað felst í orðinu og þau leggjast gegn ofbeldinu. 

Börnin svöruðu meðal annars spurningum um hvort þau þekktu einhvern sem hefði orðið fyrir heimilisofbeldi. Um fjórðungur svaraði þessu játandi. Hærra hlutfall barna með slíka vitneskju telur að bæði karlar og konur verði fyrir ofbeldi á heimili. Unglingar með þessa reynslu álíta ofbeldi á heimili almennt algengara en aðrir unglingar. Erfitt er að meta hvort börn sem svöruðu játandi hafi sjálf orðið fyrir ofbeldi. Ef návígið við slíkt athæfi er mikið má jafnvel líta á slíka vitneskju sem reynslu af ofbeldi. Þá vekur kynjamunur í svörum unglinga athygli en stúlkur virðast fróðari um ofbeldið og telja það algengara en drengir. Algengast er að börnin hafi heyrt um heimilisofbeldi í fjölmiðlum og í skólanum, en erfitt er að geta sér til um inntak þeirrar umfjöllunar. Því er mikilvægt að ræða um ofbeldi á heimilum sem og í skólum og tryggja gæði umræðunnar. Auk beinnar fræðslu getur markviss umræða auðveldað börnum sem kunna að búa við ofbeldi að takast á við það. Fræðimenn benda á að með aukinni fræðslu megi draga úr umburðarlyndi gagnvart ofbeldi. Æskilegt er foreldrar ræði við börn sín og útskýri um hvað heimilisofbeldi snýst þegar tilefni er til. 

BókakápaReynsla barna og mæðra sem bjuggu við langvarandi ofbeldi á heimilum sýna að ofbeldið hafði margvíslegar afleiðingar á borð við veikindi, ótta, svefntruflanir og einangrun, svo fátt eitt sé nefnt. Fjallað er ítarlega um birtingarform ofbeldisins, bæði með vísan til rannsókna og til þess hvað börn og mæður segja um áhrifin. Kemur fram að þau telja að andlegt ofbeldi geti verið hvað verst. Börn sem búa við ofbeldi á heimili verða bæði beint og óbeint áskynja um það. Áhrif þess að verða sjálfur fyrir ofbeldinu og að verða vitni að því eru nú lögð að jöfnu og geta þau verið alvarleg og langvarandi. Nánast allir viðmælendur höfðu losnað úr þessum hörmulegu aðstæðum þegar rætt var við þá. Athugun á líðan unglinga í skóla á meðan á ofbeldinu stóð heima fyrir sýndi að skólinn var þeim griðastaður en vanlíðan þeirra var mikil þó að þau létu yfirleitt ekki á neinu bera þar. 

Loks sneri ein athugun að umfjöllun prentmiðla um heimilisofbeldi. Hún sýndi ólíkar tegundir orðræðu og að lítið var fjallað um aðstæður og stöðu barna. Algengust voru skrif um kynferðisofbeldi gegn stúlkubörnum. Þau gefa skakka mynd þar sem vanræksla er samkvæmt tölfræði algengasta form illrar meðferðar á börnum hér á landi. 
Hvað er til ráða í baráttunni gegn þessum mannréttindabrotum? Skorað er á fagstéttir sem starfa með börnum og fjölskyldum í þessum aðstæðum að sýna meira frumkvæði og stuðning. Út frá viðtölunum má álykta að talsvert vanti á stuðning skóla við börn og unglinga sem og fagaðila á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu og í menntakerfinu. Úttektir á leiðum til að bregðast við heimilisofbeldi liggja ekki fyrir hér á landi, en í erlendri umfjöllun bera hæst ábendingar um snemmtæk úrræði, svo sem fræðslu og virk viðbrögð fagstétta á vettvangi. Nefna má að breskar rannsóknir á skólaforvörnum gegn heimilisofbeldi sýna að bestur árangur næst ef fræðslan er á skólanámskrá. Samhent þverfaglegt teymi kennara af báðum kynjum þarf að sinna henni og skýrt þarf að koma fram að heimilisofbeldi er kynbundið og felur í sér misrétti. Þá er athyglisvert að breytt vinnulag, þar sem mæður sem leituðu aðstoðar og starfslið í barna- og heilsuvernd var markvisst spurt hvort heimilisofbeldi væri fyrir hendi, leiddi til aukningar á frásögnum og tilkynningum um það.
 
Guðrún Kristinsdóttir, prófessor, hefur setið í stjórn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi um árabil. Hún er ritstjóri og einn höfunda bókarinnar.
Grein Guðrúnar birtist í Blaði Barnaheilla.