Hundruð þúsunda barna verða fyrir ofbeldi og dauða á hverjum degi

160 skólar hafa verið sprengdir upp í Ituri-Héraði. Það hefur haft áhrif á 80.000 börn
160 skólar hafa verið sprengdir upp í Ituri-Héraði. Það hefur haft áhrif á 80.000 börn

Hungursneyð, ofbeldi, börn á flótta, börn utan skóla og skortur á grunnþjónustu. Í Kongó ríkir skelfilegt mannúðarástand og er Ituri-hérað tifandi tímasprengja.

Í júlí síðastliðnum sögðu Barnaheill - Save the Children frá því að yfir 100 börn hefðu verið drepin á aðeins nokkrum vikum í Ituri-héraði í Kongó og þar af fjórtán afhöfðuð með sveðju. Börnin í Kongó þjást mest í átökunum og hafa Barnaheill - Save the Children á Íslandi nýlega hafið mannúðaraðstoð í landinu.

Átökin í Kongó hafa staðið í yfir tuttugu ár en þrátt fyrir neyðarkall Sameinuðu þjóðanna í mars á síðasta ári, um vopnahlé vegna heimsfaraldurs, hafa átökin í landinu aukist og ofbeldi á börnum orðið alvarlegra. Að minnsta kosti 453 óbreyttir borgarar hafa verið drepnir í Ituri-héraði síðan í mars og hafa árásir verið gerðar á 160 skóla, sem hefur haft áhrif á menntun 80.000 barna. Að auki hafa 18 heilsugæslustöðvar verið eyðilagðar í héraðinu. Matvælaóöryggi hefur aukist í landinu en átök eru ein af orsökum hungurs - og hungur er ein af orsökum átaka. Þetta er hringrás sem erfitt er að rjúfa.

Hungursneyð herjar á um 6,5% allra barna undir fimm ára aldri í Ituri-héraði. Það merkir að eitt af hverjum 15 börnum er í mjög mikilli hættu á að deyja úr hungri. Barnaheill áætla að meira en helmingur íbúa í Ituri-héraði muni þjást af hungri á þessu ári og að 2,4 milljónir manna verði í brýnni þörf fyrir aðstoð. Hungur er mest meðal fólks á flótta en hundruð þúsunda hafa þurft að flýja heimili sín. Á fyrri hluta ársins 2020 þurftu að minnsta kosti 627.000 manns að flýja heimili sín í Ituri- héraði vegna ofsókna vopnaðra skæruliða.

,,Þeir komu í þorpið og drápu konur, menn og börn. Við földum okkur inni þegar við heyrðum í þeim koma en stuttu seinna var hurðinni læst að utan og kveikt í húsinu. Ég er sú eina sem lifði af,” sagði 17 ára stúlka sem flúði til í svæðisskrifstofu Barnaheilla - Save the Children í Ituri.

Frásögn stúlkunnar endurspeglar daglegt líf hundruða þúsunda barna í Ituri-héraði, sem standa frammi fyrir ofbeldi og dauða á hverjum degi.

Nauðsynlegt að koma á friði

Í ágúst á síðasta ári stóðu yfir friðarviðræður milli stríðsaðila. Friðurinn varði þó stutt og hafa árásir á óbreytta borgara færst í aukana. Barnaheill óttast að ástandið fari versnandi með hverjum deginum og ýta átökin fjölskyldum enn frekar út í fátækt.

Það er lykilatriði að rjúfa hringrás átaka í landinu, vernda börn og fjölskyldur þeirra og leyfa hundruðum þúsunda flóttamanna að snúa aftur heim. Alþjóðasamfélagið hvetur deiluaðila til að leysa úr langvarandi deilum um landréttindi og önnur mál sem átökin snúast um. Það þarf að finna leiðir til þess að ná langvarandi samkomulagi á milli allra deiluaðila. Börn og aðrir óbreyttir borgarar hafa þjáðst of lengi.

Barnaheill hvetja alla deiluaðila til að binda enda á árásir á óbreytta borgara og veita hjálparstarfsmönnum óhindraðan aðgang að fólki í neyð. Snemma á síðasta ári þurftu um 70% hjálparstarfsmanna að hætta störfum vegna ofbeldis og ofsókna í landinu. Börn þurfa á þessari aðstoð að halda, þar sem fjöldi þeirra deyr úr hungri á hverjum degi og mikill skortur er á hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu. Við höfum ekki tíma til að bíða. Við þurfum að bregðast við.

 

Börn í Kongó deyja m.a. úr hungri og sjúkdómum á borð við lungnabólgu og niðurgangi sem auðveldlega væri hægt að koma í veg fyrir. 70% hjálparstarfsmanna þurftu að hætta störfum  vegna harðra átaka og fá þessi börn því ekki þá aðstoð sem þau þurfa.